Fara í efni

VIÐTALIÐ: Hann Axel Einar Guðnason hljóp Tókýómaraþon á dögunum

Skemmtilegt viðtal við hann Axel Einar.
VIÐTALIÐ: Hann Axel Einar Guðnason hljóp Tókýómaraþon á dögunum

Hér á eftir fer viðtal við Axel Einar Guðnason en hann hefur nýlokið við að hlaupa Tókýómaraþonið í ferð sem hann fór í á vegum Bændaferða.

Heilsutorg tók Axel í viðtal á dögunum til að forvitnast um hann og hlaupið og hvernig það er að hlaupa maraþon í Tókíó á þessum árstíma.

Fullt nafn:

Axel Einar Guðnason

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú?

Hálfþýskur gaflari, hef í þrígang reynt að flytja úr Hafnarfirði en aldrei ílengst annars staðar nema í fáeina mánuði í Vestmannaeyjum, Reykjavík og Celebration, Florida. Byrjaði að huga að hreyfingu fyrir 10 árum eftir endalaust samviskubit af hreyfingarleysi en entist illa í karate, fótbolta og líkamsræktarstöðvum, svo ég endaði í útihlaupum. Byrjaði í 10 km Reykjavíkurmaraþoni 2012, hálfmaraþon ári síðar og London Marathon 2014, þetta hefur því verið stigvaxandi baktería. Er nýbyrjaður að vinna hjá Bændaferðum, sé m.a. um hlaupaferðirnar sem hlýtur að vera skemmtilegasta starf á Íslandi.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin?

Ferðalög! Fátt skemmtilegra en að þvælast um heiminn með fjölskyldu og vinum. Hef alltaf fundist gaman að lesa, m.a. ferðasögur og hef aðeins verið að prófa mig áfram á ritvellinum. Stærsta áhugamálið er samt að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi og að eldast með eiginkonunni.

Átt þú bakgrunn í íþróttum?

Átti framtíðina fyrir mér sem handboltamarkmaður en svo urðu strákarnir eldri og skotin fastari… Var Hafnarfjarðarmeistari í snóker 1989 sem telst þó varla íþrótt, enda var keðjureykt á billjardstofunum á þessum tíma.

Hvað hefur þú undirbúið þig lengi fyrir þetta maraþon og hvernig voru síðustu dagarnir fyrir?

Ég tók þátt í Berlin Marathon 24. september og því liðu aðeins 5 mánuðir á milli hlaupa. Eftir svolitla hvíld eftir Berlin tók við 16 vikna æfingaráætlun sem gekk mjög vel þrátt fyrir íslenskan vetur og nokkra hálkudaga. Síðustu dagarnir fyrir hlaup fóru í að upplifa Tokyo, heimsækja Expo-ið þar sem hlaupagögnin voru afhent, og alltof langa göngutúra um stórborgina enda galið að ferðast hálfan hnöttinn og hanga bara með tærnar upp í loft.

Nú er þetta heljarinar ferðalag, hvernig undirbjóst þú þig fyrir ferðina og hvað varstu kominn löngu áður en hlaupið fór fram?

Við flugum út á sunnudegi og lentum í Tokyo á mánudegi eftir tæplega sólarhrings ferðalag, 6 dögum fyrir hlaup. Líkaminn sá svolítið sjálfur um að undirbúa sig fyrir ferðalagið og 9 klst tímamismuninn, ég fann fyrir þreytu og syfju á undarlegustu tímum dags 2-3 dögum fyrir flug. Mér fannst ég vera stálsleginn strax á þriðjudeginum en konan mín átti aðeins erfiðara með að jafna sig.

Einhver heilræði til þeirra sem ferðast héðan til að hlaupa maraþon eða þaðan af lengra í Asíu?

Það var sagt við mig að enginn frá Íslandi væri að setja pb í Tokyo Marathon, því ætti að draga úr væntingum um góðan lokatíma, sérstaklega ef það er meiningin að koma til borgarinnar 2-3 dögum fyrir hlaup. Ég hafði 6 daga til að jafna mig á ferðalaginu, var því nokkuð vel upplagður á hlaupadegi og tókst að ná markmiðinu mínu og bæta tímann minn svolítið. Það er heilmikil upplifun að vera í Tokyo og taka þátt í maraþoninu, því ætti að njóta ferðarinnar og gríðarlegrar stemningar á hlaupaleiðinni frekar en að einblína á góðan lokatíma. Svo á auðvitað alltaf að vera í merktum hlaupafötum í útlöndum svo að áhorfendur geta hvatt ykkur áfram, það var æðislegt að heyra reglulega hrópað ‘Go Iceland!‘

Hvernig gekk þér að finna mat sem hentaði þér kvöldið fyrir keppnina og að morgni hlaupdags, hvað fékkstu þér að borða og náðir þú að fylgja þínu vanalega mataræði?

