Fara í efni

Næring - hugleiðing dagsins frá Guðna

Næring - hugleiðing dagsins frá Guðna

HVAÐ Á ÉG AÐ BORÐA, HVENÆR, HVERNIG OG HVERS VEGNA?

Uppruni allrar orku er sólarljós, mold og vatn. Horfðu alltaf á matinn fyrir framan þig og veltu því fyrir þér hversu langt hann er frá þessum uppruna sínum; hversu langt hann hefur verið unninn frá móður jörð.
Stærsta athöfn tilvistar þinnar er þegar þú innbyrðir mat eða drykk. Við verjum miklum fjármunum, tíma og orku í að eignast peninga til að eiga fyrir mat, kaupa mat, hugsa um mat, elda mat, borða mat, ganga frá eftir matinn og fara út með ruslið.

Ekkert tækifæri er stærra – til umbreytingar. Ekkert er stærra – til velsældar eða vansældar. Næringin þín er skýr mælikvarði á það hvernig þér líður á hverri stundu og hvaða viðhorf þú hefur. Næringin þín opinberar þig og matarkarfan segir sína sögu. Næringin er opinberun á sambandinu við okkur sjálf.

Þegar við getum réttlætt það að borða mat sem er ekki í samhengi við náttúruna þá hljótum við að vera orðin dofin af neyslunni sem samfélagið hefur boðið upp á. Þegar við innbyrðum eitrið með bros á vör og látum eins og ekkert sé hlýtur að koma að því að við spyrjum okkur á hvaða leið við séum.

Ég er stundum kallaður öfgamaður vegna þess málflutnings sem ég býð upp á. Mér finnst það skemmtilegt – það segir mér hversu langt við erum komin frá samhengi hlutanna.

Skilaboð mín til þín eru þessi:
Ef það hvarflar að þér að þeir sem kalla þig öfgamanneskju þegar þú ert að breyta mataræðinu hafi rétt fyrir sér ... hugsaðu þig vel um. Eru öfgar að vilja næra sig á hreinum og náttúrulegum afurðum í mátulegu magni? Að vilja drekka vatn? Að vilja standa með sjálfum sér með því að hafna aukefnum í mat ? Eru það öfgar?
Ef það eru öfgar þá skal ég glaður vera öfgamaður.

Því að ég vil geta elskað allt sem fer upp í mig. Ég vil vera í ástarleik með næringunni – alla daga, alltaf.