Fara í efni

Rangar fullyrðingar um brauð

Hér hefur verið safnað saman skálduðum fullyrðingum um brauð. Hér munum við sýna fram á að þessar fullyrðingar eru efnislega rangar.
Rangar fullyrðingar um brauð

Hér hefur verið safnað saman skálduðum fullyrðingum um brauð.

Hér munum við sýna fram á að þessar fullyrðingar eru efnislega rangar.

 

Brauð gerir okkur feit

Þessi fullyrðing er algjörlega röng. Flókin kolvetni, sem eru í háu hlutfalli í brauðum, eru með því besta sem við getum boðið líkamanum okkar. Maður verður eingöngu feitur ef maður neytir fleiri hitaeininga en maður brennir. Til þess að fitna af brauði yrði maður að neyta þess í óhóflegu magni. Með neyslu á fitu fitnar maður greinilegar miklu fyrr.

Dökkt brauð er hollara

Þessi fullyrðing er bara rétt ef við neytum brauða sem eru gróf en ekki bara lituð með malti. Vissulega er malt ekki eingöngu notað út af litnum heldur gefur það kraftmikið og gott bragð. Heilkornabrauð inniheldur meira af næringarefnum og trefjum en brauð úr hvítu hveiti. En hollustan er að sjálfsögðu undir blöndunni komin.

Ný brauð valda magaverk

Þetta er alrangt, þessi vitleysa kom fyrst fram þegar hungursneyðir geisuðu svo fólk borðaði síður nýbökuð brauð. Það er vegna þess að maður á erfitt með að stoppa þegar maður smakkar nýtt brauð sem var að koma út úr ofni. Þegar maður tyggur tveggja til þriggja daga gamalt brauð tyggur maður lengur og fær fyrr mettunartilfinningu. Þannig að þessi fullyrðing, sem sett var fram fyrr á öldum, er því miður enn ótrúlega lífseig en alröng.

Því fleiri frætegundir þeim mun betra

Þetta er ekki rétt. Með orðinu fræjum á neytandinn oftast við olíurík fræ, til dæmis hörfræ. Ekki allir menn þola mikla neyslu á olíuríkum fræjum og ekki allar tegundir þeirra eru meltanlegar. Sumir menn þola brauð án sýnilegra fræja miklu betur. Hér er líka rétt blanda nauðsynleg fyrir holla næringu.

Hvítt brauð er óhollt

Rangt. Hvítt brauð, sem íslenskir bakarar framleiða, er afar ríkt af trefjaefnum. Í hverjum 100 grömmum af hvítu brauði og rúnnstykkjum er meira af trefjum en í einu epli. Þar að auki eru brauð full af vítamínum og snefilefnum sem eru manninum lífsnauðsynleg.

Hvernig lýsir glútenóþol sér?

Glúten er prótín sem finnst í korntegundum, sérstaklega hveiti, byggi og rúgkorni.Glútenóþol (e. celiac disease, celiac sprue, gluten-sensitive enteropathy) er langvinnur sjúkdómur þar sem einstaklingurinn hefur óþol fyrir ákveðnum hluta glútens.

Glútenóþol virðist vera vangreindur sjúkdómur og á síðustu árum hefur komið í ljós að hann er mun algengari en áður var talið. Ætla má að í Evrópu séu um 2-6 af hverjum 1000 íbúum með glútenóþol. Sjúkdómurinn er þó misalgengur eftir löndum. Í Svíþjóð eru um 3-4 börn af hverjum 1000 með sjúkdóminn en tíðni hans er mun lægri í mörgum öðrum löndum, þar með talið á Íslandi.

Sjúkdómurinn getur herjað á alla aldurshópa en algengast er að hann greinist hjá börnum á aldrinum eins til fimm ára og svo aftur hjá fólki í kringum þrítugt. Sjúkdómurinn er í sumum tilfellum ættgengur en einnig eykur neysla á fæðu, sem inniheldur ofangreindar korntegundir, hættuna á glútenóþoli. Því fyrr sem ungbörn fá brauð og grauta þeim mun meiri hætta er á að þau fái sjúkdóminn.

Glútenóþol hefur áhrif á slímhúð smáþarmanna og framkallar meðal annars bólgubreytingar. Við það dregur úr starfsemi þarmanna og upptaka næringarefna (vítamína, steinefna, kolvetna og fitu) verður ekki nægileg en slíkt hefur mikil áhrif á heilbrigðan einstakling. Einkennin geta verið:

  • Vaxtarstöðvun og vanlíðan hjá börnum, þau „þrífast“ ekki.
  • Vítamín- og steinefnaskortur (sérstaklega járn, kalk og fólínsýra).
  • Þreyta og almennur slappleiki (vegna járn- eða blóðleysis).
  • Langvinnur niðurgangur.
  • Þyngdartap.

Hægt er að greina sjúkdóminn eftir nokkrum leiðum. Ein er sú að taka slímhúðarsýni frá smáþörmunum við magaspeglun. Þá geta hægðir sýnt óeðlilega hátt fituinnihald. Blóðprufur geta gefið vísbendingu um almennt ástand einstaklingsins, svo sem járn- og fólínsýruskort, skort á B-12 og blóðleysi. Einnig er hægt að mæla ákveðin mótefni, IgA-vöðvanetjumótefni og prótínið gliadin, en þau finnast þegar sjúkdómurinn er virkur (það er þegar bólgubreytingar eru til staðar í þörmunum).

Til þess að draga úr líkum á sjúkdómnum er mikilvægt að fylgja leiðbeiningum frá heilbrigðisstarfsfólki um mataræði barna og reyna að forðast fæðutegundir sem innihalda glúten fram að 6 mánaða aldri.

Helsta meðferðin við glútenóþoli er rétt mataræði en hægt er að ná upp fyrri starfsemi slímhúðarinnar og halda henni við með því að neyta glútensnauðs fæðis samkvæmt ráðgjöf næringarfræðings. Einnig getur verið nauðsynlegt að taka fjölvítamín og steinefni.

Þetta svar er að mestu leyti byggt á pistli um glútenóþol á doktor.is og birt hér með góðfúslegu leyfi vefsetursins. Lesendur geta kynnt sér pistilinn í heild með því að smella hér.

Fengið af vef labak.is