Fara í efni

Tekin á hlaupum : Rannveig Oddsdóttir langhlaupari

Hún er langhlaupari, kennari og í doktorsnámi.
Rannveig Oddsdóttir
Rannveig Oddsdóttir

Nafn: Rannveig Oddsdóttir

Íþróttagrein og besti árangur:  Langhlaup, besti árangur 2:52:39 í maraþoni.

Þjálfari: Ég sjálf í samráði við Gísli Sigurðsson aðalþjálfara UFA og fleira gott fólk.

Nám/starf: Kennari, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Af hverju valdir þú þetta nám/starf? Vegna þess að mér finnst gaman að vinna með börnum og hef brennandi áhuga á skólamálum.

Áhugamál utan íþróttarinnar: útivist og handverk.

Hversu oft æfir þú á viku? 6-8 sinnum

Hver er lykillinn að góðum árangri? Samviskusemi, þrautseigja og að hafa gaman af æfingunum. Góðir æfingafélagar hafa líka gríðarlega hvetjandi áhrif.

Hvað er það lengsta sem þú hefur hlaupið?  Laugavegurinn ca 55 km.

Hvað hleypur þú hratt 3 km? Mishratt ;-) Í keppni á ég best 10:25. Á æfingum hleyp ég 3 km á 11–15 mínútum.

Hvernig er best fyrir nýliða að koma sér af stað í æfingum? Finna sér tíma og æfingafélaga, ákveða að byrja að æfa reglulega og standa við það J

Hvað ráðlegguru fólki sem vill hreyfa sig meira? Selja bílinn sinn.

Hvað eru algeng mistök hjá fólki við æfingar?  Að fara of geist af stað og/eða hlusta ekki á líkamann og ofgera sér, eyða of miklum tíma í lélegar og ómarkvissar æfingar sem litlu skila.

Ertu almennt meðvituð/ur um matarræðið?  Já, - en borða samt mest bara „venjulegan“ mat og er ekki á neinu sérfæði.

Hvað ráðlegguru fólki sem vill bæta matarræðið? Sleppa sætindum og skyndibita en borða fjölbreyttan mat og hlusta ekki á allar tískubylgjurnar um það hvað má borða og hvað ekki.

Hver eru erfiðistu meiðsli sem þú hefur orðið fyrir?  Hásinabólgur.

Hver eru heimskulegustu meiðslin sem þú hefur orðið fyrir? Að merjast á maganum því ég reimaði hlaupabuxurnar of fast.

Hvað gerir þú til að koma í veg fyrir meiðsli? Hef æfingarnar fjölbreyttar og geri styrktaræfingar.

Hvað gerir þú annað utan venjulegra æfinga til að ná árangri í greininni þinni? Ég er búin að vera meidd svo lengi að ég á orðið erfitt að greina á milli þess hvað eru „venjulegar æfingar“ og hvað er eitthvað annað ;-) Keppnisgreinin mín er hlaup, svo þungamiðjan í æfingunum eru hlaupaæfingar. Í viðbót við þær geri ég styrktaræfingar og í gegnum tíðina hef ég líka krossþjálfað svolítið, þ.e. synt og hjólað. Undanfarið ár hef ég lítið getað hlaupið vegna meiðsla en hef haldið mér við með því að hlaupa í vatni, synda, hjóla og gera styrktaræfingar. Núna er ég að komast af stað að hlaupa aftur, en reikna með að halda þessum nýju æfingum inni áfram, því ég finn að þær virka.

Hver er erfiðasti mótherjinn á ferlinum? Eigin hugsun, að hafa ekki nægilega sterka trú á sjálfri mér.

Hver er besti samherjinn? Hlaupafélagarnir sem hafa fylgt mér á æfingum í gegnum árin og stappað í mig stálinu þegar illa gengur.

Hver er fyrirmynd þín? Martha Ernstsdóttir

Hverjir eru styrktaraðilarnir þínir? Brooks gæða skór

Skemmtileg saga/uppákoma: Það getur verið snúið að koma saman vinnu, námi, stífum æfingum og fjölskyldulífi. Yfirleitt vil ég samt meina að mér takist það ágætlega og æfingaálagið bitni ekki á börnunum. Fyrir nokkrum árum fékk ég hins vegar svolitla bakþanka varðandi það. Ég var búin að æfa stíft fyrir Reykjavíkurmaraþon, sem ég svo hljóp og náði fínum árangri. Þegar ég kom norður aftur eftir nokkurra daga fjarveru og ætlaði að fara út að hlaupa upphófst hins vegar mikill harmasöngur hjá börnunum. Þau tvö eldri þá fjögra og sex ára grátbáðu mig að fara ekki út að hlaupa og sá yngsti þá tveggja ára greip hlaupafötin mín og faldi þau.

Önnur skemmtileg uppákoma var þegar dóttir mín kom heim úr leikskólanum alveg rasandi yfir því að strákarnir héldu því fram að strákar væru fljótari að hlaupa en stelpur. Mín kona hafði aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Við ræddum þetta og ég útskýrði fyrir henni að strákar væru jú líkamlega stærri og sterkari og gætu því oft hlaupið hraðar. –Tók hana svo með mér á sprettæfingu þar sem hún gat séð að þrátt fyrir þennan líffræðilega mun þá eru ekki allir karlar fljótari að hlaupa en allar konur ;-)