Fara í efni

Uppgjör bólusetninga barna á árinu 2013

Út er komin skýrsla um þátttöku barna í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2013.
Bólusetningar barna
Bólusetningar barna

Út er komin skýrsla um þátttöku barna í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2013.

Uppgjörið byggir á upplýsingum um bólusetningar sem skráðar hafa verið í miðlægan bólusetningagrunn sóttvarnalæknis. Þátttakan er reiknuð sem hlutfall bólusettra barna í tilteknum fæðingarárgangi af heildarfjölda barna í sama fæðingarárgangi eftir sóttvarnaumdæmum samkvæmt þjóðskrá.

Einungis börn sem búsett eru á Íslandi eru tekin með í útreikninga og eru þau ýmist með íslenskt eða erlent ríkisfang. Í uppgjörinu eru mismunandi fæðingarárgangar notaðir sem grundvöllur fyrir þátttökunni eftir því hvaða bólusetningu er um að ræða.

Eins og sjá má í skýrslunni er þátttaka í bólusetningum hér á landi um og yfir 90%, sem er ásættanlegt nema í bólusetningum við 12 mánaða aldur og við 4 ára aldur. Þar er hún undir væntingum líkt og fram kom í uppgjöri ársins 2012.

Á næstunni verða sendir nafnalistar til heilsugæslunnar yfir þá einstaklinga sem eru óbólusettir samkvæmt bólusetningagrunni. Þannig verður hægt að hafa upp á óbólusettum einstaklingum og bjóða þeim bólusetningu og einnig verður hægt að lagfæra vanskráningu í grunninum ef um slíkt er að ræða.

Mikilvægt er að þátttaka í bólusetningum sé almenn og eru foreldrar hvattir til að bregðast við og láta bólusetja börnin sín ef einhverjar bólusetningar vantar.

Í skýrslunni eru birtar þátttökutölur í almennum bólusetningum barna árið 2013 bæði á landsvísu og eftir sóttvarnaumdæmum.

Skoða skýrsluna: Þátttaka í almennum bólusetningum barna á Íslandi 2013. Uppgjör 2014 (PDF).

Sóttvarnalæknir