Fara í efni

Taktu ábyrgð á eigin heilsu

Finnst þér við ekki vera að drukkna í endalausum blaðagreinum og umræðu um hversu feit við erum orðin og hversu mikilvægt það sé að hreyfa sig reglulega og borða hollan mat?
Taktu ábyrgð á eigin heilsu

Finnst þér við ekki vera að drukkna í endalausum blaðagreinum og umræðu um hversu feit við erum orðin og hversu mikilvægt það sé að hreyfa sig reglulega og borða hollan mat?

 
En ástæðan er einföld. Það er brýn þörf á því að reyna að vekja okkur til lífsins í orðsins fyllstu merkingu.
Ef engin breyting verður á lífstíl okkar þá mun næsta kynslóð ekki bara verða miklu feitari heldur líka í töluvert verra formi heldur en núverandi kynslóð.
 
Á heimsvísu er nú orðið talað um offitufarald. Af rúmlega 6 milljörðum jarðarbúa er talið að um 1 milljarður fullorðinna einstaklinga séu of feitir og 22 milljónir barna undir 5 ára er of þung á heimsvísu. Fjöldi ungra barna sem er of þungur hefur tvöfaldast á 20 árum og fjöldi of þungra unglinga þrefaldast.
 
Ef við horfum til Bandaríkjanna þá eru í dag 25% af bandarískum börnum of feit og 33% fullorðinna einstaklinga í Bandaríkjunum eru of feitir. Þessar tölur eru ótrúlegar en ef horft er til Íslands verðum við Íslendingar, ef áfram heldur sem horfir, búin að ná bandaríkjamönnum eftir fáein ár.
 
En hvers vegna er ekki bara í lagi að vera feitur. Hvað kemur öðrum það við?
Jú, þeir sjúkdómar sem fylgja offitu eru mjög margir.. Líkurnar á hjartasjúkdómum, sykursýki II og ýmsum tegundum krabbameina aukast til muna með offitu ásamt mörgum öðrum sjúkdómum sem of langt mál er að telja upp hér.
Sjúkdómar eru mjög dýrir fyrir þjóðfélagið og þess vegna kemur offitan okkur öllum við þar sem við þurfum að borga brúsann með skattpeningum okkar, ekki satt!
 
Það er því löngu orðið tímabært að við förum að hugsa um lífstíl okkar hvert fyrir sig. Með því að huga að heilsu okkar hugum við í leiðinni að heilsu barna okkar. Börnin okkar læra það sem fyrir þeim er haft og ef við stundum heilbrigða lífshætti gera þau það einnig. Við getum ekki ætlast til þess að þau borði hollan mat og hreyfi sig reglulega ef foreldrarnir gera það ekki.
 
Breyttur lífsstíll þarf að vera sameiginleg ákvörðun fjölskyldunnar.
Samkvæmt niðurstöðum kannana á fæðuvali Íslendinga síðustu ár er líklegasta skýringin á aukinni ofþyngd og offitu meðal Íslendinga talin vera sú að ekki hafi tekist að aðlaga orkuneyslu að minnkaðri orkuþörf sem fylgir minni líkamlegri áreynslu nútíma lifnaðarhátta. Það er fátt sem bendir til þess að orkuneysla hafi aukist á undanförnum árum en samt er þjóðin að þyngjast. Fæðuval okkar hefur breyst og oft víkur hollustan fyrir feitu skyndifæði og sætindum.
Því miður er EKKI til nein töfralausn. Að því komast þeir sem reyna skyndilausnir.
En eins og við vitum flest er lausnin í raun einföld. Hreyfa sig meira og og borða hollari fæðu..
Auðvitað er auðvelt að segja þetta. En það er löngu kominn tími til þess að við tökum ábyrgð á eigin heilsu og gerum eitthvað í okkar málum.
 
Höf:
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
 
Tekið af vef islenskt.is