Fara í efni

Salsa kjúklingur með Mexíkó osti frá Eldhúsperlum

Potttþéttur réttur um helgar eða bara hvenær sem er. Fljótlegur og bragðmikill.
Salsa kjúklingur með Mexíkó osti frá Eldhúsperlum

Þetta mikla gúmmelaði þykir mér alveg kjörinn föstudags- eða helgarmatur. Ég eldaði réttinn á dögunum og stóð sennilega ekki lengur en 15 mínútur við eldavélina og lét ofninn sjá um restina.

Svoleiðis réttir finnst mér svo frábærir, þetta er bæði auðveldara og fljótlegra (og betra) en að panta pizzu!

Sósan er bragðmikil svo ef þið eða börnin ykkar eruð mjög viðkvæm fyrir sterku bragði er um að gera að nota milda salsa sósu og jafnvel hægt að skipta Mexíkó ostinum út og nota papriku eða pepperoni ost í staðin.

 

Salsa kjúklingur með Mexíkó osti (fyrir 6):

  • 6 kjúklingabringur
  • 1-2 msk olía eða smjör
  • Krydd, t.d chilli explosion eða önnur góð kryddblanda
  • 1 stór krukka (350 gr) salsa sósa
  • 1 askja Philadelphia light rjómaostur
  • Mexíkó ostur, smátt skorinn
  • 1/2 kjúklingateningur
  • Nokkrar tortillaflögur
  • 1 dl rifinn ostur
  • Smátt saxað ferskt kóríander (má alveg sleppa)

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður og kveikið undir pönnu á meðal-háum hita. Skerið bringurnar í tvennt, kryddið og steikið upp úr smjöri eða olíu þar til bringurnar hafa brúnast. Leggið kjúklinginn í eldfast mót.

Hellið salsa sósunni á pönnuna ásamt smátt skornum Mexíkó ostinum og rjómaostinum og hálfum kjúklingateningi. Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og hellið á pönnuna. Hitið sósuna þar til allt bráðnar en það er allt í lagi að hafa smá Mexíkó osta bita í henni, bara betra. Hellið yfir kjúklingabringurnar. Stráið yfir rifna ostinum og nokkrum lúkum af muldum tortillaflögum. Bakið í 20 mínutur.

Stráið smátt söxuðum kóríander yfir og berið fram með tortillaflögum, gróft skornum tómötum og avocado. Það má líka gjarnan bera þetta fram með hrísgrjónum, brauði eða salati.

 

Uppskrift frá eldhusperlur.com