Fara í efni

Velviljaðar bakteríur, er það til?

Velviljaðar bakteríur og gerlar, öðru nafni probiotics, eru vanmetin heilsubót sem leyna sannarlega á sér þrátt fyrir smæð sína.
Vörunar frá Örnu innihalda probiotics
Vörunar frá Örnu innihalda probiotics

Velviljaðar bakteríur og gerlar, öðru nafni probiotics, eru vanmetin heilsubót sem leyna sannarlega á sér þrátt fyrir smæð sína.

Hvað eru probiotics?

Fjöldinn allur af mismunandi bakteríum, sem sumir vilja fremur kalla gerla, lifa í umhverfinu en ekki síður í líkama okkar. Þær geta verið bæði verið góðar og slæmar en sem betur fer þá er varnarkerfi líkamans vel innstillt inn á að nota sér alla kosti velviljuðu bakteríanna til að verjast þeim slæmu.

Auk þess að vinna gegn óvinveittum bakteríum hjálpa þær velviljuðu okkur að brjóta niður fæðu til að mynda fitusýrur og frásoga næringarefni. Ýmisskonar mjólkursýrugerlar eru dæmi um velviljaðar bakteríur/gerla eða hagstæða þramaflórustofna, sem einnig ganga undir nafninu probiotics. Þeir eru andstaða antibiotics (sýklalyfja). Helstu mjólkursýrugerlarnir eru lactobacillus, bifidobacterium bifidum og Lactobacillus GG þá er aðallega að finna í meltingarvegi, þvagkerfi og kynfærum.

Þeir hjálpa einnig til við að halda í skefjum sjúkdómum eða einkennum s.s. húðsjúkdómum og ofnæmi, tannskemmdum, sveppasýkingum, ristil- og þarmabógum, öndunarfærasjúkdómum, vaxtartruflunum barna svo og að vinna gegn helstu heilsufarstengdu vágestum nútímasamfélags það er offitu, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum. 

Annar áhugaverður gerill af svipuðum toga er Lactobacillus rhamnosus GG en sýnt hefur verið fram á gagnsemi hans fyrir heilbrigða meltingu, verndun slímhúðar meltingarvegarins, hann geti  spornað gegn harðlífi og komið í veg fyrir niðurgangspestir þar á meðal niðurgang í kjölfar ferðalaga á framandi slóðir (travelers diarrhea). Einnig að styðja við þarmaflóruna bæði í daglegu lífi og í tengslum við sýklalyfjainntöku.

Lactobacillus rhamnosus GG hefur einnig verið rannsakaður í tengslum við áhrif hans á ónæmiskerfið og þar með bein og óbein tengsl við ofnæmi og exem til að mynda hjá börnum. Annað er snýr að börnum er að sýnt hefur verið fram á að þau leikskólabörn sem fá Lactobacillus rhamnosus GG fá síður kvef og jafnvel aðra öndunarfærasjúkdóma samanborið við önnur börn.

Önnur jákvæð áhrif sem talið er líklegt að Lactobacillus rhamnosus GG hafi jákvæð áhrif á eru Crohn´s sjúkdómur, gigt, magasár, og mögulega einhver vernd gegn tannskemmdum, ristilkrabbameini og þvagfærasýkingu

Mjólkursýrugerlar gegn mjólkursykursóþoli

Áhugavert er hvernig mjólkursýrugerlarnir geta gagnast þeim sem eru með mjólkursykursóþol en gerlarnir eru færir um að brjóta niður mjólkursykur (laktósa) bæði í mjólkurvörunni sem þeir eru settir í, til að mynda drykkjarmjólk, jógúrt og nú síðast skyr sem allt er í boði á íslenskum matvörumarkaði en einnig í meltingarveginum þegar þeir hafa ferðast alla leið þangað. Niðurbrot á mjólkursykrinum er reyndar eðlilegur hluti framleiðsluferilsins þegar mjólk er sýrð og verður að jógúrt eða skyri

Probiotics, fyrir hverja

Almennt henta probiotics öllum aldurshópum og þar sem það er ekki lyf heldur hluti af matvöru er dagleg neysla þeirra örugg, jafnvel mjög æskileg eins og fram kemur í þessari grein. Þeir geta með varnarverkun sinni eflt mótstöðuafl líkamans gegn sýkingum og pestum, einnig vegna álags í daglegu lífi vegna ferðalaga og óreglu á svefni og mataræði. Probiotics eru því sjálfsagður hluti af daglegu, hollu mataræði.

