Fara í efni

Næring – skiptir hún máli?

Næring – skiptir hún máli?

Offita er samspil margra ólíkra þátta. Það verður sífellt erfiðara að gæta hófs í mat og drykk og stöðugur neysluáróður hefur vissulega áhrif á neyslumynstur og fæðuval fólks.

Fólk í ofþyngd hefur oft reynt ýmsar leiðir til að léttast og skyndilausnir hljóma freistandi. Reynslan sýnir hins vegar að skyndilausnir eru ekki vænlegar til varanlegs árangurs.

Þverfagleg vinna

Næringar­ og offituteymi Reykjalundar hefur sérhæft sig í meðferð fólks með alvarlega offitu. Í baráttunni við offitu hefur oft verið tekið á einungis einum þætti, þ.e. mataræðinu. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs þegar til lengri tíma er litið. Þverfagleg vinna teymisins miðar að því að taka á þeim mörgu þáttum sem sýnt hefur verið fram á að eru orsakavaldar.

Teymið leggur áherslu á að nálgast vandann frá mörgum hliðum. Varðandi mataræðið leggur teymið áherslu á að fylgja ráðleggingum Lýðheilsustöðvar, þar sem lögð er áhersla á hollt, gott og fjölbreytt mataræði. Rannsóknir hafa sýnt fram á að, hvenær við borðum, hvernig og með hvaða hugarfari gagnvart mat, hefur mikla þýðingu og er forsenda þess að ná varanlegum árangri með þyngdina.

Breyttar venjur

Mikilvægt er að skapa sér nýjar venjur, hefðir og breytta umgengni við mat, á því byggist okkar atferlismeðferð. Reglulegt máltíðar­mynstur er ein af forsendum þess að árangur náist. Skjólstæðingar okkar eru oft á tíðum að borða of sjaldan, sleppa morgunmat og borða alltof stóra skammta seinnipart dags. Ráðleggingar um fæðuval og matreiðslu eru mikilvægir þættir fyrir alla þá sem glíma við ofþyngd. Hreyfingarleysi er einnig stórt vandamál sem fjallað er um annars staðar í blaðinu.

Fastmótuðum venjum getur verið erfitt að breyta. Skjólstæðingar okkar þurfa því að vera tilbúnir til að breyta venjum sínum til betra lífs. Það að temja sér að borða morgunmat getur verið ein leið til árangurs.

Offita er oft talin „óreiðusjúkdómur“. Skjólstæðingurinn þarf að taka ábyrgð á vandanum og vera tilbúinn til að gera breytingar á sínu lífi.

Einn mikilvægasti þátturinn í baráttu fólks í ofþyngd er að það horfist í augu við vandann. Geri sér grein fyrir hvað það er í hugsun og hegðun sem veldur því að þyngdin er komin í óefni. Offita er oft talin „óreiðusjúkdómur“ sem snertir hin ýmsu svið daglegs lífs. Því þarf að huga að ýmsum öðrum þáttum eins og næringunni, matmálstímum, svefnvenjum, andlegri líðan og ýmsu fleiru. Þarna nýtist vel þverfaglegur styrkleiki næringar­ og offituteymis Reykjalundar til að meta og vinna með skipulag daglegs lífs. Mikilvæg viðurkenning á vandanum er sjálfsskoðun. Við sem fagaðilar veitum ráðleggingar og stuðning en umfram allt fer öll vinnan fram hjá skjólstæðingnum sjálfum. Hann þarf að taka ábyrgð og vera tilbúinn til að taka á vandanum og gera breytingar á sínu lífi.

Fjölbreytt fæði

Mjög algengt er að fólk í ofþyngd, borði einhæft og allt of orkuríkt fæði. Einnig eru ástæður eins og mikil gosdrykkjar­neysla, skyndibiti, sælgæti og snakk algengar ástæður fyrir alvarlegri ofþyngd. Huga þarf betur að næringarástandi fólks í ofþyngd. Iðulega greinist vannæring á meðal offeitra þrátt fyrir mikla þyngd. Skjólstæðingar okkar eru oft á tíðum vannærðir þrátt fyrir alvarlega offitu og huga þarf vel að því að bæta næringarástandið og fylgja því eftir.

