Fara í efni

Lyfjameðferð gegn frjókornaofnæmi

Lyfjameðferð gegn frjókornaofnæmi

 

 

 

 

 

 

Nú er sá árstími að ganga í garð að þeir sem eru með frjókornaofnæmi fara aldeilis að finna 
fyrir því og því um að gera að rifja upp hvaða ráð ber að hafa í huga til að gera sumarið sem best. 

Þessar ráðleggingar eru á heimasíðu Astma- og ofnæmisfélagins - ao.is - og vonum við að þetta geti hjálpað einhverjum að muna hvernig best er að snúa sér í lyfjameðferð gegn frjókornaofnæmi. 

Andhistamín-lyf 

Eitt af þeim efnum sem líkaminn myndar í ofnæmisviðbragði er histamín. Histamín veldur kláðanum 
í nefi og augum. Því þarf oft að meðhöndla ofnæmi með svokölluðum andhistamín-lyfjum. Andhistamín-lyf eru yfirleitt í töfluformi en fást einnig sem augndropar og nefdropar. Andhistamín er efni sem hindrar 
að histamínið virki og einkenni s.s. kláði í augum og nefi hverfur. 

Ýmsar tegundir andhistamín-lyfja eru á markaði, sumar fást í lyfjabúðum án lyfseðils en gott er að ráðfæra sig alltaf við lækni 
áður en meðferð með slíkum lyfjum hefst. 

Fyrirbyggjandi lyfjameðferð 

Ef nef þitt er stíflað vegna ofnæmis-bólgusvörunar í nefslímhúðinni og andhistamín-lyf sýna litla virkni mæla læknar stundum með fyrirbyggjandi lyfjameðferð með bólgueyðandi lyfjum eða ofnæmis-hindrandi lyfjum. Þessi lyf gera slímhúðina aftur eðlilega svo nefgöngin opnast á nýjan leik. 

Bólgueyðandi lyf eru yfirleitt steralyf sem sprautað er í nefið með úðabrúsum. Athugið að skammtar þeir sem notaðir eru í meðferð ofnæmis í nefi 
eru afar smáir og fullkomlega skaðlausir. 

Önnur ofnæmishindrandi lyf þarf að taka áður en einkenna verður vart, þau hindra losun 
ofnæmismyndandi efna í nefinu. Ef um mikið áreiti er að ræða duga þessi lyf stundum ekki og grípa 
þarf til bólgueyðandi lyfjanna. 

Mundu að taka alltaf lyfin í samræmi við ráðleggingar læknis. Fyrirbyggjandi lyfin verður að taka á hverjum degi, jafnvel þó að þú finnir ekki fyrir einkennum þá stundina. 

Stíflulosandi neflyf 

Í lyfjabúðum er hægt að kaupa án lyfseðils stíflulosandi lyf sem draga saman háræðar í 
nefslímhúðinni og losa þannig stíflur. Lyf þessi eru afar áhrifarík en þau má einungis nota í skamman 
tíma í senn eða 7-10 daga. Teljir þú þig þurfa að nota þessi lyf lengur er afar mikilvægt að þú ráðfærir þig við lækni. Lyf þessi eru t.d. Nexól, Otrivin, Nezeril o.s.frv.