Fara í efni

Iðrafita og miðlæg offita - Fita er ekki bara fita

Iðrafita og miðlæg offita - Fita er ekki bara fita

Offita er gjarnan skilgreind sem líkamsþyngdarstuðull (BMI) yfir 30. Fylgni er á milli hás líkamsþyngdarstuðuls og háþrýstings, blóðfituraskana, sykursýki og hjarta-og æðasjúkdóma.

Þó ber að hafa í huga að notkun líkamsþyngdarstuðuls til að skilgreina offitu hefur ýmsa galla. Sem dæmi má nefna að líkamsþyngdarstuðull tekur ekki tillit til líkamsbyggingar né hlutfalls vöðvamassa og fitu.

Komið hefur í ljós að sumt fólk með háan líkamsþyngdarstuðul hefur ekki hin klassísku efnaskiptavandamál sem oft tengjast offitu. Horfur þessarra einstaklinga eru því yfirleitt góðar.

Hins vegar hafa margir einstaklingar með eðlilegan eða lítið hækkaðan líkamsþyngdarstuðul sömu efnaskiptavandamál og oft tengjast offitu. Á ensku hefur þetta fyrirbæri verið kallað MONW (metabolically obese normal weight)(1).

Iðrafita

Margar rannsóknir benda til að líkamsbygging og dreifing fitu sé mikilvægari þáttur fyrir heilsu okkar en líkamsþyngd eða heildarmagn fitu í líkamanum. Þekkt er að konur hafa yfirleitt hærri fituprósentu en karlar. Samt er körlum mun hættara við fylgikvillum offitu en konum.

Svo virðist sem fitusöfnun umhverfis líffærin okkar, aðallega í kviðarholi, gegni lykilhlutverki varðandi efnaskiptatruflanir sem tengjast offitu. Þessi fita kallast iðrafita (visceral fat).

Nýleg myndgreiningartækni hefur gert okkur kleift að skilja iðrafitu frá fitu sem staðsett er undir húð (subcutaneous fat).

Of mikil iðrafita (visceral obesity) er ástand sem skapast þegar óhöfleg fitusöfnun hefur orðið umhverfis innri líffæri, aðallega í kviðarholi.

Fjöldi vísbendinga hafa komið fram um að iðrafita sé hættulegri en önnur fita. Rannsóknir á einstaklingum með offitu sýna að þeim sem hafa hæst hlutfall iðrafitu er hættara við að fá sykursýki, blóðfituraskanir og hjarta-og æðasjúkdóma en þeir sem hafa lægra hlutfall iðrafitu (2).

Miðlæg offita (central obesity) lýsir óhóflegri fitusöfnun um kvið. Þótt eitthvað af þessarri fitu sé staðsett undir húð má oftast gera ráð fyrir að fólk með miðlæga offitu hafi jafnframt of mikla iðrafitu.

Miðlæg offita er skilgreind sem mittismál

≥ 102 cm hjá körlum

≥ 89 cm hjá konum

 

Sögulegt yfirlit

Árið 1947 kynnti Jean Vague sem var prófessor við háskólann í Marseille fyrstur manna rannsóknarniðurstöður sem bentu til þess að dreifing og staðsetning fitu hefði meira forspárgildi fyrir efnaskiptatruflanir og ýmsa sjúkdóma en heildarmagn fitu í líkamanum (3).

Vague lýsti tveimur tegundum líkamsbyggingar. "Android" offita eða eplalögun lýsir fitusöfnun í efrihluta líkamans, aðallega á kvið. "Gynoid" offita eða perulögun lýsir fitusöfnun um lendar og læri. Síðarnefnda gerðin er mun algengari meðal kvenna en karla.

Dreifing líkamsfitu getur haft mikil áhrif á heilsu okkar. Fita umhverfis líffærin í kviðarholi er líklegri til að valda efnaskiptavandamálum en fita sem situr undir húð, t.d. á lærum og rasskinnum.

Í fyrstu efuðust margir um kenningar Vageues en seinni tíma rannsóknir eru taldar staðfesta að hann hafði rétt fyrir sér.

