Fara í efni

Joðskortur mælist í fyrsta sinn hér á landi vegna breytts mataræðis

Joðskortur er í fyrsta sinn farinn að mælast á Íslandi vegna breytts mataræðis. Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði segir að bregðast þurfi strax við enda geti mikill joðskortur valdið þroskaskerðingu í börnum.
Joðskortur mælist í fyrsta sinn hér á landi vegna breytts mataræðis

Joðskortur er í fyrsta sinn farinn að mælast á Íslandi vegna breytts mataræðis. Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði segir að bregðast þurfi strax við enda geti mikill joðskortur valdið þroskaskerðingu í börnum. 

 

Joð er næringarefni og skortur á því hefur helst áhrif á skjaldkirtilsvirkni. Helstu einkennin eru þreyta, aukin þyngd og aukin næmni fyrir kulda, svo fátt eitt sé nefnt. Joðskortur hefur lengi verið vandamál í nágrannaríkjum en aldrei mælst á Íslandi.

Í nýrri rannsókn Sólveigar Aðalsteinsdóttur sást hins vegar mælanlegur skortur. „Þessi nýja rannsókn sýnir að við erum bara ekki með góðan joðhag lengur. Það er fyrst og fremst vegna þess að bæði neysla á mjólkurvörum hefur dregist verulega saman og eins líka sjáum við minni fiskneyslu,“ segir Ingibjörg.

Mataræði Íslendinga er að breytast mikið á stuttum tíma en fyrir tíu árum mældist enginn joðskortur. Í rannsókn Sólveigar voru konur spurðar hvort að þær forðuðust mjólk eða fisk. „Sumar voru að gera það vegna þess að það er ofnæmi eða óþol til staðar og það er algjörlega eðlilegt og nauðsynlegt að gera það. En við sjáum að þessi hópur er lægri heldur en hinar sem nota mjólk samkvæmt ráðleggingum þannig það er alveg klárt að það þarf að gera eitthvað fyrir þennan hóp. Það eru því miður ekki margar uppsprettur þannig að meðan að er verið að ákveða hvernig við bregðumst við þessu sem þjóð þá myndi maður vilja mæla með bætiefnum, sérstaklega fyrir konum á barnsburðaraldri og konum sem eru óléttar að nota 150 míkrógrömm af joði ef það getur ekki notað fisk og mjólk samkvæmt ráðleggingum,“ segir Ingibjörg.

Nágrannaríki hafa mörg hver leyst þetta með því að joðbæta salt og í Danmörku er til dæmis skylt að joðbæta brauð. Ingibjörg segist ekki fullviss um að það sé rétta leiðin hér á landi. Nauðsynlegt sé þó að bregðast við strax. Gera þurfi nýjar fæðuráðleggingar frá Landlækni og mælingar á fæðu.  

Ingibjörg segir joðskortur geti verið mjög alvarlegur. Konur sem eru óléttar eru í sérstökum áhættuhópi. „Mjög alvarlegur joðskortur kemur fram í verulegri þroskaskerðingu og það er ekki það sem við erum að horfa á hér. Við erum að tala um mildari joðskort en vegna þessara niðurstaðna sem við sjáum utan úr heimi að það geti haft áhrif á að barnið nái ekki að læra eins hratt eða eins vel, af því við erum að tala um þroska, og þess vegna verðum við að bregðast við sem þjóð.“

Grein fengin af vef ruv.is

Almennur fróðleikur um joð

Joð er steinefni sem binst hormónum skjaldkirtilsins. Vítamín og sameindir eru settar saman úr frumeindum sem bindast hver annarri en joð er frumefni, þ.e. ein frumeind. Þörfin fyrir joð er afskaplega lítil og því flokkast það sem snefilefni og sá flokkur ásamt vítamínunum telst til örnæringarefna.

Joð er mikilvægt efni í hormónum skjaldkirtilsins (T3 og T4). Skjaldkirtillinn er í barkanum. Joðskortur getur valdið stækkun skjaldkirtilsins.

Joð er helst að finna í fiski og skelfiski.

Of mikið af joði getur verið hættulegt þunguðum konum og þeim sem hafa barn á brjósti.

Hvernig nýtir líkaminn joð?

Joð á, sem hluti af hormónum skjaldkirtilsins, þátt í að stýra efnaskiptum líkamans, þ.e.a.s. lífefnafræðilegri virkni sem myndar orku og ný efnasambönd sem viðhalda frumum og vefjum líkamans.

Hormónar eru mikilvægir við endurnýjun á frumum og vefjum líkamans.

Hvaða matur inniheldur joð?

Þær matvörur sem innihalda mest af joði eru:

  • fiskur og skelfiskur
  • mjólk
  • egg
  • grænmeti.

Fiskur úr sjó og skelfiskur er mjög joðríkur. Joð í mat rýrnar við upphitun Það minnkar um fimmtung við glóðarsteikingu og steikingu. Joðinnihaldið minnkar um 60% þegar maturinn er soðinn.

Hvað má taka mikið af joði?

Ráðlagður skammtur fyrir fullorðna er um það bil 150 míkróg joð á dag.

Hverjum er hættast við joðskorti?

Góð efnaskipti eru öllum nauðsynlegt en það skiptir mestu máli fyrir börnin að efnaskiptin gangi vel, því þau þurfa orku og vaxtarefni fyrir líkamlegan og andlegan þroska.

Roskið fólk getur þurft að bæta sér upp joðskort sem stafar af minni matarlyst og þar með minni joðneyslu.

Hvernig lýsir joðskortur sér?

Ein afleiðing joðskorts er skjaldkirtilsbólga.

Einkenni hennar eru þessi:

  • aukin þyngd
  • þreyta
  • kulvísi.

Börn sem fá skjaldkirtilsbólgu geta orðið þroskaheft og dvergvaxin.

Í mörgum löndum er joði bætt í borðsalt.

Hvernig er ráðin bót á joðskorti?

Einkenni joðskorts hverfa af sjálfu sér þegar joðneysla er aukin.

En því má ekki gleyma að það geta verið aðrar ástæður fyrir skjaldkirtilsbólgu og því best að ræða við heimilislækninn ef grunur er um skjaldkirtilsbólgu.

Hvernig lýsir of mikið joð sér?

Of stór skammtur af joði getur hindrað hormónamyndun í skjaldkirtlinum.

Einkennin geta því verið þau sömu og fylgja joðskorti.

Er eitthvað sem þarf að varast (þungun, of stór skammtur og aukaverkanir)?

Þungaðar konur og þær sem hafa barn á brjósti verða að sýna sérstaka aðgát því of mikið af joði getur minnkað virkni skjaldkirtilsins í barninu.

Grein af vef doktor.is