Tengsl baktería við þroska ónæmiskerfisins

Þroski og efling ónæmiskerfis barna er mjög háð bakteríuflóru í meltingarvegi og tengist það jafnvel því hvort börn fæðast með hefðbundnum hætti eða með keisaraskurði. Vitað er að bakteríur í meltingarvegi eru gríðarlega margar og allt að tífalt fleiri en frumur líkamans og samspil þessara baktería og slímhúðarinnar í þörmum hefur greinileg áhrif á það að ónæmiskerfið þroskist með eðlilegum hætti auk þess að hafa áhrif á það hvort þau fá astma eða barnaexem.

Áhugavert er að barnshafandi konur sem komnar eru að fæðingu en þjást sjálfar af einhverskonar ofnæmi gera börnum sínum gagn og vernda þau gegn exemi síðar á lífsleiðinni með því að taka inn probiotics.

Helstu tegundir probiotics?

Lactobacillusacidophilus (L. acidophilus) er líklega þekktasta og mest notaða velviljaða bakterían auk Bifidobacterium bifidum en saman eru þær notaðar í ýmisskonar mjólkurvörur sem fá þá einkennisstafina eða viðbótarheitið AB-. Fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir þá eru fleiri tegundir probiotics Streptococcus thermophilus, Saccharomyces boulardi, L. bulgaricus, L. casei, L. reuteri, Lactobacillus GG og Bifidobacterium longum.


 
Hvernig vinna probiotics

Milljónir baktería eiga sér samastað í meltingarvegi og leggöngum þar sem þær velviljuðu vernda gegn sjúkdómum og neikvæðum áhrifum þeirra slæmu. Þær velviljuðu vinna meðal annars á þann hátt að þær framleiða tiltekið efnasamband, eitt eða fleiri, sem slæmu bakteríurnar þrífast illa eða ekki í. Dæmi um þetta er þegar L. acidophilus brýtur niður fæðu í meltingarveginum og framleiðir við það mjólkursýru (lactic acid) og vetnisperoxíð (hydrogen peroxide).

Tengsl probiotics við sýklalyfjagjöf

Í kjölfar þess að í nútíma samfélagi er mikið notað af breiðvirkum sýklalyfjum, og því miður erum við Íslendingar þar engir eftirbátar, þá má greina aukningu í sýklalyfjaónæmi og hafa margir af því miklar áhyggjur.

Sýklalyf (antibiotics) brjóta niður allar bakteríur í meltingarveginum hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Við það skapast ójafnvægi sem þarf að leiðrétta og getur líkaminn gert það sjálfur á mislöngum tíma. Annað sem er tilvalið og hraðar ferlinu svo um munar er að borða mjólkurafurð sem inniheldur probiotics eða taka inn þar til gerð fæðubótarefni. Slíkt byggir upp og viðheldur velviljuðum bakteríum/gerlum sem eyðast við sýklalyfjainntökuna. Við breiðvirka sýklalyfjagjöf er vitað að slæmu bakteríurnar fjölga sér mikið á kostnað þeirra góðu sem undirstrikar enn frekar gildi þess að taka inn mjólkursýrugerla í kjölfar sýklalyfjagjafar.

Inntaka á gerlategundunum Saccharomyces boulardi og Lactobacillus GG eru taldar vera áhrifaríkastar til að sporna gegn niðurgangi hjá fullorðnum í kjölfar sýklalyfjameðferðar.

Hvar finnast probiotics?

Margir taka probiotic gerla, oft nefndir AB gerlar, inn að staðaldri og þá aðallega með því að borða mjólkurvöru með AB gerlum í dæmi um slík matvæli eru skyr, jógúrt, AB-mjólk, LGG-mjólkursýrugerlar og einnig ostur. Mjólkurvörur með slíkum gerlum flokkast sem markfæði sem þýðir að varan inniheldur einhverja tiltekna heilsubætandi eiginleika. Aðrar fæðutegundir sem innihalda velviljaðar bakteríur er miso og tempeh sem er gerjuð sojaafurð upprunnin frá Jövu í Indónesíu.

Bestu uppspretturnar

Hægt er að fá probiotics á ýmisskonar formi (fljótandi, þurrkað, frosið, duft, töflur) og af ýmsum gæðum. Best er að geyma þá í kæli. Fyrir þá sem hyggjast taka probiotics með sér í ferðalög er æskilegt að velja tegund sem þolir að geymast utan kælis.