Árið 1984 sýndi mjög stór sænsk faraldsfræðileg rannsókn fram á að fylgni var á milli mittisummáls og hættunnar á að fá kransæðasjúkdóm (4,5). Síðar sýndu sömu vísindamenn fram á tengsl miðlægrar offiitu og sykursýki.

Miðlæg offita og heilsufar

Rannsóknir hafa leitt í ljós að miðlæg offita tengist aukinni hættu á sykursýki af tegund 2, blóðfituröskunum, háum blóðþrýstingi, hjarta-og æðsajúkdómum og sumum tegundum krabbameina. Flestar þessarra rannsókna hafa stuðst við mælingar á mittismáli til að skilgreina miðlæga offitu en nýlegri rannsóknir byggja gjarnan á mælingum á iðrafitu með myndgreiningartækni.

Insúlínviðnám og sykursýki af tegund 2 Insúlínviðnám er skilgreint sem skert svörun frumna líkamans við áhrifum insúlíns. Einstaklingar með insúlínviðnám hafa aukna hættu á að fá sykursýki af tegund 2.

Margir einstaklingar með miðlæga offitu hafa insúlínviðnám og sykursýki af tegund 2. Rannsóknir sýna að miðlæg offita eykur líkurnar á sykursýki meira en hár líkamsþyngdarstuðull (6).

Blóðfituraskanir Blóðfituraskanir eru algengar meðal einstaklinga með miðlæga offitu. Oft má finna hátt magn þríglýseríða í blóði og lágt magn HDL kólesteróls (“góða” kólesterólið).

Þeir sem hafa miðlæga offitu hafa oft á tíðum ekki sérlega háa þéttni kólesteróls í blóði og LDL kólesteról (“vonda” kólesterólið) er oft innan viðunandi marka. Hins vegar er fjöldi LDL agna oft hár og agnirnar eru oftar litlar en stórar. Aukinn fjöldi LDL agna og hátt hlutfall smárra agna eykur líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum (7). Þetta endurspeglast einnig í hárri þéttni af apolipoprotein B sem er sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta-og æðasjúkdóma.

Háþrýstingur

Hár blóðþrýstingur (háþrýstingur) er þekktur áhættuþáttur hjarta-og æðasjúkdóma. Háþrýstingur er algengari meðal einstaklinga með offitu en þeirra sem hafa eðlilega líkamsþyngd.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að miðlæg offita metin með mælingu á mittismáli tengist aukinni hættu á háþrýstingi (8).

Hjarta-og æðasjúkdómar

Fylgni er á milli miðlægrar offitu og hjarta-og æðasjúdóma, óháð hefðbundnum áhættuþáttum og líkamsþyngdarstuðli (9). Þannig hefur iðrafita sterkara forspárgildi fyrir hjarta-og æðasjúkdóma en offita skilgreind sem hár líkamsþyngdarstuðull.

Þekkt bandarísk rannsókn (Nurses’ Health Study) sýndi að hættan á hjarta-og æðasjúkdómum var jafnmikil meðal kvenna með offitu og kvenna sem höfðu eðlilega líkamsþyngd en aukna kviðfitu (10).

Svokölluð INTERHEART rannsókn sýndi að miðlæg offita hafði sterkari tengsl við hættu á hjartaáföllum en almenn offita skilgreind sem hækkaður líkamsþyngdarstuðull.

Krabbamein

Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni á milli offitu og aukinnar hættu á mörgum tegundum krabbameina (11).

Sambærileg gögn hafa sýnt fylgni á milli miðlægrar offitu og aukinnar hættu á krabbameini í ristli eða endaþarmi, brjóstakrabbameini meðal kvenna, blöðruhálskrabbameini og krabbameini í vélinda.

Hvað veldur miðlægri fitusöfnun?

Orsakir miðlægar offitu eru ekki að fullu þekktar. Hvers vegna safna sumir einstaklingar iðrafitu en aðrir ekki?

Aldur og kyn skiptir máli. Ungt fólk er líklegra til að safna fitu undir húð (subcutaneous fat) en iðrafitu. Hlutfallið á milli fitu undir húð og iðrafitu minnkar yfirleitt með hækkandi aldri. Þá hafa konur yfirleitt meiri fitusöfnun undir húð en karlar á sama aldri.

