Fara í efni

Fólk sem er með beinþynningu getur vel sinnt garðinum sínum og notið þess að sameina útivist, hreyfingu og garðvinnu, ef varlega er farið

Sumarið er komið, þótt kalt hafi verið, sólin hátt á lofti og garðurinn kallar. Garðstörfin eru ekki einungis ánægjuleg fyrir marga, heldur frábær leið til þess að komast út og hreyfa sig eftir langvarandi inniveru yfir vetrartímann.
Fólk sem er með beinþynningu getur vel sinnt garðinum sínum og notið þess að sameina útivist, hreyfi…

Sumarið er komið, þótt kalt hafi verið, sólin hátt á lofti og garðurinn kallar. Garðstörfin eru ekki einungis ánægjuleg fyrir marga, heldur frábær leið til þess að komast út og hreyfa sig eftir langvarandi inniveru yfir vetrartímann.

Þrátt fyrir langvinna verki eða ótta við byltur og beinbrot getur fólk með beinþynningu notið þess að sinna garðverkunum ef það fylgir ákveðnum varúðarrreglum. Auk þess að njóta útiverunnar þá eru dæmigerðar hreyfingar í garðvinnu s.s. að ganga, krjúpa, sitja á hækjum sér, grafa, raka o.s.frv. áhrifaríkar til að styrkja beinin. Allar bera uppi eigin líkamsþyngd sem er gott fyrir beinin, ef rétt og örugglega er gert.

Fólk með samfallsbrot í hrygg eða er í áhættuhópi ætti að tala við heilbrigðisstarfmann um hvaða hreyfingar eru öruggar fyrir það  s.s. hvort það megi beygja sig fram og lyfta hlutum. Almennt er talið að allir sem eru í mikilli hættu á að fá samfallsbrot í hrygg  eigi að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Gera nokkrar teygjuæfingar áður en hafist er handa við garðvinnuna og byrja hægt og rólega.
  • Forðast að beygja þig áfram og snúa upp á líkamann. Slíkar hreyfingar valda of miklu álagi á veika hryggjarliði. Æskilegast er að vinna standandi með bakið beint, krjúpa á hnén og vinna á fjórum fótum.
  • Ekki beygja sig eða snúa upp á líkamann við mokstur eða rakstur heldur standa með gott bil á milli fóta með annan fótinn framar hinum. Síðan er gott að flytja þungann frá öðrum fætinum yfir á hinn og mynda ruggandi hreyfingu.
  • Ef þörf er á að sækja eitthvað fyrir neðan sig, þá skal beygja hné og halda bakinu beinu
  • Mikilvægt er að taka hlé með reglulegu millibili til að forðast þreytu sem eykur hættu á meiðslum.
  • Hugleiða hvort mögulegt sé að breyta aðeins til í garðinum og gera garðvinnuna öruggari og auðveldari. Er t.a.m. hægt að hækka beð eða hafa pottablóm í þægilegri hæð svo beygja þurfi líkamann sem allra minnst fram á við?
  • Velja garðáhöld sem eru örugg og gera vinnuna léttari. Nota t.d. létt áhöld með löngu skafti, hafa borð í réttri vinnuhæð, nota hjólbörur í stað þess að halda á þungum hlutum og færa á milli staða, nota sjálfvirka vatnsúðara og hnépúða þegar unnið er á hnjánum eða fjórum fótum.
  • Ef þörf er á að bera eitthvað þungt, skal halda því þétt upp við líkamann. Þannig er auðveldara að halda jafnvægi og minnka álag á hrygg og handleggi. Aldrei skal snúið upp á líkamann á meðan haldið er á þungum hlut.
  • Fara fleiri ferðir en færri og brjóta upp verkþætti í minni og léttari einingar. Betra er að halda á tveimur léttum fötum í hvorri hendi en einni þungri með annarri, auk þess sem þá er auðveldara að halda jafnvægi.
  • Ekki hika við að biðja um aðstoð þegar lyfta þarf þungum hlutunum. Þú munt undrast hve margir nágrannar, ættingar eða vinir eru tilbúnir að leggja þér lið ef þú bara spyrð.
  • Fara rólega af stað og ekki reyna að gera allt í senn.
  • Leita til heilbrigðisstarfsmanns, ef verkir fylgja garðvinnunni og halda ekki áfram, ef þrautir verða þrálátar.

Njótið þess að vera úti, hreyfa ykkur og vinna í garðinum með öryggið að leiðarljósi.

Heimild: beinvernd.is