Fara í efni

Sykur, sykurstuðull og sykurálag

Það eru margar ástæður fyrir því að íslenskar ráðleggingar hafa lagt upp með að borða sem minnst af sykri og að viðbættur sykur ætti ekki að vera meira en 10% af heildarhitaeininganeyslu hvers dags. Ein þessara ástæðna er bólgumyndandi áhrif sykraðra matvæla t.d. á hjarta- og æðakerfi og tengsl ofneyslu á sykri við áföll í hjarta- og æðakerfinu.
Sykur
Sykur

Af hverju ekki sykur?
Það eru margar ástæður fyrir því að íslenskar ráðleggingar hafa lagt upp með að borða sem minnst af sykri og að viðbættur sykur ætti ekki að vera meira en 10% af heildarhitaeininganeyslu hvers dags. Ein þessara ástæðna er bólgumyndandi áhrif sykraðra matvæla t.d. á hjarta- og æðakerfi og tengsl ofneyslu á sykri við áföll í hjarta- og æðakerfinu. Þegar mikið er neytt af sykri er sykurálag mikið á blóðið og insúlín streymir út í blóðið í meira magni en hlutverk insúlíns er einmitt m.a. að flytja sykur úr blóði til frumna til notkunar eða til geymslu (þá oftast sem fita). Niðurstöður allmargra rannsókna benda til þess að bólguvirkni og/eða -myndun sé meiri undir þessum kringumstæðum.

Sykurstuðull (GI; Glycemic Index)
Þegar rætt er um áhrif kolvetna á blóðsykur er oft talað um svokallað Glycemic Index (GI; sykurstuðull). Sykurstuðull mælir áhrif tiltekinnar fæðu á blóðsykur. Fæða með háan sykurstuðul veldur mikilli sveiflu í blóðsykri á meðan fæða með lágan sykurstuðul veldur minni og hægari sveiflum í blóðsykri. En sykurstuðull er ekki sérstaklega góður mælikvarði á máltíðir þar sem fleiri en eitt matvæli er vanalega neytt í hverri máltíð. Því getur máltíð verið heppileg út frá næringarfræðilegu sjónarhorni þó í henni sé matvæli með háum sykurstuðli ef aðrar vörur máltíðarinnar eru með lágan sykurstuðul (t.d. lítið unnin, lítið sykruð, trefjarík matvæli).

Sykurálag (GL; Glycemic Load)
Sykurálag máltíðar tengist sykurstuðli matvæla með beinum hætti en er mun betri mælikvarði á áhrif á blóðsykur og á viðbrögð insúlíns heldur en sykurstuðullinn einsamall. Það er vegna þess að sykurálag tekur tillit til allra matvæla sem í máltíðinni eru (matvæli í mismiklu magni og með mismunandi sykurstuðul) og áhrif þeirra í sameiningu á blóðsykur.

Sykurálag er þó ekki hinn eini sannleikur um áhrif máltíða á blóðsykur en hægt er að nota þennan mælikvarða til að fá hugmynd um áhrif þeirra á sykurinn í blóðinu okkar.

Margt á ennþá eftir að koma í ljós varðandi sykurálag og hvernig þessi mælikvarði er notaður en eitt er víst að hann gefur vísbendingar.

Vísbendingar um neikvæð áhrif sykurs á líkamsstarfssemi okkar hafa verið lengi til rannsóknar. Lýðheilsuráðleggingar Íslendinga hafa ætíð verið á þá leið að við ættum að lágmarka sykurneyslu og fá kolvetnin okkar úr lítið unnum matvælum og þar eru ávextir og grænmeti ofarlega á lista. Fæðuhringur Embætti landlæknis er einmitt á þá leið að mesta áherslu ætti að leggja á grænmeti og ávexti en óhætt er að borða úr öllum flokkum og ekkert er bannað.

Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net

Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.