Fara í efni

Hver vaknar í rúminu þínu á morgnana - Guðni með hugleiðingu á laugardegi

Hver vaknar í rúminu þínu á morgnana - Guðni með hugleiðingu á laugardegi

VITUNDARÆFINGAR

Hver vaknar í rúminu þínu á morgnana? Ert það þú eða er það skortdýrið? Ertu að veita athygli eða ertu að hugsa? Dæmirðu þig inn í ótta og kvíða? Leyfirðu þér að skína? Geturðu litið í spegilinn, djúpt í eigin augu, og boðið þér góðan dag? Geturðu brosað til þín?

Staðreyndin er sú að mjög margir vakna með kvíðahnút í maganum, fullir af eftirsjá yfir gærdeginum og kvíða gagnvart komandi degi. Með því að taka eftir þessu mynstri, í kærleika og umburðarlyndi, öðlumst við kraft til að sveigja af þessari braut, stíga inn í ljósið og vera þar allan daginn. Með því að hætta að vera fórnarlömb og elska okkur eins og við erum – eins og við vöknum – tökum við máttinn aftur í eigin hendur. Þannig hættir að skipta öllu máli hvernig við vöknum, það eina sem skiptir máli er hvað við gerum eftir að við erum vöknuð – hvort við höldum áfram á forsendum kvíðans og skortdýrsins eða hvort við strjúkum okkur um vangann og byrjum að elska.

Því að við viljum elska okkur – jafnvel þótt þetta mynstur hætti aldrei. Hvað ætlarðu að gera ef þú vaknar alla morgna það sem eftir er af lífi þínu með þennan sama kvíðahnút? Ætlarðu að berja þig niður fyrir það? Eða ætlarðu að beina kærleiksríkri athygli að kvíðahnútnum, fylgja honum upp úr rúminu og skola hann í burtu í hlýrri morgunsturtunni?

Þetta morguntækifæri vísar til lífsins í heild sinni og þeirra tækifæra sem opinberast okkur mörgum sinnum á dag – þegar okkur býðst að vakna af svefni eða lífsdoða, draga djúpt andann og hugsa:

Ég ber ábyrgð á þessu andartaki, ég hef alltaf val/vald.