Fara í efni

Óður velsældar - hugleiðing á síðasta degi 2016 frá Guðna

Óður velsældar - hugleiðing á síðasta degi 2016 frá Guðna

Þakklæti er óður velsældar.

Þakklæti er val og þegar þú velur að vera í hugarástandi þakklætis og ferð að telja blessanir þínar frekar en bölið, þá fjölgar þessum blessunum jafn óðfluga og bölið minnkar. Þú getur æft þig að þakka fyrir, t.d. með því að hugsa um og skrá niður allt sem þú hefur ástæðu til að vera þakklátur fyrir. Smám saman eykur þú þannig umfang þakklætisins. Þegar þú tengir þakklætið tilfinningalega þá fyrst öðlast þakklætið mátt.

Við þökkum fyrir allt sem ástæða er til að þakka fyrir; við þökkum fyrir blessanir okkar og allt það sem við skynjum að er gott í okkar lífi. Við þökkum og þökkum og þökkum fyrir þessa hluti – en eftir ákveðinn tíma veljum við að þakka fyrir annað.
Við veljum líka að þakka fyrir „bölvanirnar“ – það sem okkur hefur þótt slæmt í eigin lífi.

Og þá erum við komin á staðinn þar sem allt á tilverurétt; þar sem engan dóm þarf að fella:
Staðinn þar sem allt er blessun.
Þar sem allt er eins og það á að vera – þar sem blessun og böl renna saman. Þar sem blessun og böl sameinast í einu blindandi ljóshafi.

Staðinn þar sem allt er blessun. Staðinn þar sem við erum uppljómuð af ást, glóandi.
Með þakklæti fyrir allt sem er liðið, þá meina ég ALLT!