Fara í efni

Á ég að gæta bróður míns?

Eða: Er í lagi að slugsa með lífsstílinn og hinir borga reikninginn?
Á ég að gæta bróður míns?

Eða: Er í lagi að slugsa með lífsstílinn og hinir borga reikninginn?

Vitanlega er þetta mál ekki svona klippt og skorið, en sem einstaklingar berum við ábyrgð gagnvart samfélaginu á sama hátt og samfélagið tekur ábyrgð á velferð einstaklinganna.

Flest erum við sammála um að í okkar þjóðfélagi eigi að vera hægt að ganga að góðri heilbrigðisþjónustu vísri ef sjúkdómar knýja dyra. Flest erum við líka sammála um að einstaklingurinn eigi að njóta frelsis að því marki sem það kemur ekki niður á frelsi annarra.

Heilbrigðismálin eru risavaxinn gjaldaliður sem ólíkt ýmsum öðrum gjaldaliðum er ekki mætt með sértekjum að neinu marki, þótt vissulega séu lögð myndarleg vörugjöld á áfengi og tóbak. En í þessa upptalningu vantar þriðja efnið. Sjálfur frumkvöðull frjálshyggjunnar Adam Smith nefndi nefnilega sykur í sömu setningunni og áfengi og tóbak í bók sinni Auðlegð þjóðanna, þegar hann taldi upp efni sem væru tilvalin til skattlagningar því þau væru engum manni nauðsynleg og alfarið valkvæð.

Árið 2013 var gerð tilraun hér á landi til að leggja afar hóflegt vörugjald á sykur, sem langsamlega óhollasta einstaka næringarefnið sem í boði er á opnum markaði.

Stjórnvöld afnámu svo sykurskattinn 1. janúar 2015 eftir 21 mánaðar gildistíma.

Í aðdraganda sykurskattsins var flutt inn gríðarmikið sykurfjall sem entist innlendum framleiðendum í tólf til fimmtán mánuði og á sama tíma fór heimsmarkaðsverð á sykri lækkandi, þannig að verðlagsáhrifin af sykurskattinum urðu sáralítil og jafnvel neikvæð. Þetta má lesa út úr greinargóðri skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar um sykurskattinn frá apríl 2015.

Þrátt fyrir fyrrgreindar aðstæður lagði þessi bitlausi sykurskattur árlega af mörkum um 1,5 milljarða króna tekjur á móti um 600 milljarða samfélagslegum skaða vegna sjúkdómsbyrði og ótímabærs dauða (400 milljarðar vegna glataðra góða æviára eftir mælingum WHO margfaldað með vergri landsframleiðslu á mann, plús hátt á annað hundrað milljarða vegna kostnaðar við heilbrigðiskerfið).

Í skýrslum WHO um Ísland er slæmt mataræði ótvírætt talið vera stærsta heilsufarsógnin sem að okkur steðjar og í nýjum næringarleiðbeiningum stofnunarinnar er nú mælt með að draga úr neyslu sykurs um helming frá því sem áður var. Nú eru Íslendingar eina Norðurlandaþjóðin sem leggur ekki sérstakan skatt á sykur eða sætindi – og við erum líka langfeitust.

Frelsi fylgir ábyrgð. Við getum heldur ekki verið frjálshyggjumenn meðan við leggjum heilsuna í rúst skattfrjálst með slæmum lífsstíl, en félagshyggjumenn þegar að því kemur að borga reikninginn. Opinber inngrip á borð við sykurskatt eru réttlát og nauðsynleg í heildstæðri forvarnastefnu, samfélaginu til góða.

Guðmundur Löve, Framkvæmdastjóri SÍBS

Grein af vef SÍBS.