Fara í efni

Sushi - uppskeruveisla frá Mægðunum

Blómkálið er skemmtileg tilbreyting onn í sushi-ið.
Sushi frá þeim Mæðgum
Sushi frá þeim Mæðgum

Við höldum áfram að fagna grænmetisuppskerunni. Hvort sem við höfum ræktað okkar eigið grænmeti, eða einfaldlega njótum úrvalsins í búðunum, þá er svo gaman að töfra fram hollan mat á þessum árstíma og leyfa hráefninu að njóta sín.

Við áttum fallegt blómkál, nýuppteknar gulrætur, hnúðkál, brokkolí, rabarbara og bragðmikil jarðarber sem okkur langaði að umbreyta í fallega uppskerumáltíð.

Sushiveisla varð fyrir valinu. Við notuðum blómkálið sem fyllingu í staðinn fyrir hrísgrjón. Oft finnst okkur mjög gott að nota hýðishrísgrjón eða kínóa, en blómkálið er skemmtileg tilbreyting. Inn í sushi-ið fór ferskt grænmeti í þunnum strimlum, snöggsteikt brokkolí og rabarbarasneiðar steiktar uppúr chili. Rabarbarinn er ótrúlega skemmtilegur matreiddur á þennan hátt, algjör bragðsprengja. Svo var spicy mayo auðvitað ómissandi inn í og jarðarberin fríska upp á. 

Þessum dásamlegu sushibitum dýfðum við í blöndu af tamari sósu og engiferskoti (safa). Hvílík sæla!

Uppskriftin

- 4 rúllur
4 blöð noriþari 
2 bollar blómkálshrísgrjón (uppskrift hér fyrir neðan)
brokkolí, skorið í langa bita 
rabbarbari, skorinn í þunnar sneiðar 
gulrætur 
hnúðkál (má sleppa)
nokkur jarðaber 
spicy mayo
sambal eða annað gott chili mauk


Blómkálshrísgrjón 
1 meðalstórt blómkálshöfuð, blómin skorin af stönglinum og svo í litla bita 
1 ½ dl kasjúhnetur/furuhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst, smátt saxaðar 
1-2 msk næringarger
1 msk laukduft 
1 tsk salt
smá nýmalaður svartur pipar 

til að dýfa í: 
4 msk tamarisósa 
1 msk engiferskot

Aðferðin

  1. Skerið blómkálsblómin af stönglinum, skerið í litla bita og setjið í matvinnsluvélina í smá stund (teljið upp að 5 – það er nóg, hámark 10 sekúndur, annars verður blómkálið rammt og klesst) eða þar til kálið minnir á lítil korn eða hrísgrjón. 
  2. Blandið restinni af blómkálshrísgrjónauppskriftinni saman í stóra skál.
  3. Létt steikið brokkolíið á pönnu, t.d. í örlítilli kókosolíu.
  4. Steikið síðan rabarbarasneiðarnar á pönnu upp úr smá kókosolíu og chilli sambal blöndu eða öðru góðu chili.
  5. Skerið gulrætur og hnúðkál í strimla, jarðarberin í tvennt.
  6. Leggið blað af nori þara á bambusmottu (látið glansandi hliðina snúa niður).
  7. Setjið lag af blómkálshrísgrjónum, þjappið þeim niður og setjið síðan brokkolí, rabarbara, gulrætur, hnúðkál, jarðaber og spæsý mæjó í línu eftir ca miðju blaðinu.
  8. Rúllið sushimaki rúllunni upp, gott að vefja frekar þétt svo hún haldi sér betur.
  9. Lokið rúllunni með því að væta endann með smá vatni svo rúllan límist betur saman.
  10. Skerið hverja rúllu í 6-8 bita.
  11. Berið fram með tamari og engiferblöndunni.
  12. Njótið!

Birt í samstarfi við: