Fara í efni

Grænkálsflögur og Blómkálspopp frá mæðgunum

Nú er uppskerutíðin hafin, hvílík sæla. Fátt bragðast betur en nýupptekið grænmeti á fallegum síðsumars degi. Gulrætur, rauðrófur, blómkál, spergilkál, rófur, kartöflur, grænkál, blaðsalat, allt svo gott. Á þessum tíma árs eigum við svo gott að geta borið fram íslenskt grænmeti með öllum mat. Ofnbakað, snöggsteikt eða léttsoðið með vænum slurk af góðri jómfrúar ólífuolíu og sjávarsalti út á. Við getum líka leyft grænmetinu að vera uppistaðan í súpu, pottrétti eða salati. Svo er hægt að útbúa skemmtilegt snakk úr fersku grænmeti, það gerðum við mæðgurnar einmitt í vikunni.
Grænkálsflögur og Blómkálspopp frá mæðgunum

Nú er uppskerutíðin hafin, hvílík sæla. Fátt bragðast betur en nýupptekið grænmeti á fallegum síðsumars degi.

Gulrætur, rauðrófur, blómkál, spergilkál, rófur, kartöflur, grænkál, blaðsalat, allt svo gott.

Á þessum tíma árs eigum við svo gott að geta borið fram íslenskt grænmeti með öllum mat. Ofnbakað, snöggsteikt eða léttsoðið með vænum slurk af góðri jómfrúar ólífuolíu og sjávarsalti út á. Við getum líka leyft grænmetinu að vera uppistaðan í súpu, pottrétti eða salati.

Svo er hægt að útbúa skemmtilegt snakk úr fersku grænmeti, það gerðum við mæðgurnar einmitt í vikunni.

Grænkálsflögur og Blómkálspopp

Grænkál er eitt af því sem er í sérstöku uppáhaldi hjá okkur, enda ótrúlega auðvelt að rækta hér á landi, í pottum úti á svölum eða í garðinum. Grænkálið má nýta í svo margt, okkur finnst til dæmis voða gott að nota grænkál í sjeika og djúsa og við fáum aldrei nóg af grænkálspestóinu góða. Við búum líka til snakk úr grænkálinu, það slær alltaf í gegn. Oftast höfum við velt grænkálinu uppúr kasjúhnetudressingu áður en það fer í ofninn, en í þetta sinn notuðum við góða lífræna jómfrúarólífuolíu, sjávarsalt og krydd. Mmmm... svo gott.

Grænkálsflögur

300g nýtt grænkál 
2-3 msk jómfrúarólífuolía, lífræn
2 msk næringarger
1 msk reykt paprika
1 tsk sjávarsaltflögur

Aðferð

  1. Blandið salti og kryddi saman við ólífuolíuna.
  2. Skolið og þerrið kálið, rífið það af stönglinum, (látið stöngulinn á safnhauginn eða geymið hann í græna djúsinn) og tætið svo kálið niður í passlega bita. 
  3. Veltið kálbitunum upp úr krydduðu olíunni.
  4. Setjið á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið við 150°C á blæstri í 15-20 mín, en fylgist vel með. Það borgar sig að snúa flögunum eftir ca. 10 mínútur. 
  5. Ef nokkrar flögur eru tilbúnar á undan hinum er gott að tína þær út og leyfa hinum að klára sig.
  6. Njótið!

Hér er skemmtileg leið til að breyta fersku blómkáli í snarl. Við köllum þetta blómkálspopp því það líkist svolítið ostapoppi á disknum (allavega úr fjarlægð... og kannski með góðum skammti af ímyndunarafli...) en þetta er í alvöru talað mjög gott til að nasla á yfir góðri bók á fallegu síðsumars kvöldi.  

Blómkálspopp 

1 lítið blómkálshöfuð, íslenskt
2 msk jómfrúarólífuolía, lífræn 
2-3 msk næringarger
1 tsk chiliflögur
smá sjávarsalt


Aðferð

  1. Skerið blómkálshöfuðið í litla munnbita á stærð við poppkorn.
  2. Setjið allt í lokað ílát eða lokanlegan plastpoka og hristið saman.
  3. Njótið!

Uppskrift frá maedgurnar.is