Fara í efni

Hreyfanleiki og styrkur í mjöðmum í tengslum við mjóbaksverki

Í kringum mjaðmirnar eru stórir og sterkir vöðvar ásamt sterkum liðböndum. Mjaðmirnar eru gerðar til að bera álag. Mjóbakið viljum við nota fyrir stuðning og stöðugleika. Mjóbakið er ekki jafn sterkbyggt og mjaðmirnar, þess vegna viljum við að álag fari frekar á vöðva í kringum mjaðmir heldur en í kringum mjóbakið. Þrátt fyrir það er alltof algengt að fólk gleymi sér eða kunni ekki almennilega að nota mjaðmirnar.
Hreyfanleiki og styrkur í mjöðmum í tengslum við mjóbaksverki

Í kringum mjaðmirnar eru stórir og sterkir vöðvar ásamt sterkum liðböndum.

Mjaðmirnar eru gerðar til að bera álag. Mjóbakið viljum við nota fyrir stuðning og stöðugleika.

Mjóbakið er ekki jafn sterkbyggt og mjaðmirnar, þess vegna viljum við að álag fari frekar á vöðva í kringum mjaðmir heldur en í kringum mjóbakið.

Þrátt fyrir það er alltof algengt að fólk gleymi sér eða kunni ekki almennilega að nota mjaðmirnar.

Í stað þess að beygja sig í mjöðmum (skjóta rassinum aftur, eins og verið sé að setjast á stól) að þá er algengt að fólk beygi í mjóbaki. Þá fer alltof mikið álag á mjóbakið þegar við réttum úr okkur aftur í stað þess að rassvöðvarnir hefðu átt að vinna þá vinnu (hefði viðkomandi beygt í mjöðmum). Þeim mun mikilvægara að huga að ef viðkomandi er að beygja sig eftir einhverju þungu. En til þess að við getum notað mjaðmirnar almennilega að þá þarf liðleiki og styrkur að vera í lagi.

Hversu oft á dag beygjum við okkur eftir skóm, hlutum á gólfinu lyftum upp barni/börnum, innkaupapokum og svona mætti lengi telja. Ef við beygjum okkur alltaf í mjóbakinu í þessum athöfnum þá er bara tímaspursmál hvenær verkirnir koma.

Þetta eru allt daglegar athafnir en svo getum við einnig hugsað um hvað gerist ef einstaklingur beygir í mjóbakinu í æfingum eins og til dæmis réttstöðulyftu, hnébeygju og ketilbjöllusveiflum. Þar er þeim mun mikilvægara að hugsa um að beygja í mjöðmum en ekki mjóbakið.

Algengt er að fólk sé stirt í kringum mjaðmir og ekki með nógu sterka vöðva þar í kring. En afhverju?

Við sitjum of mikið, það er staðreynd. Seta hefur áhrif á liðleika og styrk í kringum mjaðmir. Þegar liðleiki og styrkur er ekki nægjanlegur þá skila mjaðmirnar ekki lengur því hlutverki sem þær eiga að gera og þá tekur mjóbakið við.

Með því að styrkja vöðva í kringum mjaðmir og beita mjöðmunum rétt þá getum við komið í veg fyrir að fá verki eða losað okkur við verki í baki og/eða hnjám. Einnig með því að nota mjaðmirnar þá ættum við að hafa töluvert meiri kraft í hlaupi, hoppi, hnébeygju, réttstöðulyftu, ketilbjöllusveiflum og í ólympískum lyftingum ásamt því að geta framkvæmt æfingarnar af meira öryggi.

Ef krafturinn kemur úr mjöðmunum eigum við að geta bætt þyngdir, hlaupið hraðar, aukið kraft í golfsveiflu og svona mætti lengi telja.

Með því að hafa sterkar mjaðmir að þá erum við ekki að láta óþarfa álag á nærliggjandi liði.

Við viljum geta lyft börnunum okkar, innkaupapokum, reimað skóna og allt það sem við gerum dagsdaglega án þess að fá verki.

Grein af vef netsjukrathjalfun.is