Fara í efni

Þvag- og kynfæri - grein frá vefjagigt.is

Þvag- og kynfæri • Óþægindi frá þvagfærum • Millivefjablöðrubólga • Vulvodynia
Þvag- og kynfæri - grein frá vefjagigt.is

Einkenni frá þvagblöðru, þvagrás og kynfærum er líklega þau einkenni sem minnst hefur verið rætt um og vart er hægt að finna neitt um í bókum um vefjagigt.

Nýlegar rannsóknir hafa þó sýnt að þekktir sjúkdómar sem leggjast á ákveðin líkamssvæði eins og millivefjablöðrubólga (e. interstitial cystitis) og sársauki frá kynfærum (e. vulvodynia) eru mun algengari meðal fólks með vefjagigt en meðal almennings (37,38).

 

Þvag- og kynfæri

• Óþægindi frá þvagfærum
• Millivefjablöðrubólga
• Vulvodynia


Óþægindi frá þvagfærum
Einkennin geta verið verkir frá þvagblöðrunni sem aukast þegar blaðran dregst saman eftir þvaglát. Einkennum svipar til blöðrubólgu en yfirleitt ræktast engar bakteríur úr þvagi. Viðkomandi þarf oft og skyndilega að pissa með tilheyrandi sársauka frá þvagrás og gjarnan svæðinu kringum þvagrásina. Sjúklingar með þessi einkenni kvarta gjarnan um að þeir geti alls ekki haldið í sér og það hefti þá í öllum daglegum athöfnum. Nætursvefninn skerðist verulega vegna reglulegra klósettferða. Ef þessi einkenni verða langvinn þá er líklegt að þau stafi af millivefjablöðrubólgu (e. interstitial cystitis).

Millivefjablöðrubólga (e. interstitial cystitis)
Millivefjablöðrubólga er heiti yfir langvinn vandamál frá þvagblöðru og þvagrás. Þetta er lítt skilið vandamál, vangreint og því illa meðhöndlað. Mikilvægt er að greina millivefjabólgu sem fyrst og reyna að halda henni niðri, því að ekki hefur fundist nein 
fullnaðar lækning við henni. Einkennin eru m.a. verkir í þvagblöðru, þvagrás, kynfærum og jafnvel í mjóbaki. Önnur einkenni eru tíð þvaglát jafnt á nóttu sem degi, bráð þvaglát og sársauki við þvaglát og ofurnæmi í kynfærum. Orsök eru óþekkt, en margar ólíkar kenningar hafa verið settar fram um líklegar orsakir m.a. langvinn sveppasýking, vírusssýking af völdum “papillomaveiru”, aukið verkjanæmi tauga eða bólguvirkni þar sem ónæmiskerfið ræðst á veggi þvagblöðrunnar og veldur þar langvinnum bólgum (37,38). Millivefjablöðrubólga greinist í allt að 40% vefjagigtarsjúklinga (21), en hún finnst einnig meðal einstaklinga sem eru haldnir sjálfsofnæmissjúkdómum eins og rauðum úlfum (e. systemic lupus erythematosus) og Sjögren heilkenni (e. Sjögren syndrome) (39) .

Bakteríusýking er sjaldnast til staðar en blöðruspeglun sýnir oft bólgubreytingar og vægar blæðingar í blöðruveggjum. Langvinnar bólgur í veggjum þvagblöðrunnar geta gert hana viðkvæmari fyrir ertingu frá sýrustigi þvags eða frá útfellingum í þvagi meðal annars þvagkristöllum. Þvagkristallar safnast saman í blöðrubotninum og særa hann og þvagrásina. Bólgnir veggir þvagblöðru valda því að slímhúðin verður gegndræp og verður því næmari fyrir bakteríusýkingum þannig geta mjög vægar bakteríusýkingar valdið einkennum sem greinast ekki. Sumir einstaklingar eru betri ef að þeir eru stöðugt á sýklalyfjum, meðan aðrir finna engan mun (23). 
Þetta er illa skilgreint vandamál, vangreint og því illa meðhöndlað. Mikilvægt er að greina millvefjablöðrubólgu sem fyrst og reyna að halda henni niðri, því ekki hefur fundist nein fullnaðar lækning við henni.


Vulvodynia er heiti yfir verki frá kynfærum, einkum leggöngum kvenna og skapabörmum. Svipuð einkenni geta lagst á kynfæri karla, en það er mun sjaldgæfara. Vulvodyna er oft tengd millivefjabólgu og er hugsanlega sami sjúkdómurinn sem leggst í mismiklu mæli á annarsvegar þvagfærin og hinsvegar kynfærin (23,37). Slímhúð legganga og þunn húð kynfæra verður ofurnæm fyrir allri snertingu og sársauki er stundum stöðugur og viðþolslaus. Kynlíf er alveg út úr myndinni í verstu köstunum og til eru dæmi um að einstaklingar hafi verið ófærir um að stunda kynlíf árum saman.

Sjúklingar lýsa verkjunum sem stingandi sársauka eins og rakvélablöð fari niður þvagrásina, eða brunatilfinningu, eins og sýru hafi verið hellt í opið sár (37). Margir þola ekki að ganga í þröngum fötum, vera í sokkabuxum, sitja lengi t.d. í flugvél eða bíl, geta alls ekki hjólað eða farið á hestbak. Eins getur þvag eða tíðarblóð aukið enn á verkina.

Af vef vefjagigt.is