Fara í efni

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í samstarfi við Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og sveitarfélagið Múlaþing. Um er að ræða risa viðburð sem setur mark sitt á sumardagskrá fjölmargra fjölskyldna, framkvæmdar aðila og sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni.
Góð samvera og nýjir vinir
Góð samvera og nýjir vinir

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í samstarfi við UÍA og sveitarfélagið Múlaþing. Viðburðurinn er íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem ungt fólk 11 - 18 ára reynir með sér í um 20 íþróttagreinum en á einnig saman góðan tíma þar sem vinátta og vímulaus samvera er höfð að leiðarljósi.

Unglingalandsmót var fyrst haldið á Dalvík árið 1992 en næst var það svo haldið á Blönduósi 3 árum síðar. Frá árinu 2002 hafa mótin verið árlegur viðburður og staðsetningin verið vítt og breytt um landið. Mótin hafi vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Fyrir þá eldri sem mögulega tóku þátt í Landsmótum UMFÍ sem haldin voru frá árinu 1909 til 2013 þá er um sambærilega hugmyndafræði að ræða, þó með aðeins öðru sniði, sem ekki síst endurspeglast í breyttum tíðaranda og áherslum.

Á Unglingalandsmóti UMFÍ er leitað eftir því að bjóða upp á fjölbreyttar greinar þar sem þátttakendur eru hvattir til að prófa eitthvað nýtt – svo sem grein sem þau eru ekki að æfa.

Keppnisgreinar Unglingalandsmóts

Borðtennis – fimleikar – frisbígolf – frjálsar íþróttir – glíma – golf – grasblak – grashandbolti – hestaíþróttir – hjólreiðar – knattspyrna – krakkahreysti – kökuskreytingar – körfubolti – motocross – pílukast – rafíþróttir – skák – stafsetning – sund og upplestur.

Skráning

Nauðsynlegt er að skrá alla þátttakendur á mótið og það er gert í gegnum skráningarvef á á umfi.is. Þátttökugjald er 9.900 krónur. Í mörgum tilvikum styrkja íþróttahéruð viðkomandi (héraðssambönd og íþróttabandalög) þáttökuna og greiða sum þeirra helming gjaldsins. Athugið að allir eru velkomnir á Unglingalandsmót og er ekki nauðsynlegt að vera í íþróttafélagi.

Þátttakendur í liðagreinum á mótinu geta búið til sín eigin lið í skráningarkerfinu. Þátttakendur þurfa ekki að vera frá sama íþróttahéraði eða sama félagi heldur getur hver sem er sett saman sitt eigið lið og þá er nafn liðsins frjálst sem og búningarnir. Þeir þátttakendur sem ekki eru í liði eða í hópi sem ekki nær að mynda lið verður raðað í lið með öðrum þátttakendum. Ef þátttakanda vantar liðsfélaga er heppilegast að skrá með þessum hætti: „Án liðs". Þeir þátttakendur verða settir í lið með öðrum sem hafa gert það sama. Mörg ný vinasambönd hafa orðið til við slíka þátttöku.

Skráning er hér https://www.abler.io/shop/umfi/unglingalandsmot?country=IS en frestur til að skrá keppendur er 27. júlí.

Með skráningargjaldi fylgir aðgangur að tjaldstæði og allri afþreyingu (þar á meðal í sund). Aðeins þarf að greiða sérstaklega fyrir rafmagn. Töluvert hefur verið unnið með tjaldsvæði mótsgesta og sá kostur valinn að hafa tjaldsvæðið sem allra næst keppnissvæðunum. Tjaldsvæðin eru tvö, annað er á aðal tjaldsvæði bæjarins og hitt er mitt á milli flugvallarins og stóra tjaldsvæðisins. Þannig má draga úr bílaumferð og hvetja til hreyfingar og heilsusamlegs ferðamáta.

Mótið er annað en aðeins íþróttir

Alla daga mótsins verður boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna og því er ekki aðeins um að ræða keppni um gull, silfur og brons heldur að taka þátt í góðri hreyfingu, kynnast nýjum íþrótta- og tómstundagreinum en ekki síst að kynnast fólki frá öðrum stöðum á landinu sem oft byggir upp framtíðar vináttu og góðar minningar. Á kvöldin verða tónleikar í Bragganum við tjaldsvæði mótsins og fjör fyrir alla fjölskylduna. Undanteking verður á föstudagskvöldinu þegar setningarhátíðin fer fram á Vilhjálmsvelli kl. 20-21.

Dagskrá mótsins er afar fjölbreytt:

Skoða dagskrá mótsins

Tónleikadagskrá:

  • Fimmtudagur 31. júlí: DJ Hilmir Dagur Ólafsson og DJ Sigríður Svandís Hafþórsdóttir
  • Föstudagur 1. ágúst: Ína Berglind Guðmundsdóttir og Jóna Þyrí Snæbjörnsdóttir syngja á mótssetningu
  • Laugardagur 2. ágúst: DJ Ragga Hólm, Stebbi Jak og Hafþór og Júlí Heiðar og Dísa
  • Sunnudagur 3. ágúst: Magni Ásgeirsson, DJ Ernir Daði og VÆB

Allar upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ

https://www.umfi.is/vidburdir/unglingalandsmot/

eða senda fyrirspurn á umfi@umfi.is eða hringja 568-2929

Aðrir viðburðir UMFÍ

Landmót 50+, Drulluhlaup UMFÍ og Krónunnar https://www.umfi.is/vidburdir/ og síðast en ekki síst árleg haustráðstefna sem í ár ber heitið Ungt fólk og Lýðheilsa https://www.umfi.is/vidburdir/ungt-folk-og-lydheilsa/