Fara í efni

Hollari valkostir

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og næringarráðgjafi, gerði nýlega samanburð á nokkrum tegundum af skyndibita hér á landi út frá upplýsingum um næringargildi og skammtastærðir.
Þetta eru hollari valkostir, það er ekki spurning
Þetta eru hollari valkostir, það er ekki spurning

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og næringarráðgjafi, gerði nýlega samanburð á nokkrum tegundum af skyndibita hér á landi út frá upplýsingum um næringargildi og skammtastærðir. Niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi töflu. Fljótt á litið virðast tveir staðir, sem báðir gefa sig út fyrir að vera hollari valkost á skyndibitamarkaði, standa sig verst. Athygli vekur að Sesar Naanwich-vefja frá Saffran inniheldur rúmlega 900 kaloríur og 70 grömm af fitu. Þá eru um 770 hitaeiningar í BBQ Burrito-vefju frá Serrano. Að sögn Fríðu Rúnar er málið hins vegar ekki svo einfalt.

Hollari valkostir

„Þetta eru hollari valkostir, það er ekki spurning,“ segir hún. „Að minnsta kostir þegar við horfum á hluta af hráefninu, það er grænmeti og tómatar, magurt kjúklingakjöt, fræ, baunir, jafnvel heilkorna vefja.“ Fríða Rún segir að þó svo að hitaeiningarnar séu ansi margar í réttunum frá Saffran og Serrano þá séu máltíðirnar bæði stærri og veglegri. Þær endast því lengur en til að mynda pylsa með öllu sem inniheldur 380 hitaeiningar. „Sjálfri finnst mér meira sláandi að sjá tölurnar fyrir pepperóníveisluna frá Domino's. Þetta eru ekki nema tvær sneiðar, sem jafnast á við að borða rúmlega eina brauðsneið með áleggi hvað magn í magann varðar. Fimm hundruð kaloríur og þú verður tiltölulega fljótt svangur aftur. Hlutfall fitu er einnig mjög hátt í pítsusneiðunum, eða 38 prósent, á meðan burrito-vefjan frá Serrano inniheldur fullt af grænmeti og góðum næringarefnum. Þá finnst mér einnig sláandi að sjá að ein pylsa með öllu innihaldi nærri því fjögur hundruð hitaeiningar. Yfir helmingur þeirra kemur úr fitu og þá inniheldur pylsan nánast engin næringarefni. Fólk verður ekki lengi satt af henni. Þess vegna er mikilvægt að horfa á þessa töflu í réttu samhengi.“


Minni skammtar

Sé sérstaklega rýnt í réttina sem innihalda flestar kaloríur, Sesar Naanwich-vefjuna hjá Saffran og BBQ Burrito-vefjuna frá Serrano, má spyrja sig hvort skammtarnir séu einfaldlega of stórir. Aðspurð hvort 916 kaloríur séu ekki heldur mikið fyrir eina máltíð, þar sem ráðlagður dagskammtur fyrir meðal manneskju sem ekki æfir íþróttir sé á bilinu 2.200–2.700, segir Fríða Rún: „Það er svolítið mikið fyrir einstakling sem hreyfir sig lítið sem ekkert en fyrir íþróttamann eða mann sem vinnur erfiðisvinnu þá er slík máltíð temmileg sem stærsta máltíð dagsins. Hins vegar má alveg skoða hvort minnka megi sósuna á Naanwich eitthvað aðeins. Þó er rétt að athuga að það er ekki mikið af mettaðri fitu í þeirri máltíð sem er mjög jákvætt.“

Meðvituð um skammtastærðir

Aðspurð hvort skammtarnir mættu vera minni segir Fríða Rún: „Þetta með skammtastærðirnar er alltaf erfitt að meta almennt. Skoða þarf orkuþörf hvers og eins út frá hreyfingu og hvar fólk er statt í lífinu. Ertu að hreyfa þig lítið sem ekkert eða ertu að hjóla eða ganga til og frá vinnu og jafnvel að æfa íþróttir eða hlaup? Ertu kannski ófrísk eða með barn á brjósti og jafnvel að hreyfa þig samhliða?“ spyr Fríða Rún. „Margir eru ekki alveg meðvitaðir um eðlilegar skammtastærðir og því þarft fólk að vera meðvitað á meðan það er að borða og gæta þess að hætta þegar nóg er komið. Ef fólk fer oft á sama skyndibitastaðinn er auðvelt að læra inn á skammtastærðir réttanna og velja sér eftir því sem best hentar hverju sinni. Margir kenna stærri skömmtum um vaxandi offitu en magnið sem við borðum og hvað við veljum stendur og fellur með okkur sjálfum.“

