Fara í efni

Sterkur matur getur aukið lífslíkur þínar

Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem birtar eru í British Medical Journal (BMJ) þá getur bragðsterkur matur ekki bara látið munn okkar loga og fengið okkur til að svitna óhóflega, hann getur einnig minnkað líkur á ótímabærum dauða. Þessi rannsókn sýndi fram á að þeir sem daglega neyttu bragðsterkra matvæla voru í minnni hættu á því að látast úr krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.
Sterkur matur getur aukið lífslíkur þínar

Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem birtar eru í British Medical Journal (BMJ) þá getur bragðsterkur matur ekki bara látið munn okkar loga og fengið okkur til að svitna óhóflega, hann getur einnig minnkað líkur á ótímabærum dauða.
Þessi rannsókn sýndi fram á að þeir sem daglega neyttu bragðsterkra matvæla voru í minnni hættu á því að látast úr krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. Áður hafa rannsóknir sýnt fram á heilsufarslegan ávinning af því að borða kryddjurtir og aðrar hafa sýnt fram á að efnasambandið capsaicin, sem er oft í bragðsterkum plöntum líkt og chili, getur minnkað líkur á offitu.

Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna heilsufarsleg áhrif neyslu á bragðsterkum mat. Rannsóknin fylgdi eftir 487.375 manns á aldrinum 30-79 ára í Kína. Þátttakendur svöruðu spurningum um neyslu þeirra á sterkum mat, rauðu kjöti, grænmeti og áfengi. Á rannsóknartímabilinu létust 20.224 einstaklingar og meðal eftirfylgni var 7.2 ár.
Niðurstöður leiddu í ljós að þeir sem sögðust borða bragðsterkan mat 3-7 sinnum í viku voru 14% ólíklegri til þess að láta lífið en þeir sem borðuðu sterkan mat sjaldnar en einu sinni í viku. Þeir sem borðuðu sterkan mat 1-2 sinnum í viku voru 10% ólíklegri til að látast en þeir sem borðuðu sterkan mat sjaldnar en einu sinni í viku. Kvenmenn voru ólíklegri til að látast ef þær neyttu sterks matar en karlar.
Algengasta kryddið sem þátttakendur í rannsókninni notuðu var ferskur og þurrkaður chilipipar. Rannsakendur töldu m.a. að efnasambandið capsacin sem er að finna í töluverðu magni í chilipipar geti verið hindrandi þáttur við myndun krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma. Lokaniðurstöður þessarar rannsóknar voru þær að: „Mögulegar ástæður þess að sterkur matur dregur úr dánartíðni eru virkni lífrænna efna í þessum matvörum en þó er þörf á mun frekari rannsóknum til að staðfesta þessa virkni“. Einnig tóku rannsakendur fram að þetta var áhorfsrannsókn (observational) þar sem þátttakendum rannsóknar var fylgt eftir og mikið var stuðst við spurningarlista sem þátttakendum voru sendir.

Þrátt fyrir ýmsa vankanta á þessari rannsókn þá eru þetta vissulega áhugaverðar niðurstöður og verður gaman að fylgjast með frekari rannsóknum á þessu sviði.

Heimildir:
http://www.medicalnewstoday.com/articles/297670.php
http://press.psprings.co.uk/bmj/august/spicyfoodres.pdf

GEIR GUNNAR MARKÚSSON
Geir Gunnar Markússon er ritstjóri heimasíðu NLFÍ. Hann er með BS próf í matvælafræði og MS próf í næringarfræði. Geir er Kópavogsbúi, giftur, á 3 dætur og einn hund. Hans áhugamál snúa að heilsu, næringu, hreyfingu og tónlist. Geir berst gegn alls kyns öfgum og hindurvísindum í næringar- og heilsufræðum.