Fara í efni

Grillborgarar með fetaostafyllingu frá Eldhúsperlum

Hvað gera konur þegar eldavélin bilar ? Jú þær taka fram grillið.
Grillborgarar með fetaostafyllingu frá Eldhúsperlum

Þessir grilluðu hamborgarar urðu fyrir valinu fyrir nokkru, enn einn grilldaginn á heimilinu.

Ég geri mér oft ferð í Kjöthöllina til að verða mér úti um gæða ungnautahakk.

Hakkið þar kallast lúxus nautahakk, inniheldur 100% gæða ungnautakjöt og er fituprósentan í hakkinu aðeins um 2-3%.

Þetta er kjörið hamborgarakjöt, helst vel saman, frábært á grillið og dúnmjúkt. Mér finnst upplagt að kaupa aðeins aukalega til að henda í frystinn og grípa í þegar næsta hamborgarapartý stendur til. Og nei, þetta er sannarlega ekki auglýsing heldur einfaldlega það sem mér þykir gott.

Þessir borgarar voru sannarlega með þeim betri sem við höfum grillað, frábært bragð af kjötinu og fetaosturinn gerði alveg útslagið. 

Grillborgarar með fetaostafyllingu (fyrir fjóra borgara):

  • 500 gr hreint ungnautahakk
  • 2 tsk worchestersósa
  • 4 msk fetaostur í vatni eða fetakubbur
  • Sjávarsalt, nýmalaður pipar og ólífuolía

Aðferð: Blandið worchestersósunni saman við nautahakkið. Skiptið kjötinu jafnt í fjóra hluta. Takið hvern hluta og skiptið honum í tvennt. Fletjið hlutana út með fingrunum þannig að úr verði átta frekar þunnir borgarar. Myljið 1 msk af fetaosti í miðjuna á fjórum borgunum. Leggið þá hinn helminginn af kjötinu yfir og pressið saman með fingrunum og gætið að kantarnir festist vel saman svo osturinn leki ekki út.

Penslið borgarana með ólífuolíu og kryddið vel með salti og pipar.

Grillið á vel heitu grilli í u.þ.b fimm mínútur á hvorri hlið.

Berið fram með því grænmeti og sósum sem ykkur þykir best. Létt jógúrtsósa passar einkar vel við borgarann að mínu mati ásamt rauðlauk, lárperu, vel þroskuðum tómötum og lambhagasalati. 

Uppskrift frá eldhusperlur.com