Fara í efni

Hér er ég, ég er mættur, ég elska mig - hugleiðing dagsins

Hér er ég, ég er mættur, ég elska mig - hugleiðing dagsins

Allar orkurásir tilvistar okkar fá loksins fullt streymi og leyfi til að tengjast alheimsorkunni. Í staðinn fyrir að stjórna streyminu segjum við aðeins:

„Hér er ég, ég er mættur, ég elska mig, ég elska annað fólk, ég elska heiminn, ég vil gefa af mér vegna þess að ég treysti því að í heiminum sé nóg af öllu og að ég muni aldrei líða skort, ég þori að þiggja, ég er tilbúinn að þiggja krafta, strauma og tækifæri – allt sem lífið býður upp á, líka það sem er flókið og hefur áður fyrr valdið mér hugarangri og áhyggjum.

Hér er ég mættur, ég elska mig og tek fagnandi öllu sem lífið býður mér upp á.“

Af hverju þessi áhersla á að mæta inn í augnablikið, inn í aðstæðurnar og sannleikann? Vegna þess að enginn getur farið fyrr en hann kemur. Við getum ekki farið af núverandi stað nema við séum mætt þangað. Það gerum við með því að mæta inn í augnablikið og taka fulla ábyrgð á því sem við höfum skapað til þessa.

Við tölum um að elska okkur eins og við erum, en samt er það oft þannig að við viljum gera breytingar á eigin lífsstíl. Auðvitað er sjálfsagt mál að gera breytingar sem leiða til aukinnar velsældar – en þessar breytingar munu aldrei verða varanlegar nema þær byggi á ást.

Ást er athygli. Ást er eldur. Ást er orka. Ást er ljósið sem við veljum að veita og þegar við erum að veita athygli þá erum við að láta ljós okkar skína; þá erum við að elska. Að elska er val um að leyfa sjálfum sér og öllum öðrum að vera eins og þeir eru, núna.