Til að ná að fylgja ráðleggingum um æskilega samsetningu fæðunnar og ráðlagða dagskammta vítamína og steinefna þurfa flestir að borða meira af grænmeti og ávöxtum, grófu kornmeti trefjaríku brauði og fiski en þeir gera.Fjölbreytni í mat er mjög mikilvæg. Engin ein fæðutegund inniheldur öll nauðsynleg næringarefni í hæfilegum hlutföllum sem tryggir rétta samsetningu, næg vítamín og steinefni. Í næringarfræðslunni er lögð áhersla á gæði, ferskleika og fjölbreytni matarins. Næringarrík matvæli eins og grænmeti, ávextir, gróft kornmeti, baunir, fituminni mjólkurvörur, fiskur, magurt kjöt og lýsi ætti að vera í algjörum forgangi. Lögð er áhersla á að forðast unninn orkuríkan og næringarsnauðan mat.

Ekki boð og bönn

Næringar­ og offituteymið leggur mikla áherslu á að kúrahugsun verði ekki allsráðandi heldur kenndar heilbrigðar venjur sem endast allt lífið. Sýnt hefur verið fram á að boð og bönn eru frekar hamlandi og draga úr líkum á að einstaklingur í ofþyngd nái árangri. Við stöndum öll frammi fyrir fæðuvali alla daga vikunnar og er úr mörgu að velja. Freistingarnar eru margar. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að njóta matarins sem við borðum og kennd eru fræði sem tengjast svengdarvitund (appetite awareness). Við reynum eftir fremsta megni að koma þeirri hugsun inn að ekkert er bannað og að magn og tíðni er það sem skiptir mestu máli. Mikilvægt er að setja sér langtímamarkmið, taka mörg lítil skref og breyta smátt.

Eitt af því sem lengi hefur verið lögð áhersla á er umbúðalæsi og matreiðsla. Skjólstæðingarnir fara með starfsmanni teymisins út í verslun og skoðaðar eru mismunandi umbúðir og farið í gegnum æskilegt val. Þannig er færni fólks aukin verulega til að taka upplýsta ákvörðun um hvað skuli versla og matreiða. Í matreiðslunni er lögð áhersla á hollar og einfaldar uppskriftir og kenndar breytingar á almennum uppskriftum í hollari.

Teymið ráðleggur skráningu i matardagbók. Þannig fæst yfirsýn yfir hvar vandinn liggur.

Skjólstæðingar okkar eru oft á tíðum vannærðir þrátt fyrir alvarlega offitu.

Unnið var að gerð Næringarefnatöflu fyrir nokkrum árum, þar sem fram koma upplýsingar um orkuinnihald og hlutföll orkuefna í algengum matvælum. Töflunni er skipt upp í 14 fæðuflokka og ýmist eru útreikningarnir miðaðir við 100g af viðkomandi vöru eða ákveðinn skammt. Góð reynsla er af því að styðjast við slíka töflu og eru allir skjólstæðingar teymisins hvattir til að tileinka sér hana.

Enginn töfralausn

Eitt er víst að töfralausnin er ekki enn fundin þrátt fyrir fjöldann allan af gylliboðum á mark­aðnum sem lofa skjótfengnum árangri. Offita er alvarlegur sjúkdómur og snýst um flókið samspil margra þátta. Mikilvægt er að temja sér góða lífshætti og lífsgildi snemma á lífsleiðinni og þannig fyrirbyggja offituna. Baráttan verður ekki unnin án vitundarvakningar á meðal almennings og heilsugæslunnar. Framtíðin byggist á for­varnarstarfi. Til að svo geti orðið er mikilvægt að heilsugæslan komi af fullum þunga inn i það starf og er það von okkar að svo megi verða.

Birt með góðfúslegu leyfi SÍBS