Prebiotics

Til viðbótar við probiotics ráðleggja sumir svokallaða prebiotics. Þetta eru vatnsleysanlegar trefjar sem finnast í sumum matvælum og bætiefnum sem m.a. hjálpa probiotics að lifa góðu lífi í meltingarveginum. Dæmi um þetta eru svokölluð fructo-oligosaccharides (FOS) stundum kallað heilsutrefjar og inulín (fructan), kolvetnisgjafi í sumum tegundum af ávöxtum og grænmeti sem styðja enn frekar við meltinguna og ónæmiskerfið. Þó ber að hafa í huga að þekkt eru nokkur tilfelli ofnæmislosts vegna neyslu inulíns. Prebiotics má finna í hveitiklíði, byggi og hveiti, hvítlauk, lauk, blaðlauk, aspas og banönum.

Brjóstamjólk inniheldur fjöldan allan af næringarefnum og öðrum efnum sem sýnt hefur verið fram á að séu nauðsynleg fyrir barnið, þroska þess og vellíðan. Svo og varnir gegn sjúkdómum bæði sýkingum snemma á lífsleiðinni svo og lífsstílstengdum sjúkdómum síðar á ævinni. Stofnun þarmaflórunnar hjá ungabörnum er mjög tengd því hvort að brjóstamjólk eða tilbúnar mjólkurblöndur verða fyrir valinu.  Börn sem fá brjóstamjólk byggja upp þarmaflóru sem er rík af  bifidobacteria og lactobacilli. Einnig njóta þau góðs af prebiotic áhrifum af völdum oligosaccharides sem eru eitt af megin efnum brjóstamjólkurinnar. Þessi oligoaccharides meltast aðeins að hluta til í smáþörmunum en þegar þau koma niður í ristilinn taka þau þátt í að byggja upp þarmaflóruna.
 

Eftirfarandi heilsutengdir þættir tengjast notkun á probiotics

Gegn sýkingum í æxlunarfærum kvenna

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að nota megi velviljaðar bakteríur til að vinna gegn einkennum í leggöngum sem tengd eru neikvæðum bakteríum og sýkingum af þeirra völdum, L. Acidophilus er nefnt sérstaklega í þessum efnum. Einnig sýndu nokkar rannsóknir fram á jákvæð áhrif af neyslu jógúrtar sem innihélt acidophilus gerla. Ekki hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að notkun velviljaðra baktería gagnist gegn sveppasýkingum í leggöngum þó svo að vísbendingar séu uppi um það og að margar konur hafi reynt slíkt í gegnum tíðina.

Áhrif gegn niðurgangi

Tengsl probiotics við niðurgang af ýmsum toga hefur verið rannsakaður nokkuð vel. Til að mynda dró verulega úr hættu á niðurgangi hjá sjúklingum á sjúkrahúsum sem undirgengust sýklalyfjameðferð  þegar þeir fengu probiotics tvisvar á dag meðan á meðferðinni stóð og í eina viku á eftir. Einstaklingar með krabbamein í ristli og endaþarmi sem undirgangast krabbameinsmeðferð eru ólíklegri til að fá niðurgang, sjúkrahúsdvöl þeirra styttist og sjaldnar þarf að draga úr lyfjameðferð vegna niðurgangs fái þeir Lactobacillur rhamnosus og Lactobacillus GG.

Ekki er samræmi milli alla rannsóknarniðurstaðna hvort velviljaðar bakteríur gagnist með óyggjandi hætti gegn niðurgangi í kjölfar matarsýkinga sem ferðamenn verða gjarnan fyrir. Tegundirnar Lactobacillus rhamnosus, Lactobacillus GG og Lactobacillus acidophilus hafa þó aðallega verið nefndir í þessu sambandi og hafa reynst ágætlega bæði til að fyrirbyggja og hindra sýkingar.

Lactobacillus GG gæti gagnast við að fyrirbyggja eða meðhöndla niðurgang í börnum vegna sýkingar en probiotics eru þó mest gagnlegar til að meðhöndla svokallaðan rotavirus niðurgang hjá börnum. Stundum er probiotics notað til að meðhöndla ungabörn með magakveisu (colic) með 100 milljón CFU daglega í 3-4 vikur en nauðsynlegt er að það sé undir handleiðslu læknis eða menntaðs heilbrigðisstarfsmanns.

