Esjan 2025

Þann 26. júlí næstkomandi verða Riddarar kærleikans á Esjunni í heilan sólarhring til að heiðra minningu Bryndísar Klöru. Viðburðurinn hefst kl. 12 á miðnætti föstudag-laugardag 26. júlí.
Markmið Riddara kærleikans er að fá sem flesta með sér á Esjuna þennan sólarhring til að mála fjallið bleikt, bleikt fyrir kærleikann, bleikt gegn ofbeldi, bleikt fyrir minningu Bryndísar Klöru en bleikt var hennar litur.
Hver og einn getur valið tíma eða vegalengd; 30 mínútur, eina ferð, tvær ferðir, eða bara allan tímann sem verkefnið stendur yfir. Því fleiri sem taka þátt, því öflugra verður ljósið sem sent verður út og skilaboðin gegn ofbeldi verða sterkari – enn sterkari.
Markmiðið er að safna fé í Minningarsjóð Bryndísar Klöru, sem styrkir ungt fólk og stendur gegn ofbeldi.
Við getum öll snúið sorg í hreyfingu. Í hlaup. Í göngu. Í von.
Heilsutorg tók stutt viðtal við Sigrúnu B. Magnúsdóttur, forsvarskonu Esjunnar 2025 og spurðum hana nokkurra spurninga um verkefnið og tilurð þess.
Hvernig kviknaði þessi fallega hugmynd um að flétta saman hreyfingu á Esjunni og vitundarvakningu um kærleika til minningar um Bryndísi Klöru?
- Þessi hugmynd datt í fangið á mér í Ikea í byrjun júlí. En ég hef tvisvar áður verið með söfnun á Esjunni fyrir Ljósið sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Fyrr á þessu ári horfði ég á foreldra elsku Bryndísar Klöru í sjónvarpinu og bara hágrét allan tímann og hugsaði eftir þáttinn að mig langaði til að gera eitthvað til að heiðra minningu hennar. Svo bara skreppur maður í Ikea og allt smellur saman og núna er þetta bara að verða einn stærsti viðburður sem ég hef haldið á Esjunni.
Hverjir eru Riddarar kærleikans og hafa þeir staðið fyrir öðrum álíka viðburðum?
- Riddarar kærleikans er hreyfing fólks sem heiðrar minningu Bryndísar Klöru með því að virkja kærleikann í samfélaginu, minnka ofbeldi og bæta líðan með opnu samtali og raunverulegum aðgerðum, óháð aldri, uppruna eða bakgrunni. Við getum öll tekið þátt í hreyfingunni með því að hlúa að fólkinu í kringum okkur, sýna umhyggju og taka utan um hvert annað.
Er hægt að snúa sorg í hreyfingu – getur hreyfing hjálpað fólki í sorg ?
- Ójá, það er svo sannarlega hægt. Það er eitthvað sem er svo erfitt að útskýra hvað gerist þegar þú ert úti í náttúrunni og þeir sem hafa upplifað þessa tilfinningu vita hvað ég er að meina. Ég sjálf missti mömmu mína árið 2007 úr krabbameini og nokkrum vikum síðar var ég farin að skokka um hverfið mitt 3-4 km sem urðu síðan alltaf fleiri og fleiri eftir því sem árin liðu og núna í október í fyrra lauk ég 166km fjallahlaupi í Frakklandi með vel yfir 8000m hækkun. Svo hef ég verið með á minni Facebook síðu Esjan 2025 að bjóða fólki með mér á Esjuna einu sinni í mánuði. Þetta er verkefni sem ég er þá að bjóða því fólki sem langar að kynnast Esjunni en þekkja ekki fjallið og þá sérstaklega þeim sem langar en þora ekki ein og þurfa þá félagsskapinn og það hefur aldeilis sannað sig því nú þegar hafa margir mætt sem hafa aldrei farið á Esjuna áður eða aldrei farið í sumar ferðir sem við höfum farið saman á fjallið. Fæ einnig stundum á fjallinu líka þakkir frá fólki sem þakkar mér fyrir þetta verkefni sem hefur meira að segja ekki mætt í sjálfan viðburðinn heldur bara lagt af stað á Esjuna útaf mér eða þessari síðu á Facebook. Ég hef eins og flestir mínir vinir vita verið vel með báða fæturna á Esjunni í ár og er að detta bráðum í 200 ferðir og vonandi næ ég markmiðinu mína að fara 365 ferðir á Esjuna á þessu ári.
Hvernig getur fólk og fyrirtæki stutt við verkefnið og geta allir tekið þátt ?
- Bara að vera í sambandi við mig og svo eru allar helstu upplýsingar inn á https://riddararkaerleikans.is varðandi styrki ofl. Svo er hægt að styrkja með t.d. sölu á bleikum varningi sem allavega eitt fyrirtæki stefnir á að gera og svo er bara hægt að styrkja með x upphæð inn á Minningarsjóð Bryndísar Klöru. Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður til að heiðra og varðveita minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður í september 2024. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu og styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
- Eitt af aðalverkefnum sjóðsins eru kaup á griðastað fyrir ungt fólk sem mun hljóta nafnið Bryndísarhlíð og verður í framhaldinu haldið úti af íslenska ríkinu.
Allir geta tekið þátt´i Esjan 2025, það þarf ekki endilega að fara alla leið upp en það er líka bara nóg að mæta í bleiku á Esjuna þennan sólarhring. Mitt markmið er að senda skært ljós á ungmennin okkar og vonandi fá einhverjir áhugann á að ganga á fjöll.
Heilsutorg þakkar Sigrúnu innilega fyrir að standa að verkefninu og sýna íslenskum ungmennum og íslensku samfélagi slíkan hlýhug.
- Sjáumst á Esjunni 26. júlí