Fara í efni

Andstyggilegir, stífir og afskræmdir - hugleiðing Guðna á mánudegi

Andstyggilegir, stífir og afskræmdir - hugleiðing Guðna á mánudegi

„Takk fyrir að bera mig“

Eitt mest afgerandi dæmið um mátt kærleika og þakklætis sem ég hef orðið vitni að er þegar inn til mín kom glæsileg, hnarreist og gullfalleg kona, þjökuð af gremju og angist.

Hún var dansari og í eins góðu líkamlegu formi og hugsast gat. Hálfgrátandi sagði hún mér frá því að hún væri að gera allt rétt í lífinu hvað varðaði mataræði og hreyfingu – en ekkert dugði til að breyta því sem hún vildi breyta:

Fótleggjunum á sér.

Hún vildi breyta á sér fótleggjunum. Henni fannst þeir andstyggilegir, stífir og afskræmdir af þykkt og appelsínuhúð og ekki í neinu hlutfalli við efri hluta líkamans.

Þetta síðastnefnda var alveg rétt, þeir voru ekki í hlutfalli við aðra líkamsparta, kraftalegir, en að öðru leyti gullfallegir fótleggir sem mjög margar konur hefðu viljað státa af.

Hún spurði hvort ég gæti hjálpað sér og ég svaraði strax játandi. „Ekki spurning,“ sagði ég, „það er ekki mikið mál að breyta þessu.“

Tilfinningaleg hleðsla á þessari óánægju var gríðarlega mikil – þetta var hatur. Mér tókst að miðla því til hennar að eina leiðin til að breyta þessu væri með breyttu viðhorfi – með því að breyta hatrinu í ást. Hún fékk það verkefni að sýna fótleggjum sínum alúð við hvert tækifæri, kvölds og morgna, þegar hún klæddi sig úr föt- unum og líka þegar hún klæddi sig í þau. Sérstaka alúð átti hún að sýna fótleggjunum í baði og nota mjúkan skrúbbhanska með sápu og baðsöltum til að strjúka þá.

Mín tillaga var sú að hún stofnaði til ástarsambands við fótleggina á sér; að hún þakkaði þeim af öllu hjarta fyrir að vera hluti af hennar tilvist; að hún þakkaði þeim fyrir að bera sig í gegnum lífið og hafa aldrei brugðist henni.

Að sex mánuðum liðnum höfðu fótleggirnir gjörbreyst; núna samræmdust þeir hlutföllum líkamans, þeir voru orðnir sveigjanlegri og appelsínuhúðin að mestu horfin. Hún var hreykin af fótleggjum sínum og sambandinu við sig og undirstöður sínar – fótlegg- ina sem hún hafði lagt fæð á um árabil.

Hún stóð allt öðruvísi í fæturna en áður – stolt af eigin undirstöðu og hún skildi mátt ástarinnar og þakklætisins.