Fara í efni

Heilsufarsáhrif fitu – fita er lífsnauðsynleg

Upplýsingar um heilsufarsáhrif fitu hafa lengi verið í umræðunni, en því miður eru þær oft villandi eða jafnvel rangar.
Heilsufarsáhrif fitu – fita er lífsnauðsynleg

Upplýsingar um heilsufarsáhrif fitu hafa lengi verið í umræðunni, en því miður eru þær oft villandi eða jafnvel rangar.

Fita er lífsnauðsynleg en ofneysla er hins vegar tengd ýmsum sjúkdómum. Fita er hópur margra ólíkra efna sem gerir almennar staðhæfingar um fitu mjög erfiðar.

Góð heilsufarsáhrif fituskerts eða fitusnauðs fæðis geta hins vegar minnkað eða orðið engin ef unnin kolvetni eins og sykur eða síróp koma í staðinn (en slíkt er oft raunin).

Unnar og óunnar olíur

Flestar jurtaolíur sem við neytum eru unnar. Unnar olíur hafa verið hreinsaðar og meðhöndlaðar. Í þessu ferli á sér oft stað tap bæði á æskilegum efnum, eins og vítamínum og andoxunarefnum, og óæskilegum efnum, t.d. eiturefnum og aðskotaefnum úr umhverfinu. Venjulega er vítamínum bætt í olíurnar í lok framleiðsluferlisins til að auka stöðugleika og geymsluþol þeirra. Flestar rannsóknir á heilsufarsáhrifum fitu í fæðu hafa verið gerðar á unnum olíum. Margar þessara rannsókna hafa sýnt að neysla unninna olía hefur ekki slæm áhrif á heilsuna. Fáar rannsóknir hafa hins vegar verið gerðar á jómfrúarolíu (óunninni olíu), t.d. extra virgin ólífuolíu. Það er því erfitt að fullyrða hvort að neysla slíkrar olíu sé betri.

Kókosfita ekki æskileg á Íslandi

Kókosfita samanstendur aðallega af harðri fitu. Mælt er með neyslu á mjúkri fitu (olíu) í stað harðrar fitu til þess að minnka líkur á sjúkdómum. Þar sem neysla harðrar fitu er mikil á Íslandi er óviðeigandi að mæla sérstaklega með kókosfitu til heilsubóta. Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin gerð af fitu (MCT, sem eru miðlungs langar fitusýrur) gæti aukið þyngdartap meðal karla, en ekki meðal kvenna. Kókosfita inniheldur hinsvegar ekki þessa gerð af fitu og þess vegna er sú fullyrðing að neysla kókosfitu sé grennandi ekki á traustum grunni byggð.

Udo’s olían lítið rannsökuð

Önnur gerð fitu sem virðist vera að ryðja sér til rúms meðal almennings er Udo’s olía. Samkvæmt vefsíðu framleiðanda, er Udo’s olía óunnin blanda af olíum úr hörfræjum, sólblómafræjum, sesamfræjum, hrísgrjónum og hveitikími. (Önnur fitugerð Udo’s omega 3-6-9 hefur einnig hlotið talsverða athygli.) Í viðurkenndum vísindatímaritum hafa ekki birst greinar um heilsufarsáhrif Udo’s olíu. Rannsókn á dönskum íþróttamönnum sem fjallað er um á vefsíðu framleiðanda er illa hönnuð og út frá henni er því ekki hægt að draga ályktanir um heilsufarsáhrif Udo’s olíu.

Alfons Ramel, fræðimaður á Rannsóknastofu í næringarfræði

Grein birt með leyfi frá SÍBS.