Fara í efni

Til hvers eru speglar á líkamsræktarstöðum?

Til hvers eru speglar á líkamsræktarstöðum? Og þá er ég ekki að tala um speglana í búningsklefum.
Hnébeygjur
Hnébeygjur

Til hvers eru speglar á líkamsræktarstöðum?  Og þá er ég ekki að tala um speglana í búningsklefum.  

Speglarnir eru fyrir þig, svo þú sjáir hvernig þú framkvæmir æfingarnar.  Þú átt ekki að forðast að horfa á þig, heldur átt þú að horfa vel á þig í speglunum og sjá hver sé staðan á fótum, hnjám, mjöðmum og baki. 

Þegar þú gerir algengar æfingar eins og framstig eða afturstig þá á hné að vera í beinni línu miðað við fót og tær og hné á að  vera í sömu stefnu.  Hnéð sem vísar fram  á ekki að fara fram fyrir tær og hnéð sem beygir í átt að gólfi á nánast að snerta gólf.  Allan tíman átt þú að horfa í spegilinn og passa upp á þessa hluti, því þá eru einnig meiri  líkur á að  brjóstkassinn vísi fram en ekki niður og bakið sé þá í réttri stöðu 

Sama má segja með hnébeygjur.   Tær vísa fram eða til hliðar en hné elta þá stefnu sem fætur vísa, hné fara ekki fram fyrir tær.  Hælar eru í gólfi og rassinn fer vel aftur og kassinn upp.  Þá er einnig gott að nota hliðarspegla til að sjá passlega fettu á bakinu.  Réttu svo alveg úr þér og taktu smá auka spennu á milli herðablaða í lokin.

Það er alveg ótrúlega dapurlegt  að vera í hóptíma í speglasal og fylgjast með þegar kennarinn  setur  upp og útskýrir „æfingastöðvar“ .   Aldrei, aldrei, aldrei, og hef ég nú komið í marga tíma, hef ég heyrt kennarann ráðleggja fólki að nota speglana til að fylgjast með stöðu hnjánna í æfingunum.  Mikið frekar er æfingin sýnd inn í salinn, með rassinn að speglum.  Við sem erum að æfa og þjálfa okkar líkama þurfum að taka ábyrgð og fylgjast með hvernig við gerum æfingarnar og til þess eru speglarnir.  Ekki til að salurinn sýnist stærri. 

Sveinn Sveinsson 

Sjúkraþjálfari í Gáska      

gaski.is