Fara í efni

Íþróttir og samvera er lykillinn - ULM 2025

Nú er innan við vika til stefnu fyrir þá sem eiga eftir að skrá sig á Unglingalandsmót UMFÍ um Verslunnarmannahelgina en loka dagur skráninga er 27.7. Heilsutorg tók stutt viðtal við Silju Úlfarsdóttur sem starfar sem annar verkefnisstjóri ULM og spurðum hana út í ULM og hvers vegna sem flestir ættu að leggja leið sína til Egilsstaða.
Silja Úlfarsdóttir, verkefnisstjóri ULM2025
Silja Úlfarsdóttir, verkefnisstjóri ULM2025

*Af hverju tókstu að þér að vera verkefnisstjóri yfir ULM2025 og hefur þú sjálf einhverja tengingu við mótið?

Ég hef komið að mörgum stórum og fjölbreyttum viðburðum á síðustu árum, en ég mætti á mitt fyrsta Unglinglandsmót árið 2023 og tók að mér verkefnastjórnun 2024. Mér finnst alltaf gaman að kynnast viðburðum og sjá vinnuna bak við tjöldin. Við sem mætum bara, skiljum ekki öll smáatriðin sem þurfa að smella saman til að svona flottir og stórir viðburðir eins og Unglinglandsmótið gangi upp.

 

*Af hverju ættu fjölskyldur að leggja leið sína til Egilsstaða um Verslunarmannahelgina til að taka þátt í ULM2025?

Á ULM er dagskrá fyrir alla fjölskylduna og það er svo gaman að fylgjast með krökkunum/unglingunum að takast á við skemmtilegar áskoranir. Svo er líka alltaf gott veður á Austurlandi!

Það er engum að fara að leiðast á Egilsstöðum þessa helgi, þar eru að fara að verða til fullt af skemmtilegum minningum.

*Hvað er svona einstakt við Unglingalandsmót og hugmyndafræðina á bak við viðburðinn?

Þar eru margar og fjölbreyttar keppnisgreinar í boði, sumar einstaklings og aðrar liðsgreinar og ef þú ert ekki með tilbúið lið þá komum við þér i lið - hafðu ekki áhyggjur af því. Þetta er holl fjölskylduskemmtun, og núna verður einnig eitthvað að gera fyrir okkur foreldrana, þá eru einnig skemmtistöðvar fyrir þau yngstu.

Á kvöldin er einnig skemmtun sem hentar öllum og þetta er vímuefnalaus hátíð. Skulum ekki gleyma að íþróttir og hreyfing er besta forvörnin - við fáum reglulega fréttir af krökkum sem hafa prófað nýjar greinar og endað á að byrja að æfa þær eftir landsmótið, það er alvöru “success”.


*Eru einhverjar nýjungar á ULM2025?

Greinar eru oft breytilegar eftir staðsetningu mótsins og núna verður krakkahreysti í boði á Crossfitstöðinni Austur, þá eru rafíþróttir, motocross og fimleikar einnig með í ár.

Svo fáum við kynningu á Hobby horse og það hefur verið fjölgað í grasblak liðum svo nú eru 4 inná.

 

*Hvar verður næsta ULM haldið eða er það enn leyndarmál?

Sagan segir að við séum á leið á Sauðárkrók

 

*Annað áhugavert sem þú vilt koma á framfæri?

Það sem við fjölskyldan lærðum af fyrsta ULMmótinu okkar var að skrá í of lítið, ég hvet öll til að prófa nýjar greinar og hafa gaman af. Hægt er að skoða dags- og tímasetningar og plana helgina út frá því. Það er mikilvægt að börn og unglingar æfi sem flestar íþróttir sem lengst og hver veit að þarna kynnist þið einhverjum leyndum hæfileikum…


Íþróttir og samvera er lykillinn.