Fara í efni

Yoga heimspeki

Líf án ofbeldis.
Yoga heimspeki

Líf án ofbeldis.

Við upphaf nýs árs erum við gjarnan uppfull af hugmyndum um hvernig við ætlum að gera nýja árið betra en það gamla, bæta okkur og líf okkar á allan máta.

Okkur hættir til að ráðast nokkuð geyst í breytingarnar og oftar en ekki er flest það sem komst á markmiðalistann dottið út og jafnvel gleymt áður en febrúar rennur í garð. Það er án efa heillavænlegra að taka minni skref og meðvitaðri til að ná árangri, skapa sér ramma úr góðum lífsgildum og nýta sem leiðarvísi í gegnum lífið.

Grunnlífsgildi yoga fræðanna, hin svokallaða Áttfalda leið eða Ashtanga Yoga (ashta=átta, anga=útlimur), sem læra má um í Yoga Sútrum Patanjalis, er ómetanlegur vegvísir í átt að innihaldsríkara lífi og raunverulegri hamingju. Fyrstu tvö þrepin af átta eru grunnstoðirnar, Yamas og Niyamas, hin sex þrepin eru Asana, Pranayama, Pratyahara, Dharana, Dhyana og Samadhi. 

Yömur og Niyömur kenna okkur að laga til í ytra og innra umhverfi okkar. Þær eru vegvísirinn okkar og ómetanleg heilræði sem taka m.a. fyrir siðferði, aga, veita okkur aðhald, kenna okkur virðingu gagnvart okkur sjálfum, öðru fólki, samfélagi okkar og umhverfinu.

Yömurnar,  fyrsta þrepið (sem þýðir aðhald), skiptast upp í fimm þætti:

  • Ahimsa - Líf án ofbeldis.
  • Satya - Sannleikurinn.
  • Asteya - Stelum ekki.
  • Brahmarcharya - Hófsemi.
  • Aparigraha - Nægjusemi.

Fyrsta yaman er mjög mikils metin og jafnan talin vera grunnurinn að allri yoga heimspeki og iðkun. Það er því við hæfi í byrjun nýs árs að taka hana fyrir og skoða nánar og vinna markvisst að því að tileinka sér þau gildi sem í henni felast.

Ahimsa - að lifa án ofbeldis, lifa í friðsemd, þar sem við leitumst við að meiða hvorki okkur sjálf né aðra eða umhverfið okkar, hvorki í töluðum orðum, hugsunum eða gjörðum. 

Í daglega lífinu okkar hættir okkur til að þjóta áfram á sjálfstýringunni, erum gjarnan að flýta okkur og þeysast á milli staða, vanmáttug, heltekin af streitu, áhyggjum og kvíða. Það er einmitt þá sem okkur hættir til að koma illa fram við okkur sjálf, hreyta ónotum í aðra, hugsa eða jafnvel segja eitthvað óviðeigandi við samferðafólk okkar, kennum öðrum um það sem miður fer og festumst í fari píslarvottarins, spörkum í það sem á vegi okkar verður og öskrum fúkyrði sem aldrei fyrr á kommentakerfum netheima.

Hverju erum við að hleypa inn um skynfæri okkar? Heyrum við hvað við erum að segja við aðra og hvaðan orðin koma? Spretta þau frá hjartanu þínu eða frá hræðslunni eða kannski reiðinni sem kraumar hið innra og teygir anga sína inn í flestar vistarverur lífs okkar og aftrar okkur frá því að lifa kærleiksríku og ástríku lífi. Hvar gætir þú hugsanlega verið að meiða aðra eða beita ofbeldi?

Ahimsa, að lifa án ofbeldis, að meiða engan hvorki þig né aðra eða umhverfi þitt, kallar fram það allra besta í þér. Fyrsta skrefið er að vakna til vitundar þinnar, draga fram hugrekkið og slökkva á sjálfstýringunni, kveikja á auðmýktinni og muna að við erum öll mannleg. Við þurfum að þjálfa okkur í að elska okkur eins og við erum og sýna okkur sjálfum virðingu, leitast við að fyrirgefa okkur það sem liðið er og sýna öllu lífi samúð, vera skilningsrík og þolinmóð.

Við þekkjum flest orð skáldsins ,,aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Hver einasta manneskja sem verður á vegi þínum í gegnum lífið hefur upplifað eitthvað sem þú gætir jafnvel ekki ráðið við, allir eiga sína sögu, það eru ástæður fyrir öllu. Er það ekki verðugt nýársmarkmið að við leggjum okkur fram við að vinna með fyrirgefninguna, sættum okkur við það sem við fáum ekki breytt, leitumst við að sjá heiminn með augum samkenndarinnar í stað þess að láta stjórnast af gagnrýni og reiði. Verum þannig samferðafólki okkar góðar fyrirmyndir.

Leyfðu þér að lifa í ástríki og sátt.

Gleðilegt nýtt yoga ár!

Jai Bhagwan

Höfundur greinar er Elísabet Boga

HÉR má lesa viðtal sem Heilsutorg tók við Elísabetu í október s.l