Fara í efni

Setjum mörk

Setjum mörk

Að setja mörk, hefur verið mér hugleikið í langan tíma. Eftir að hafa náð ágætis tökum á því, verið stöðugt að efla mig vil ég óska þess að flestir upplifi þá jákvæðu tilfinningu.  

Að mínu mati kallar samfélagið okkar á Íslandi í dag að hvert og eitt okkar lærum að setja mörk um leið og þroski og geta segja til um.  

Mörk eru grundvallaratriði til að geta átt í ánægjulegum og heilbrigðum samskiptum. Að setja mörk er ekki dónalegt, sjálfselskt og á ekki að vera á nokkurn hátt neikvætt. Heldur lítur það að persónunni sjálfri, hvað vill hún láta bjóða sér til að líða vel í samskiptum. Að setja mörk er ekki eingöngu átt við í kynlífi eða ástaratlotum. Það er svo miklu víðara, á við í öllum samskiptum. Sama hvort um ræðir í raunheimi eða stafrænum. Margir eru fastir í klóm samfélagsmiðla og tækjum sem færa okkur upplýsingar og fréttir. Við gefum okkur stundum ekki tíma til augnsambands. Síminn hringir og við svörum strax þar sem við erum, óháð stað og stund. Hvað skiptir mestu máli í lífi fyrir hvern og einn er ómögulegt að segja til um.  
Gleymum því ekki að fyrir tíma Internetsins og hvað þá snjalltækja var einnig verið að fara yfir mörk okkar. Þó tel ég að töluvert miklar líkur séu á að fjölbreytnin í brotum og alvarleikinn, hafi versnað til muna með Internetinu.  

Samfélagið logar af tilkynningum um misbeitingu og ofbeldi, þar sem peningar, frægð og frami er sterkt vopn að fara yfir mörk fólks. Hræðilegar fréttir og sorglegar gleymum því ekki að þær hafa áhrif á alla sem tengjast gerendum og þolendum.  

Á unglingsárum mínum skipti mig miklu máli að vera eins klædd og aðrir, við vorum stundum flest í bekknum klædd í sama merkið „Don Cano“ „Hummel“ Ef við klæddum okkur öðruvísi vorum við álitin skrítin. Hópþrýstingur á uppvaxtarárum er lúmskur, oft ósýnilegur, viðkvæmir einstaklingar sogast inn og telja þetta vera bestu stöðu til að vera í, í lífinu. Þarna eru auðfengin fórnarlömb sem auðvelt að fara yfir mörk. Því miður hef ég mörg dæmi um börn á leikskólaaldri sem eru tilbúin að gera óæskilega hluti bara fyrir það eitt að vera samþykkt og séð. Þolendur vita oft ekki betur. Þetta sé það sem máli skiptir til að verða sambærileg öðrum. 
 

Ég spyr hvernig endar þetta?  
Við fæðumst og siðferðið mótast af því sem týnist í bakpokann hverju sinni. Í upphafi er það að mestu leiti ómengað. Hvað gerist á leiðinni, hvað verður til þess að fólk breytist í skrímsli sem brýtur vísvitandi á öðrum?  Til er fólk sem fer yfir mörk hvors annars án þess að hafa hugmynd um það. 

Fréttir af þjóðþekktum einstaklingum sem sakaðir eru um að hafa farið yfir mörk eru sláandi. Ég hef þá tilfinningu að þetta sé því miður dropi í hafið og fleiri frásagnir séu enn ósagðar.  
Hvað með þjóðþekktu konurnar? Eru karlmenn þarna úti með stóra skömm eftir að konur fóru yfir mörk þeirra? Hvenær heyrum við frá þeim? 
 

Eins og ég segi gjarnan: „þá verðum við að taka plásturinn af, sótthreinsa sárið og láta það gróa, til að sporna gegn öri“. Það á einnig við í svo alvarlegri stöðu sem hér er komin upp.   
 
Galopna umræðuna alls staðar. Allsherjar umræðu um mörk í samfélaginu. Viðbrögð og framkoma fólks gagnvart sóttvarnarreglum og ástandi Covid-19 er einnig markalaus og umhugsunarverð. Foreldrar og kennarar á öllum skólastigum verða að vera tilbúin að ræða þessi mörk við nemendur hvar og hvenær sem er.  

Ég kalla eftir enn fleiri úrræðum til að stoppa fólk sem kann ekki að virða mörkin. Við þurfum að læra öll sem eitt á okkar forsendum miðað við þroska og getu.  

Ég kenni börnum í leikskóla að setja mörk. Þau taka þátt í umræðunni um framkomu í þeirra garð. Þau fá tækifæri til að æfa sig. Þau læra að virða það þegar þeim eru sett mörk. Í leikskólanum Brákarborg notum við LAUSNAHRINGINN hann kennir okkur að setja mörk í samskiptum. LAUSNAHRINGINN bjuggu leikskólanemendur til með kennara sínum sem þetta skrifar. Fyrirmyndin kemur frá Jákvæðum aga. Tilurð þessa verkfæris var sú að kennari var orðinn úrræðalaus vegna eineltis og oft á tíðum harkalegra slagsmála sem áttu sér stað á skólatíma. Mjög opinskáar umræður um samskipti, tilfinningar og líðan varð lausnin sú að LAUSNAHRINGURINN varð til. Að geta sagt stopp og upplifað að farið sé eftir því er mikil æfing, tala nú ekki um fyrir allt að 2ja ára gömul börn. Allt er þetta mikil æfing og ákveðið tungumál sem við notum og setjum orð á þegar vel gengur og eflum nemendur okkar að styrkja sig. Mikilvægt er að þau skilji til að þau viti hvað best er að gera hverju sinni, allt miðast það við þroska og getu hverju sinni.  

Lausnirnar sem tilheyra LAUSNAHRINGNUM eru:  
Að segja stopp 
Að geta sagt fyrirgefðu 
Að bjóða knús 
Að bjóða öðrum að vera með 
Að hjálpa öðrum stórir og smáir 
Að skiptast á  
Að stjórna sér bæði líkama og munni 
Nánari umfjöllun um LAUSNAHRINGINN verður síðar. 

Að setja mörk lærist ekki á einni nóttu, einni viku eða mánuði. Þetta er eins og umferðareglurnar, við erum stöðugt að æfa okkur miðað við aldur, þroska og getu hverju sinni.  

Við verðum að vera vakandi „úti í lífinu“ til að geta sagt stopp, sagt frá og/eða farið í burtu. 

Ég vil trúa því að með tíð og tíma, horfum við framá þjóðfélag sem setur mörk, þá fer tíðni ofbeldis lækkandi.  

Eins og við segjum í leikskólanum, æfingin skapar meistarann.  

Segðu frá. 

Arnrún Magnúsdóttir  
leikskólakennari 
Fræðsla ekki hræðsla