Fara í efni

Frá Guðna til ykkar á Sunnudegi

Frá Guðna til ykkar á Sunnudegi

Líkamsrækt er ævistarf að loknum starfsferli.

Við erum að eldast frá því við fæðumst. Spurningin er ekki sú hve hratt við eldumst, hún snýst ekki um hve háan aldur við höfum, heldur viðnámið sem við veitum lífinu. Það er til bandarískt orðatiltæki sem segir að á meðan þú ert grænn ertu í vexti, en þegar þú ert orðinn þroskaður byrjarðu að fölna. Að eldast eða þroskast náðuglega byggist á viðhorfum okkar eða afstöðu til tilverunnar. Tilgangurinn er kjölfesta hamingjunnar. Margir kannast við fólk sem sest í helgan stein, lýkur starfsferli sínum og missir sjón á markmiðum eða tilgangi í lífinu. Það byrjar að hrörna og fölna mjög hratt. Það er ekki eins auðvelt að viðhalda hamingju, ástríðu eða áhuga ef það er enginn tilgangur eða raunveruleg djúpstæð ástæða. Þetta á ekki aðeins að snúast um náðuga öldrun, heldur náðugt líf, hamingju og áhuga á því sem maður gerir dags daglega.

Þegar maður lýkur starfsferli sínum eiga æfingar og líkamsrækt að verða nýtt ævistarf. Það eru ekki aðeins þeir sem eldast sem komast að þessari hrörnun, heldur íþróttamenn og fleiri sem stunda líkamlegt þrekvirki af einhverju tagi. Orðatiltækið "If you don't use it, you loose it" á vel við í þessu samhengi. Ef maður notar ekki vöðvana þá rýrna þeir. Líkaminn endurnýjar sig við ertingu, þannig að ef það er engin erting eða áhugi á að erta sig, þá verður engin endurnýjun. Þá gæti einhver spurt, verð ég þá að æfa það sem eftir er? Mig langar að svara þeirri spurningu með annarri: Þarftu að fara út með ruslið á hverjum degi það sem eftir er? Þarftu að borða mat það sem eftir er? Að hugsa um heilsuna er hluti af lífinu, margir hafa hreinlega misst sjónar á þessu mikilvæga hlutverki sem við höfum vegna annarra hlutverka sem ekki verða rakin hér.

Annað sem er mikilvægara en flest annað þegar við hefjum seinni hálfleik og það er næringin. Mikilvægt er að borða næringarríka fæðu, borða fæðu sem styrkir líkamann, styrkir beinin, styrkir hjarta og blóðrásarkerfið, meltinguna og huglæga getu okkar. Dreifðu fæðuvalinu en ekki ummálinu þínu. Þarna kemur ásetningur næringar til sögunnar, erum við að næra ást og umhyggju, tilgang og tækifæri eða skammsýni og skort?

Kínverjar segja að aldurinn sé mældur í sveigjanleika hryggjar, um leið og sveigjanleikinn minnkar byrjar ellin að banka á dyrnar. Þegar við minnumst á hrygginn og stoðkerfið þá er tilvalið að ræða um fæturnar. Þeir eru kjölfesta líkamans, alveg eins og tilgangurinn er kjölfesta lífsins. Það er gríðarlega mikilvægt að viðhalda sveigjanleika fótleggjanna, þar er mesta vöðvamagnið, styrkur og flæði til þess að standa undir tilvist okkar. Við þurfum að vera með öfluga súrefnishæfa vöðva til þess að búa yfir getu til þess að veita okkur þá orku sem við þurfum til þess að fylgja áhuga okkar og gera okkur kleift að fara þær leiðir sem við viljum í lífinu.

Það er á ábyrgð hvers og eins að njóta lífsins, hætta að hugsa um smáatriðin og fara að skoða heildarmyndina. Verðu tíma með vinum og fjölskyldu, vertu í umhverfi sem er lifandi. Taktu áhættu í mannlegum samskiptum, ekki hætta að rétta út höndina, ekki draga þig í hlé, haltu áfram að líta yfir handriðið og sjá útsýnið og tækifærin sem eru allt í kringum þig. Gleðin sem svo margir hafa og sérstaklega börnin okkar, er í okkur öllum. Við höfum barnslega sakleysið innra með okkur og við eigum að leggja alúð og rækt við það, alveg eins og við nærum blómin þurfum við að næra gleði og hamingju.

Að lokum vil ég hvetja fólk til þess að öðlast jafnvægi á milli sálar og líkama. Ég hvet fólk til þess að stunda jóga, tai chi, chi gong, alla hug- og heilsurækt sem er ekki vélræn. Leggið stund á æfingar sem veita ykkur slökun, öndun, teygjur, hugleiðslu, athygli, flæði og sveigjanleika, þar sem allir þættir líkama, hugar og tilfinninga eru þjálfaðir til þess að öðlast djúpa slökun og kyrrð. Svo má ekki gleyma aðalatriðinu sem er Rope Yoga og Gló Motion, en það er fyrir ungt fólk á öllum aldri.!"