Karlmenn eru líklegri til að safna fitu á efri hluta líkamans á meðan konur eru líklegri til að safna fitu á læri og rasskinnar.

Kynhormón virðast skipta máli. Karlmenn með lágt testósterón í blóði hafa yfirleitt meiri iðarafitu en þeir sem hafa eðlileg testósterón gildi.

Rannsóknir sýna einnig að erfðaþættir hafa áhrif á hlutfall fitusöfnunar undir húð og iðrafitu (12).

Þáttur mataræðis

Tiltöluega fáar rannsóknir hafa skoðað þátt mataræðis í tilurð miðlægrar offitu.

Svokölluð PREDIMED rannsókn sýndi að Miðjarðarhafsmataræði með viðbættum hnetum leiddi til minni miðlægrar offitu og lægra magns þríglýseríða og LDL agna í blóði borið saman við hefðbundið fituskert mataræði (13).

Fylgni er á milli neyslu á sykruðum gosdrykkjum og offitu og sykursýki af tegund 2. Ein rannsókn hefur sýnt að neysla á frúktósa eykur iðrafitu og insúlínviðnám meira en neysla á glúkósa (14).

Þáttur hreyfingar

Sýnt hefur verið fram á að fylgni er á milli reglubundinnar líkamshreyfingar og minni hættu á miðlægri offitu. Stór samantekt á fyrirliggjandi rannsóknum sýndi að fylgni var á milli reglubundinnar hreyfingar og minni miðlægrar offitu, jafnvel í rannsóknum sem ekki sýndu áhrif á líkamsþyngd (15).

Hvers vegna og hvernig getum við minnkað iðrafitu?

Þar sem sterk fylgni er á milli miðlægrar offitu og ýmissa sjúkdóma er líklegt að aðferðir sem draga úr uppsöfnun iðrafitu bæti heilsu okkar.

Allar aðferðir sem leiða til þyngdartaps eru líklegar til þess að minnka miðlæga fitusöfnun.

Aðferðir sem draga úr iðrafitu án þess að valda teljandi þyngdartapi að öðru leyti gætu verið gagnlegar. Hins vegar er ljóst að erfitt er að minnka einungis iðrafitu án þess að hafa áhrif á fitusöfnun annars staðar í líkamanum.

Nýleg samantekt á rannsóknum sem hafa skoðað þetta vandamál benda til þess að flestar megrunaraðferðir leiði til minnkunar á iðrafitu svo og fitusöfnun undir húð og að engar aðferðir séu til sem minnki einungis miðlæga fitusöfnun (16).

Markaðssetning megrunaraðferða gengur oft út á að sannfæra viðskiptavininn um að viðkomandi aðferð muni minnka miðlæga fitusöfnun sérstaklega. Nokkuð ljóst er að slíkar fullyrðingar eru ekki studdar af vísindalegum rannsóknum.

Minni neysla á kolvetnum leiðir oftast til lækkunar á þríglýseríðum í blóði. Jafnframt minnkar fjöldi smárra LDL agna og heildarfjöldi agna minnkar sem talið er jákvætt gagnvart hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum. Þá getur lágkolvetnamataræði haft ýmis önnur jákvæð áhrif á efnaskipti einstaklinga með miðlæga offitu og sykursýki af tegund 2 (17).

Eins og áður var nefnt getur Miðjarðarhafsmataræði minnkað iðrafitu og bætt ýmsa efnaskiptaþætti sem tengjast slíkri fitusöfnun.

Margir sérfræðingar telja að reglubundin líkamsrækt sem slík leiði ekki til þyngdartaps. Hins vegar hefur reglubundin líkamsrækt ýmis jákvæð áhrif á efnaskipti og heilsu, óháð þyngdartapi.

Einstaklingar með offitu geta bætt heilsu sýna án þess að léttast. Að mínu mati á reglubundin líkamsrækt ávallt að vera hluti af meðferð þeirra sem glima við miðlæga offitu

Birt með góðfúslegu leyfi mataraedi.is