Fara í efni

Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) - I. Hluti

Langvinnir verkir frá kjálkaliðum, andlits- og tyggingarvöðvum, munnholi og taugum sem næra vefi á þessu svæði eru vel þekktir kvillar sem hafa sterk tengsl við vefjagigt. Algengastur þessara kvilla er kjálkakvilli (temporomandibular disorders; TMD) sem talinn er hrjá um 10% fólks og líkt og með aðra verkjasjúkdóma þá er kjálkakvilli tvöfalt algengari hjá konum en körlum. Aðrir þekktir langvinnir verkjakvillar frá þessu líkamssvæði eru trigeminal taugaverkur (trigeminal neuralgia) og bruni í koki og munni (burning mouth syndrome).
Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) - I. Hluti

Langvinnir verkir frá kjálkaliðum, andlits- og tyggingarvöðvum, munnholi og taugum sem næra vefi á þessu svæði eru vel þekktir kvillar sem hafa sterk tengsl við vefjagigt.

Algengastur þessara kvilla er kjálkakvilli (temporomandibular disorders; TMD) sem talinn er hrjá um 10% fólks og líkt og með aðra verkjasjúkdóma þá er kjálkakvilli tvöfalt algengari hjá konum en körlum.

Aðrir þekktir langvinnir verkjakvillar frá þessu líkamssvæði eru trigeminal taugaverkur (trigeminal neuralgia) og bruni í koki og munni (burning mouth syndrome).


Margir þættir eru þekktir sem taldir eru orsaka andlits- og kjálkaverki, en þeir geta einnig verið að óþekktum (idiopthic) toga. Sem dæmi um þekkta orsakaþætti er bitskekkja, starfræn truflun í stoðkerfi andlits- og kjálka, bólgusjúkdómar, taugasjúkdómar, streita, kvíði, þunglyndi og áverkar, einkum hálshnykksáverkar.

Kjálkakvillar (Temporomandibular Disorders; TMD)
Kjálkakvillar geta þróast af mismunandi ástæðum. Helstu einkenni eru smellir og brak í kjálkaliðum, eymsli og verkir í tyggingarvöðvum og höfuðverkur.
Í flestum tilfellum þá eru verkir frá kjálka og tyggingarfærum tímabundið ástand sem auðvelt er að snúa til baka með lítilli sem engri meðferð. En TMD getur þróast út í langvinnt verkjaástand sem að skerðir lífsgæði fólks og jafnvel færni til daglegra athafna.

Starfræn truflun í tyggingarfærum
Einkenni geta stafað af starfrænni truflun í tyggingarfærum sem eru kjálkaliðir, tyggingarvöðvar, tennur, munnhol og tunga. Truflun getur stafað af bitskekkju, tilfærslu á liðþófa kjálkaliða, rangri starfsemi vöðva sem stýra hreyfingum kjálkaliða og getur verið afleiðing áverka á kjálkaliðum og eru hálshnykksáverkar þar algengasta orsök.

Spennu og streitutengd truflun
Sterk tengsl eru milli andlits- og kjálkaverkja og streitu, kvíða og þunglyndis. Andlegt álag af hvaða toga sem er stuðlar að aukinni spennu í stoðkerfi sem veldur vöðvabólgu, virkum triggerpunktum í vöðvum og eykur tanngníst. Smám saman myndast verkjavítahringur þar sem að tyggingarvöðvar og aðrir vöðvar andlits, háls og hnakka fá ekki eðlilega hvíld.
Langvinnir verkir frá þessu svæði geta þróast smám saman út í vefjagigt. Eins geta vefjagigtarsjúklingar þróað með sér kjálkakvilla.

Aðrar orsakir
Nokkuð algengt er að slitgigt geti lagst á kjálkaliðina, eins er vel þekkt að gigtarsjúkdómar eins og liðagigt, psoriasisgigt og hryggikt geti lagst á þá með bólgum og jafnvel niðurbroti á liðunum.
Gervitennur, gómar og jafnvel spangir og gómar fyrir tannréttingar geta valdið vandamálum frá kjálkaliðum og tyggingarfærum.

