Fara í efni

Aukin neysla á sykurlausum drykkjum

Neysla sykurlausra gosdrykkja hefur aukist jafnt og þétt milli ára. Á síðasta ári drukku 17% fullorðinna sykurlausa gosdrykki daglega eða oftar en voru 12,5% árið 2019.
Aukin neysla á sykurlausum drykkjum

 

 

 

 

 

 

 

Neysla sykurlausra gosdrykkja hefur aukist jafnt og þétt milli ára. Á
síðasta ári drukku 17% fullorðinna sykurlausa gosdrykki daglega eða
oftar en voru 12,5% árið 2019.
Þetta kemur fram í könnunum sem Gallup hefur unnið fyrir embætti
landlæknis á líðan Íslendinga og áhrifaþáttum á heilbrigði þeirra. Frá
niðurstöðunum var greint í Talnabrunni landlæknis í vikunni, þar sem
farið er yfir mataræði Íslendinga á síðasta ári og niðurstöður bornar
saman við fyrri kannanir árin 2019 og 2020.
Í könnun Gallup nú reyndist ekki munur á neyslu sykurlausra gosdrykkja
milli karla og kvenna. Voru það helst tveir yngri aldurshópar
fullorðinna sem drukku sykurlausa gosdrykki; 18-34 ára og 35-54 ára.
Dagleg neysla ávaxta og grænmetis breyttist lítið milli áranna 2020 og
2021. Að mati landlæknisembættisins er neyslan enn talin of lítil.
Tæplega helmingur fullorðinna borðaði ávexti daglega (46%) í fyrra og
nærri sex af hverjum tíu (58%) borðuðu grænmeti daglega. Þeir hópar
sem borðuðu minnst af ávöxtum eru yngsti aldurshópurinn (18-34 ára) og
miðjuhópurinn (35-54 ára) og þeir sem í könnun Gallup segjast eiga
erfitt með að ná endum saman í hverjum mánuði.
Elsti aldurshópur kvenna stendur sig hins vegar best í ávaxtaneyslunni
en 57% kvenna borðuðu ávexti daglega á síðasta ári. Þegar spurt var út
í neyslu á grænmeti borðuðu hlutfallslega fleiri konur þá fæðu en
karlar, eða 63% kvenna og 53% karla. Á það við um alla aldurshópa,
segir í Talnabrunni landlæknis. Þó standa yngri karlar sig betur í
grænmetinu en þeir eldri.

Fleiri mættu taka D-vítamín
Um 10% fullorðinna drakk sykraða gosdrykki daglega eða oftar á síðasta
ári og rúm 7% drukku orkudrykki daglega eða oftar. Ekki reyndist munur
á milli ára á hlutfalli þeirra sem drukku sykraða gosdrykki daglega en
aukning er hins vegar á neyslu orkudrykkja milli ára.
Gallup kannaði einnig fyrir landlækni neyslu á D-vítamíni. Í ljós kom
að sex af hverjum tíu Íslendingum tóku D-vítamín reglulega, sem er
nokkur aukning frá árinu 2020. Varð aukningin meiri hjá körlum en
konum. Um 57% karla tóku vítamínið en hlutfallið hafði verið 50% árið
2020.
Embætti landlæknis telur engu að síður áhyggjuefni að fleiri landsmenn
taki ekki D-vítamín reglulega. Snúa þær áhyggjur einkum að yngstu
aldurshópum karla og kvenna.

Mataræði Íslendinga
Gallup hefur undanfarin ár gert kannanir fyrir embætti landlæknis á
heilbrigði og mataræði Íslendinga.
Árið 2019 og æ síðan hafa bæst við svör úr sveitarfélagakönnun
Gallup, sem stækkaði úrtakið í nærri 11 þúsund manns.
Gallup hefur um leið skoðað mataræði þeirra sem eiga við
fjárhagsvanda að stríða. Í þeim hópi er minni neysla á grænmeti og
ávöxtum en hjá þeim sem standa betur fjárhagslega.

Heimild:

Sviðsljós
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is