Fara í efni

Brotin sjálfsmynd - hugleiðing á föstudegi

Brotin sjálfsmynd - hugleiðing á föstudegi

ÁBYRGÐIN Í SJÁLFSMYNDINNI

Flest glímum við að einhverju leyti við brotna sjálfsmynd. Við sendum skilaboðin úr þessari sjálfsmynd til umheimsins og hann sendir okkur það sem við biðjum um. Á sama tíma sækjum við okkur plástra frá samfélaginu og öðru fólki til að lappa upp á brotnu sjálfsmyndina. Þetta er vítahringur sem tekur engan enda.

Við höfum tækifæri til að endurskapa sjálfsmyndina, með tilgangi og sýn. Sjálfsmynd og heimild eru náskyld fyrirbæri. Öll höfnun og afneitun viðheldur skertri sjálfsmynd sem við höfum mótað í samhengi við samfélagið. Við notum samfélagið til að styðja okkar eigin kenningar. Og þegar við breytum viðhorfum í eigin garð breytist sjálfsmyndin og þá sér samfélagið okkur öðruvísi.

Við höfum alltaf sýn sem verður að sjálfsmynd. Spurningin er aðeins hvaðan sjálfsmyndin kemur. Er þetta sýn skapara með frjálsan vilja eða er þetta sýn fórnarlambs? Byggjum við líf okkar á sjálfsmynd sem hefur mótast með óbeinum hætti af samfélaginu? Er þetta lánuð sjálfsmynd? Eða höfum við tekið okkur valdið í hönd til að móta eigin sjálfsmynd? Getum við gefið sjálfum okkur þessa gjöf? Viljum við það? Viljum við leyfa okkur að móta eigin sjálfsmynd? Að við skrifum handritið þar sem við leikum öll hlutverkin, leikstýrum, hönnum og framleiðum?

Sjálfsmynd – heimild. Þetta eru náskyld hugtök. Á ensku er talað um að einhver hafi karakter og á íslensku er talað um manngerð. Manngerðin er líka náskyld sjálfsmyndinni og heimildinni. Orðið karakter kemur úr grísku þar sem það þýðir stimpill eða útskurðartól. Í orðinu felst því að sá sem hefur karakter er dreginn skýrum dráttum, hann er meitlaður og skýr. Hann hefur skýra manngerð.