Fríða Rún segir mikilvægast að hafa nóg af grænmeti í máltíðinni. „Mig grunar að margt ungt fólk og margir sem borða á skyndibitastöðum fái jafnvel stærstan hluta þess grænmetis sem það borðar einmitt úr réttum eins og stórum samlokum, Burrito og sambærilegum máltíðum.“

Pylsan verst

Fríða Rún segir því alls ekki nóg að horfa eingöngu á fjölda kaloría. Einnig þurfi að taka mið af stærð máltíðar og þeim næringarefnum sem máltíðin inniheldur. Hún segir að í raun sé marktækast að reikna næringargildið út frá hundrað grömmum. Hins vegar hafi ekki verið aðgengilegar upplýsingar um næringargildi á hundrað grömm né þyngd hverrar máltíðar á vef KFC og Domino's. Þess vegna hafi verið ákveðið að reikna út næringarinnihald á hvern skammt sem grunnviðmið fyrir alla réttina, enda fái neytendur einn skammt í hendur en ekki hundrað grömm. Séu KFC og Domino's því undanskilin þessari könnun af framangreindum ástæðum, og næringargildi eftirstandandi rétta tekin saman út frá hundrað grömmum, kemur í ljós að pylsa með öllu kemur í raun verst út – en hundrað grömm af henni innihalda 257 kaloríur. Hundrað grömm af Sesar Naanwich frá Saffran innihalda 229 kaloríur, Fabrikkuborgarinn 191 kaloríu, BBQ Burrito frá Serrano 164 kaloríur. Subway-báturinn er með fæstar kaloríur, eða alls 109 kaloríur á hundrað grömm.

Framkvæmdin

Taflan er unnin út frá upplýsingum um næringargildi og skammtastærðir af vefsíðum skyndibitastaðanna. „Þetta var mismikil vinna fyrir hvern skyndibita fyrir sig,“ segir Fríða Rún. Sum fyrirtæki gefi upp nákvæmar upplýsingar um næringargildi hverrar máltíðar á vefsíðu sinni, til dæmis KFC, Subway og Saffran, á meðan önnur gefi upp næringargildi hvers skammts af hráefni, líkt og Serrano. Í tilviki pylsunnar var keypt pylsa með öllu, hvert hráefni vigtað jafnóðum og það var sett í brauðið og næringargildið síðan reiknað út frá upplýsingum af vef Matís.

Rétt er að taka fram að þeir réttir sem teknir eru með í þennan samanburð eru dæmi af matseðli hvers staðar og segja því ekki til um alla réttina á hverjum stað. Margir sleppa sósunni eða nota minna af henni, sumir sleppa brauðinu eða borða aðeins helminginn. Sama gildir um hrísgrjónin og þá sleppa því miður sumir grænmetinu. Töfluna má hins vegar nota til samanburðar og getur hver og einn borið sinn uppáhaldsskyndibita saman við hana svo fremi sem næringargildis upplýsingar og þyngd er gefið upp.

Áslaug Karen Jóhannsdóttir,  aslaug@dv.is

Til viðbótar má nefna:

Mikilvægi góðrar upplýsingagjafar

Það er mjög jákvætt þegar skyndibitastaðir birta næringartengdar upplýsingar um sínar vörur og sér í lagi þegar helstu ofnæmisvaldarnir eru einnig gefnir upp. Upplýsingar um magn af trefjum og salti eru birtar á sumum stöðum og er það gott þar sem margir fylgjast náið með mataræði sínu auk þess sem sumir þurfa að fylgjast með því hversu mikið salt þeir borða. Skyndibiti með unnu kjötáleggi, osti, brauði og sósu getur nefnilega verið mjög saltríkur.

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur, næringarráðgjafi