Fara í efni

Að leika á flensuna

Nú fer hinn óþolandi tími flensunnar að ganga í garð. Þessi óværa herjar alltaf á landann yfir vetrarmánuðina og þykir leggjast sérlega þungt á karlmenn, enda oft kölluð „manflu“. Læknar eru ekki ónæmir fyrir þessu ógeði og sjálfur hef ég alla tíð verið ákaflega viðkvæmur fyrir þessum vágesti og lagst reglulega, svo fársjúkur að ég hef mig varla getað hreyft í fimm til tíu daga.
Candy Crush er stafrænt flensulyf.
Candy Crush er stafrænt flensulyf.

Ég hef í gegnum árin reynt allt til þess að sleppa við pestina. Ég hef raðað í mig stafrófinu af vítamínum, frá B til E. Í byrjun október byrja ég alltaf að sjóða engiferrót með sítrónusneið og kanilstönglum og sulla seyðinu í mig daglega. Fyrir utan auðvitað að ég læt bólusetja mig fyrir óþverranum.

Þetta hefur aldrei komið í veg fyrir að ég veikist. Það er að segja þangað til fyrir tveimur árum. Þá fékk ég ekki flensuna og ekki heldur í fyrra. Það eina sem breyttist í fari mínu og tilraunum til að sporna við pestinni á þessum tíma er að ég féll fyrir símaleiknum Candy Crush og hef spilað hann af ákafa í á þriðja ár. Ég hef því komið með þá kenningu að með því að spila ekki færri en fimm borð í þessum leik á dag geti maður snúið á flensuna.

Ég hef auðvitað haldið áfram að gera allt þetta venjulega en með því sem ég myndi kalla áralangri samanburðartilraun á sjálfum mér tel ég mig hafa komist að því að tölvuleikurinn sé töfraráðið. Líklega hefur spilunin þau áhrif á heilann og taugakefið að þetta er allt nánast stöðugt í fullri keyrslu og líkaminn því frekar á varðbergi fyrir utanaðkomandi ógnum.

Út frá þessu hef ég þróað aðra kenningu þess efnis að alzheimers-sjúkdómurinn muni vart fyrirfinnast hjá snjallsímakynslóðinni þegar hún fer að eldast.Öll þessi leikjanotkun hefur nefnilega að mínu mati þau áhrif að það sé eins og heilinn sé í boot camp-æfigum alla daga og muni því haldast brakandi ferskur og vakandi lengur en hjá þeim sem eru eldri og ólust ekki upp við tölvuspil.

Ég skrifa því hiklaust upp á fimm Candy Crush-borð á dag yfir vetrarmánuðina fyrir þá sem vilja losna við að leggjast í pest. Í það minnsta einn leikur á dag, alla ævi, gæti svo komið í veg fyrir kölkun og elliglöp. Þetta er tilraun sem er vel þess virði að gera.