Fara í efni

Hreyfing – hver er þinn hvati?

Hreyfing eða líkamsrækt sem miðar af því að styrkja líkamann, byggja upp þol, halda heilsu og hreysti er okkur öllum mikilvæg. Æskilegur dagskammtur af hreyfingu fyrir fullorðna er 30 mín á dag, 60 mín fyrir börn.
Hreyfing – hver er þinn hvati?

Hreyfing eða líkamsrækt sem miðar af því að styrkja líkamann, byggja upp þol, halda heilsu og hreysti er okkur öllum mikilvæg. Æskilegur dagskammtur af hreyfingu fyrir fullorðna er 30 mín á dag, 60 mín fyrir börn. Mikilvægt er að finna sér hreyfingu við hæfi sem og hreyfingu sem veitir ánægju og að muna að lítil hreyfing er betri en engin. Fyrir suma getur verið nóg að byrja á 5 mínútna göngutúrum í nærumhverfi sínu, taka nokkur sundtök eða stunda liðkandi teygjur og stólaæfingar heimavið. Síðan er hægt að bæta jafnt og þétt ofan á það með auknum tíma og ákefð. Frekari hugmyndir að hreyfingu eru t.d. styrktarþjálfun með eigin líkamsþyngd, á eigin vegum eða undir leiðsögn þjálfara, golf, kraftganga, hjólatúrar, fjallganga, lyftingar, hlaup, sund, tennis, frisbígolf, ratleikir o.fl. Ávinningur af að hreyfa sig er margvíslegur. Má þar nefna betri líðan, aukið úthald og styrk, aukna jákvæðni og styrkingu á ónæmiskerfinu sem dregur úr veikindum.

Melkorka

Öllum rannsóknum ber saman um mikilvægi fjölbreytilegrar hreyfingar. Heilsa okkar og líðan er að miklu leyti háð athöfnum okkar í daglegu lífi og lífstíl. Með því að vera virk í daglegum athöfnum getum við aukið lífsægði okkar og líkur á því að koma í veg fyrir margvíslega lífstílstengda sjúkdóma.

Melkorka

Við höfum mismunandi ástæður/hvata til að hreyfa okkur sem er gott og gilt. Finndu þinn hvata: Sumir hreyfa sig til að líta betur út, aðrir hreyfa sig til að upplifa þá góðu tilfinningu sem flæðir um líkamann að lokinni hreyfingu og enn aðrir hreyfa sig til að auka lífsgæðin og koma í veg fyrir sjúkdóma svo nokkuð sé nefnt. Find þú þinn hvata!

Hér er líka hægt að skoða viðtalið við Melkorku

Ég ólst upp við að leggja stund á íþróttir. Hreyfing og líkamsrækt af ýmsum toga hefur alltaf verið hluti af mínu lífi. Ég hef hins vegar farið í gegnum tímabil þar sem mér hefur fundist erfiðara að koma mér af stað og vantað hvatningu/”motiveringu“. Við erum ekki alltaf reiðubúin (“stemmd” fyrir) líkamsrækt. Þá er hins vegar mikilvægt að vera búin að koma sér upp venjubundinni (“rútíneraðri”) hreyfingu þannig að hún sé orðin að vana, líkt og þú burstar tennurnar kvölds og morgna.

Hér á eftir fylgja dæmi um mína hvata:

Hreyfing fyrir bætta andlega líðan
Góð geðheilsa er mikilvæg í almennu heilsufari. Við þurfum að geta tekist á við álagstímabil í lífinu. Hreyfing hjálpar okkur að hugsa skýrar og bætir andlega líðan. Hreyfðu þig daglega, það léttir lund. Við hreyfingu dregur úr magni streituhormóna. Reglubundin hreyfing getur þannig dregið úr streitu, kvíða og þunglyndi.

Hreyfing er geðlyfið mitt
Ég er alltaf andlega hressari eftir að hafa hreyft mig. Ég er jákvæðari, hugsa skýrar enda flæða gleði og vellíðunarhormón (td endorfín og kortisól) um líkamann í kjölfar hreyfingar.

Hreyfing fyrir meltinguna
Flestir kannast eflaust við að hafa upplifað meltingartruflanir einhvern tímann á lífsleiðinni. Hreyfing skiptir miklu máli fyrir meltinguna. Hún hjálpar til við að örva meltinguna og koma jafnvægi á hana.

Hreyfing er hægðalyfið mitt
Meltingin mín verður betri við alla hreyfingu. Ef ég hef átt við meltingartruflanir að stríða þá næ ég iðulega að koma þeim í jafnvægi með aðstoð hreyfingar. Teygjuæfingar og jógaæfingar eru gagnlegar fyrir meltinguna; einnig göngutúrar og hlaup.

Hreyfing fyrir bætt svefngæði
Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og mikilvægur til að halda góðri heilsu. Hreyfing hefur áhrif á gæði svefns, dregur út tímanum sem það tekur að sofna og getur aukið heildarsvefntímann.

Hreyfing er svefnlyfið mitt
Sjálf er ég algjör “bifukolla” þegar kemur af svefni. Ég sef almennt laust og stutt, en þegar hreyfingin er í daglegri “rútínu” hjá mér þá næ ég betri svefngæðum. Þó er mikilvægt að finna hinn gullna meðalveg því hreyfing seint að kvöldi getur t.d haft þveröfug áhrif og haldið fyrir manni vöku fram á nótt.

Hreyfing fyrir aukið orkuflæði
Hreyfing eykur orkuflæði og vellíðan. Hreyfing getur dregið úr þreytu og aukið líkamlegt orkuflæði með því að auka súrefnisupptöku í vöðvum. Við fyrstu átakshreyfingar felst tilfinningin gjarnan í aukinni þreytu og minni orku en langtímaupplifunin við æfingar felst fremur í aukinni orku, þoli og styrk.

Hreyfing er koffínið mitt
Sjálf drekk ég ekki kaffi og neyti ekki koffíns. Hins vegar hefur reynslan sýnt mér það að ég vakna jafn vel (eða betur) og aðrir sem nota kaffibollann á morgnana til ná sér í orku og áhrifin sem ég fæ við hreyfinguna nýtast mér lengur en áhrifin af kaffibollanum.

Hreyfing fyrir félagslega líðan
Auk beinna áhrifa fjölbreyttrar hreyfingar á heilsu og líðan getur hreyfingin skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl.

Hreyfing er félagslyfið mitt
Ég veit fátt meira nærandi en að hreyfa mig í góðra vina hópi, fara út að hlaupa með vinkonum og nota þann tíma sem nærandi samverustund. Að fara út að hjóla með fjölskyldunni, fara út í náttúruna í göngur og á fjöll með fólkinu mínu nærir bæði líkama og sál.

Ég er mikill talsmaður jafnvægis, bæði andlegs og líkamlegs og vil meina að lykillinn að bættum lífstíl sé að finna slíkt jafnvægi og að reyna að forðast öfgafullar breytingar í átt að bættri heilsu. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á langlífi, bætir lífsgæði og dregur úr líkum á að fólk fái lífstílstengda sjúkdóma.

Höfundur:
Melkorka Árný Kvaran
Hjúkrunarfræðingur
Íþróttakennari
matvælafræðingur