Annað:

Einnig er probiotics notað til að fyrirbyggja kvefpestir hjá fullorðnum og börnum á leikskólaaldri svo og við meðhöndlun á þvagfærasýkingum og gegn magasársbakteríum (Helicobacter pylori) hjá fullorðunum.

Velviljaðar bakteríur tengjast einnig eftirfarandi heilsufarsþáttum 

* Bæta meltingu og bæla niður vöxt óæskilegra baktería.

* Vinna gegn krónískri hægðatregðu.

* Draga úr einkennum og bæta líðan þeirra sem þjást af heilkenni ristilertingar (irritable bowel

   syndrome, IBS) og hefur lactobacillus reynst vel en ekki aðrir probiotics. Einnig gegn   

   bólgusjúkdómum í meltingarvegi, til að mynd Crohn´s sjúkdómnum (garnabólgusjúkdómur) og  

   sáraristilbólgu (ulcerative colitis).  

   Lactobacillus, Bifidobacterium og strepotcoccus virðast gefa besta raun fyrir Crohn´s sjúklinga.

* Bæta þol gegn mjólkursykri fyrir þá sem þola hann illa.

* Rannsóknir hafa sýnt fram á gildi þess að neyta mjólkurafurða sem innihalda gerla af ættinni

   Lactobacillus eða Bifidobacterium og að þær geti stutt við náttúrulegt varnarkerfi líkamans. Dæmi

   um slíkar vörur eru skyr, jógúrt, súrmjólk, drykkjarmjólk og ostur.

* Draga úr hættu á frjókornaofnæmi.

* Notað gegn exsemi, húðvandamálum (unglingabólum) o.f.l.

* Lækka hátt kólesteról, samhliða hollu mataræði og bættum lífsháttum.

 

Leiðbeinandi dagskammtar af probiotics

Börn og ungabörn:
Leitið ráða hjá barnalækni vegna notkunar á fæðubótarefnum.

Fullorðnir:

Lesa vandlega á leiðbeiningar á umbúðum en nota eftirfarandi viðmið til hliðsjónar.

Notkun á probiotics fyrir barnshafandi konur og konur með barn á brjósti er mögulega örugg.          

Til að hindra og meðhöndla niðurgang: 1-2 billjónir CFUs (colony forming units) á dag.

Til að vinna gegn sveppasýkingum í leggöngum: Hægt er að nota sérstaka stíla en sumir ráðleggja samsvarandi notkun á venjulegum hylkjum sem er ekki ráðlagt samkvæmt læknisfræðinni. Hylkin eiga að fara í munninn. ALDREI skildi nota prebiotics í leggöng.

Til að viðhalda og efla heilbrigði meltingarvegarins hljóða ráðleggingar upp á 1-15 billjónir CFU á dag. Ef að tilgangurinn er að hindra niðurgang vegna sýklalyfjameðferðar þá er ráðlagt að taka  það 2-3 klst. eftir sýklalyfjatöku á degi hverjum.

Varnarorð

Þeir sem taka lyf þurfa að ráðfæra sig við sinn lækni varðandi inntöku á probiotics eins og á við um öll fæðubótarefni.


Ástæðan er sú að fæðubótarefni og probiotics geta mögulega haft áhrif á virkni lyfja, og dregið úr, hindrað og aukið áhrif lyfjanna. Til að mynda lyf sem draga úr virkni ónæmiskerfisins getur aukið hættu á sýkingum. Þeir sem taka inn lyfin sulfasalazine og 

Einnig ættu þeir sem undirgangast lyfjameðferð vegna krabbameins að kynna sér mjög vel hjá sínum lækni hvort að probiotics séu æskileg meðan á meðferð stendur. Einnig er talið að þeir sem eru með gervihjartaloku ættu ekki að nota probiotics vegna mögulegrar hættu á sýkingu.sýklalyf ættu undantekningarlaust að ráðfæra sig við sinn lækni varðandi notkun á probiotics samhliða lyfjunum.

Flestir ættu að geta tekið inn Lactobacillus acidophilus. Hins vegar gætu þeir sem taka inn 1-2 billjónir á dag fundið fyrir uppþembu og vindverjum auk niðurgangs. Því er meðalhófið best hér sem annarsstaðar.

Áhugavert er að skoða hvaða einkunn Lactobacillus fær hjá Natural Medicines Comprehensive Database þrátt fyrir að það sé óneitanlega ekki alger staðfesting á læknisfræðilegri gangsemi.

