Fara í efni

Þín eigin tilvist - hugleiðing Guðna á sunnudegi

Þín eigin tilvist - hugleiðing Guðna á sunnudegi

Kyrrð, næring, traust. Mjúk tilfinning innra með þér. Fullnægja. Alsæla. Gleði og hamingja.

Hvað einkennir helst uppljómaðar manneskjur?

Þær taka sig ekki alvarlega. Þær mæta í gallabuxum í kjólfataveislu og velta því ekki frekar fyrir sér. Þær eru frjálsar frá hinu persónugerða.

Þær eru frjálsar frá þeirri áþján að þurfa að máta sig við umhverfið – þær þurfa ekki viðmið sem liggur fyrir utan þeirra eigin tilvist.

Uppljómaðar manneskjur eru komnar í við-ástandið þar sem þær nema umhverfi sitt og tilveru sem stöðugt kraftaverk; stöðugan samsöng og samhljóm allrar tilverunnar. Þær skynja að allt er nákvæmlega eins og það á að vera; uppljómaðar manneskjur fara ekki í viðnám og hjörtu þeirra slá af öllum krafti og í fullri birtingu.

Við erum allt.
Allir eru allir hinir.
Hinir eru við.
Allir eru eitt og hið sama.
Þetta er það sem uppljómaðar manneskjur skynja og skilja.
Þetta er það sem allir geta öðlast.
Næringin í þessum augnablikum þakklætis er fullkomin – full af ríku ljósi.