Fara í efni

Regnbogaspaghetti frá Mæðgunum

Regnbogaspaghetti frá Mæðgunum

Það er eitthvað við þessa björtu sumardaga sem kallar fram löngun í litríkan og ferskan mat hjá okkur mæðgum.

Grænmetisspaghetti er einn af þessum réttum sem okkur finnst svo góðir á sumrin. Við gerðum ljúffenga útgáfu um daginn og notuðum allt litríkasta grænmetið sem við fundum. 

Með svona fersku "pasta" finnst okkur nauðsynlegt að hafa kremaða og góða sósu, í þetta sinn skelltum við í dásamlega avókadósósu og toppuðum með hnetukurli. Regnbogapasta er gott sem léttur aðalréttur, eða sem meðlæti t.d. með grillmatnum. 

Krökkunum í okkar fjölskyldu finnst gaman að borða grænmetið svona í ræmum, en vilja ekki sósuna og þá er ekkert mál að bera sósuna fram til hliðar. 

Grænmetisspaghetti

2 gulrætur
2 fjólubláar gulrætur 
2 röndóttar rauðrófur 
1 kúrbítur

  1. Breytið grænmetinu í spaghetti með því að nota mandolin, spiralizer eða annað sniðugt tól
  2. Setjið avókadósósu og heslihnetukurl út á og toppið með næringargeri, ef vill.

Avókadósósa

1 búnt ferskur kóríander 
½ búnt steinselja 
4 hvítlauksrif 
1 dl sítrónusafi 
1 ½ dl jómfrúar ólífuolía 
1 tsk sjávarsaltflögur 
1 tsk paprikuduft 
½ tsk cuminduft 
smá cayenne pipar 
1 avókadó

  1. Setjið allt í blandara nema avókadóið og blandið vel.
  2. Bætið svo avókadóinu út í og klárið að blanda.

Heslihnetukurl

½ dl heslihnetuflögur 
½ dl kasjúhnetur, saxaðar

  1. Þurristið í ofni, kælið og setjið í krukku.

Efst

2 msk næringarger, stráið yfir eins miklu og ykkur finnst gott.

 

Njótið

Af vef maedgurnar.is