Helstu einkenni:

Ýmis einkennir geta tengst TMD. Verkir i tyggingarvöðvum og í kjálkaliðum eru þau algengustu. Önnur líkleg einkenni geta verið:
• Skert hreyfing í kjálkaliðum
• Geislandi verkir í andliti, hálsi og öxlum
• Smellir, brak og marr, með eða án verks, við að opna eða loka munni
• Höfuðverkur, oft mestur í enni, gagnaugum og bak við augun
• Eyrnaverkur
• Svimi, jafnvægileysi

Greining
Ekki eru til nein stöðluð próf til að greina TMD, en greining byggir á athugun á tannheilsu og sjúkdómssögu einstaklings, lýsingu hans á einkennum ásamt ítarlegri skoðun sérfræðings (tannlæknis, kjálkasérfræðings, sjúkraþjálfara, læknis) til að hægt sé að greina TMD.
Skoðun felst meðal annars í athugun á biti; mati á ástandi kjálkaliða - meðal annars mati á hreyfiútslagi liðanna, það er hvort of lítil eða of mikil hreyfing sé í þeim og mati á verkjum við þreifingu; að hlusta eftir smellum og braki í liðunum; góðri athugun á tyggingarvöðvum með tilliti til verkja, eymsla og styrks.
Í flestum tilfellum nægja þessar upplýsingar til að greina grunninn að kjálkakvillanum og meta hvaða meðferðarúrræðum er heppilegast að beita.

Meðferð
Hafa verður í huga að TMD er í flestum tilfellum tímabundið ástand sem auðvelt er að ráða bót á með einföldum aðgerðum, eins og að hvíla kjálkaliðina t.d. með því að borða mjúka fæðu, forðast að tyggja tyggigúmmí, forðast ýktar hreyfingar í kjálkaliðum eins og að geispa og gapa. Eins er gott að lina þrautir með heitum eða köldum bökstrum við verkjasvæðið, slaka á andliti og tyggingarvöðvum, passa að bíta ekki tönnum saman, slaka á tungunni, humma til að slaka á kjálkavöðvum og tungu.

Í erfiðari tilfellum þar sem að þessi einfölu ráð duga ekki þarf að beita markvissri meðferð sem byggð er á ítarlegri greiningu.

Dæmi um meðferðir eru:

• Fræðsla um hvað er að og hvaða úrræði eru í boði
• Lagfæring á biti þar sem það á við
• Bithlíf til að sofa með, dregur úr verkjum í kjálkaliðum og slakar á tyggingarvöðvum, dregur úr tanngnísti
• Æfingar sem miða að því að bæta starfræna færni tyggingarvöðva og slaka á spenntum vöðvum
• Sjúkraþjálfun - leiðrétting á líkamsstöðu, triggerpunktameðferð, vöðvateygjur, styrktar- og færnisæfingar fyrir bit- og hálsvöðva, slökunaræfingar
• Verkjalyf, bólgueyðandi lyf
• Lyf sem að bæta svefn
• TNS – rafstraumsmeðferð til að draga úr verkjum
• Nálastungur
• Sprautumeðferð – Sprautað er langvirkandi verkja- eða steralyfjum í kjálkaliði og spennta og auma tyggingarvöðva
• Botox sprautumeðferð – Botox (Botox®) innspýting í ofvirka vöðva getur gagnast vel ef um er að ræða staðbundna ofvirkni (dystonia) í vöðva/um, sem svara ekki annarri meðferð.

Hvert á að leita eftir greiningu og meðferð?
Æskilegt er að leita til tannlæknis með þessi einkenni og fá hjá honum leiðbeiningar og ráð, ef að það nægir ekki þá þarf að kalla til fleiri meðferðaraðila t.d. kjálkasérfræðing, heimilislækni, sjúkraþjálfara, sálfræðing.

Höfundur greinar: Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari, MTc, MPH

af vef vefjagigt.is 


Heimildir

Okeson, J.P. (2005). Orofacial Pains. The Clinical Management of Orofacial Pain . Canada, Quintessence Publishing Co, Inc.

Ragnheiður Hansdóttir (2007). Sjúkdómar í kjálkaliðum og tyggingarfærum. Temporomandibular Disorders. Sjúkraþjálfarinn, 34 (1), 23-25. 

Sex and Gender Differences in Orofacial Pain. Sótt 4.04.2008 af http://www.iasp-pain.org/AM/Template.cfm?Section=Fact_Sheets&Template=/CM/ContentDisplay.cfm&ContentID=4498 

Temporomandibular Jaw Disorders (TMD, TMJ Syndrome). Sótt 17.04.2008 af http://www.medic8.com/dental/tmj-disorders.htm