Líklega áhrifaríkt:

Meðferð gegn niðurgangi hjá börnum vegna rotavirus: + Bifidobacterium      

Komast líklega yfir einkennin um það bil hálfum degi fyrr en ell.

Meðferð: A.m.k. 10 billjónir CFU fyrstu 48 klst.


Mögulega áhrifaríkt:

Hindra niðurgang hjá börnum á sýklalyfjakúr: Lactobacillus GG

Hindra niðurgang hjá sjúklingum á sýklalyfjakúr: Lactobacillus casei, Lactobacillus bulgaricus, Streptococcus thermophilus

Vinna gegn niðurgangi á ferðalögum: Lactobacillus rhamnosus, Lactobacillus GG

Hindra niðurgang við krabbameinslyfjagjöf: Lactobacillus rhamnosus, Lactobacillus GG

Magakveisa í ungabörnum: Lactobacillus reuteri

Lungnasýkingar í 1-6 ára börnum: Lactobacillus GG, Lactobacillus acidophilus, Bifidobacterium

Sáraristilbólga (Colitis ulcerosa): Lactobacillus, Bifidobacterium, Streptococcus

Heilkenni ristilertingar (IBS): Bifidobacterium

Sveppasýking í leggöngum: Lactobacillus acidophilus, Lactobacillus gasseri, Lactobacillus rhamnosus

Hindra og meðhönda exem (atopic dermatitis): Lactobacillus reuteri

    Hjá börnum með mjólkurofnæmi: Bifidobacterium, Lactobacillus rhamnosus


Mögulega engin áhrif

Sveppasýking í leggöngum eftir sýklalyfjakúr: Lactobacillus

Chron´s sjúkdómur (garnabólgur)

Mjólkursykursóþol

Frekari rannsókna er þörf til að hægt sé að meta með óyggjandi hætti gildi notkunar á probiotics við eftirfarandi:

            Þvagfærasýkingar hjá konum

            Almenn meltingartengd vandamál

            Hátt kólesteról

            Mjólkursykursóþol

            Lyme sjúkdómurinn

            Hives

            Unglingabólur

            Krabbamein

            Stuðningur við ónæmiskerfið

            Hindra sýkingar hjá sjúklingum í öndunarvél

 

Að lokum:

Því miður þá standast ekki allar upplýsingar sem birtast á umbúðum fæðubótarefna um magn og innihald en það er nú svo oft þannig því miður. Einnig hafa fundist óvinveittar bakteríur í blöndunum sem áttu alls ekki að vera þar.

Varðandi matvæli sem innihalda probiotics þá væri jákvætt að á umbúðum þeirra standi viðmiðunargildi gerlamagns í 100 ml til að hægt sé að átta sig á heildarmagni þess sem tekið er inn daglega.

Eins og áður segir þá eru velviljuðu bakteríurnar hluti af heilbrigði líkamans og því geta þær ekki annað en verið til bóta. Hægt er að taka þær inn samhliða neyslu á mjólkurvörum til að mynda með skyri, jógúrt, AB-mjólk og osti, þar er skyrið að bætast nýtt í hópinn við þær hefðbundnu vörur sem áður þekktust.

Mjög jákvætt er að nú má velja úr fjölbreyttum flokki mjólkurvara sem uppfyllir kröfur og þarfir þeirra sem þola ekki mjólkursykurinn en vilja njóta allra kostanna sem mjólkurvörur geta veitt og haft mataræðið sitt tiltölulega fjölbreytilegt.

Greinarhöfundur: Friða Rún Þórðardóttir, Næringarráðgjafi B.S.c : Næringarfræðingur M.S.c : Íþróttanæringarfræðingur
 

Heimildir og ítarefni:
Coppa, Giovanni V; Bruni, Stefano; Morelli, Lorenzo; Soldi, Sara; Gabrielli, Orazio.

Probiotics, Prebiotics, and New Foods. The First Prebiotics in Humans: Human Milk

Oligosaccharides. Journal of Clinical Gastroenterology. July 2004, volume 38, issue pp S80-S83

Lactobacillus acidophilus. University of Maryland medical center.

Lactobacillus. Medline plus

Vilhjálmur Ari Arason. Góðu gæjarnir á móti þeim slæmu. Eyjan október 2010.

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2010/10/12/godu-gaejarnir-a-moti-theim-slaemu/

www.ms.is/Naering-og-heilsa/Markfaedi/LGG/

www.isapp.net  International Scientific Association for Probiotics and Prebiotics

www.naturaldatabase.therapeuticresearch.com