Ég er aldrei á neinu sérfæði dagana fyrir stór hlaup, reyni að borða fjölbreyttan mat í kolvetnaríkari kantinum. Við vorum því ekkert að taka mataræðið alltof alvarlega í Tokyo en auðvitað var á matseðlinum pasta-, núðlu- og hrísgrjónaréttir og við borðuðum yfirleitt á japönskum og kínverskum veitingastöðum. Síðasta kvöldmáltíðin er ekki endilega sú mikilvægasta en þá fórum við á franskan veitingastað þar sem ég fékk mér confit de canard, ekkert spes. Hafði ekki mikla matarlyst að morgni hlaupadags, fékk mér jógúrt með ávöxtum, brauðsneið og egg og drakk safablöndu sem konan mín fann upp á hótelinu; að blanda saman til helminga epla- og grænmetissafa. Fékk mér svo banana í rásmarkinu og 7 gel í hlaupinu. Ég tók með mér kolvetnaduft frá Íslandi og var því að karbólóda í tvo daga, hefði viljað gera það í þrjá daga. Var bara nokkuð ánægður með matinn, lenti ekki í neinum magavandræðum sem geta fylgt ferðalögum og mataræði á svona framandi slóðum en eitthvað hefur klikkað hjá mér þar sem ég lenti á maraþonveggnum síðla hlaups.

Hvernig er kúrsinn sem hlaupinn er og eru Tókýóbúar áhugasamir um viðburðinn og mæta út á götur til að hvetja hlauparana?

Hlaupaleiðin er æðisleg, sérstaklega eftir töluverðar breytingar á brautinni í fyrra. Nú er endamarkið fyrir framan keisarahöllina sem er nokkuð miðsvæðis í borginni, í stað þess að vera lengst í burtu nálægt Expo-inu á hafnarsvæðinu. Brautin er líka skemmtileg að því leyti að stærstan hluta leiðarinnar er verið að hlaupa fram og til baka að þremur snúningspunktum og því eru töluverðar líkur á að mæta bestu langhlaupurum veraldar á leiðinni. Hlaupið vekur mikla athygli borgarbúa og dagana fyrir hlaup fundum við áþreifanlega fyrir virðingu innfæddra þegar þeim var ljóst að hér færu þátttakendur í Tokyo Marathon. Meðfram allri brautinni eru áhorfendur, mestmegnis Japanar en einnig af öðrum þjóðernum sem gefur hlaupinu alþjóðlegan blæ. Stemningin er mikil í upphafi hlaups, dettur svo aðeins niður á köflum en stigmagnast aftur þegar nær dregur endamarkinu og nær hámarki á síðasta kílómetranum.

Eru aðrar vegalengdir í boði en aðeins heilt maraþon?

Já, það er keppt í 10 km hlaupi nokkrum mínútum áður en ræst er í maraþoninu.

Hvað var hægt að gera í Tókýó annað en að hlaupa maraþon?

Tja, hvað viltu gera? Hér er allt í boði enda er höfuðborgarsvæðið það fjölmennasta í heimi og endalausir afþreyingarmöguleikar. Við vorum ekkert sérstaklega frumleg, skoðuðum okkur um fyrir framan Keisarahöllina, fórum í bíltúr með hop-on-hop-off vagni og keyrðum yfir Regnbogabrúnna, kíktum í tröllvaxna verslunarmiðstöð nálægt Expo-inu og gengum um Akasaka hverfið þar sem hótelið er. Í næstu Japansferð langar okkur að fara aðeins út úr borginni, taka hraðlest til Kyoto sem er eins og ferð aftur í tímann. Svo er hægt að fara að Fuji fjallinu, dást að japönsku snjóöpunum sem kúra sig í heitum uppsprettum í kuldanum, skoða hrísgrjónakrana eða fara í heimsókn til teræktenda.

Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

Ég þarf aðeins að jafna mig enda telst mér til að ég hafi hlaupið einn Laugaveg og tvö maraþonhlaup á síðustu 7 mánuðum. Ég fer svo aftur af stað í apríl með Hlaupahóp FH enda mörg skemmtileg hlaup sem bíða mín á árinu. Það sem ég hlakka mest til er Hvítasunnuhlaup Hauka, hálft maraþon á Mývatni, Thorshavn og Vestmannaeyjum og auðvitað Jökulsárhlaupið. Lengstu hlaup ársins og þau sem ég þarf að undirbúa sérstaklega eru 55 km Laugavegshlaup í júlí og New York Marathon í nóvember.

Nefndu þrennt sem þú átt sjálfur alltaf til í ísskápnum?

Það er aldrei neitt þrennt sem er alltaf til nema það sem er sjaldan notað, eins og sinnep, sulta og tómatsósa. Í fullkomnum heimi væri alltaf til hrein jógúrt, harðfiskur og kókosvatn.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Alls konar matur skiptist á að vera uppáhalds, stundum er egg og beikon með bbq-sósu það allra besta en yfirleitt er það einhver góður matur sem langt síðan að ég borðaði síðast. Besti matsölustaður á Íslandi er lítill pakistanskur staður á Austurstræti, Shalimar en úti í heimi eru það BB Kings Blues Club í Orlando, Patsy´s í New York og Buchi í Tokyo sem er pínulítill japanskur tapas staður þar sem gestir eiga það til að bjóða hverjum öðrum smakk.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Kjúklingavængir og svínarif með alvöru rótarbjór!

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ef undirbúningurinn hefur gengið vel er yfirleitt ekkert að óttast, segi því við sjálfan mig að ég geti þetta vel, eigi eftir að rúlla þessu upp!

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?

Vonandi ekki enn búinn að toppa í hlaupunum og búinn að afreka eitthvað svakalegt sem mér er ekki enn búið að detta í hug. Til staðar fyrir fjölskyldu og vini og vonandi með heilsuna í lagi.