Fara í efni

VIÐTALIÐ – Við spurðum Freyju Haraldsdóttur hvað er Tabú? Kíktu á mjög svo gott viðtal við alveg magnaða konu

Veist þú hvað Tabú er ? Hér er ofsalega flott viðtal við magnaða konu, hana Freyju Haraldsdóttur.
Ljósmynd: Árni Freyr Haraldsson
Ljósmynd: Árni Freyr Haraldsson

Veist þú hvað Tabú er ?

Hér er ofsalega flott viðtal við magnaða konu, hana Freyju Haraldsdóttur.

 

Fullt nafn: 

Freyja Haraldsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ert þú?

Ég fæddist í Reykjavík 27. júní 1986 og ólst að mestu upp í Garðabæ þar sem ég bý enn, þó með viðkomu á Seltjarnarnesi, Breiðholti og í Nelson á Nýja Sjálandi. Ég er elst þriggja systkina, á tvo yngri bræður, og frábært eintak af foreldrum. Svo eigum við labrador tíkina Nölu. Ég myndi segja að ég sé svolítið öfugsnúin karakter, ég er mjög opin og ófeimin en á sama tíma meðvituð um sjálfa mig og get verið óörugg, ég er mjög háð nærveru annars fólks en fæ líka leið á samskiptum, ég er afar heimakær en get samt ekki verið heima lengi í einu, ég get verið jafn þolinmóð og ég er óþolinmóð, ég get oft verið frökk en á sama tíma viðkvæm, er snöggpirruð auðveldlega en fljót að gleyma, held fyrirlestra fyrir jafnvel mörghundruð manns en er hrædd við að hringja og panta pizzu og er mikil prinsipp manneskja en elska að brjóta óskráðar reglur og búa til mínar eigin þegar mér sýnist svo.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég lauk BA prófi í þroskaþjálfafræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og viðbótardiplómu í hagnýtri jafnréttisfræði 2014 frá sama skóla. Ég er nú í meistaranámi í kynjafrræði sem ég hyggst ljúka á árinu og vinn því að meistararannsókn um sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun fyrir fatlaðar konur. Ég starfa nú sem talskona Tabú ásamt Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, sem er feminísk fötlunarhreyfing, og í því felst aktivismi, námskeiðshald, fræðsla, ráðgjöf og alls konar mannréttindapönk með fötluðum konum. Ég hef sjaldan verið í eins skemmtilegu og orkugefandi starfi. Ég er þar að auki talsvert að kenna við Háskóla Íslands og svo er ég varaþingkona suðvesturkjördæmis í Bjartri framtíð sem þýðir að einstaka sinnum leysi ég af þingmanninn flokksbróður minn, Guðmund Steingrímsson. 

Hver eru þín helstu áhugamál og hvað gerir þú í tómstundum ?

Það verður nú að viðurkennast að síðustu ár hefur aktivisminn átt hug minn allan, í bland við háskólanám og pólitík, og hefur það þýtt að ekki er mikill tími aflögu fyrir áhugamál og tómstundir. Ég hef þó verið að reyna að bæta úr þessu með ekki sérlega góðum árangri. Frítími minn er þó líklega ein besta birtingarmynd þess hve mótsagnakenndur persónuleiki minn getur verið því ég er bæði mikil félagsvera en á sama tíma einfari. Mér finnst dásamlegt að eyða tíma með fjölskyldu og vinum, jafnt börnum sem fullorðnum, en einnig að vera ein með sjálfri mér. Ég fúnkera illa án beggja. Með fjölskyldu og vinum finnst mér samveran, nærveran og samtölin mikilvægust en ekki endilega hvar við erum eða hvað við erum að gera. Þegar ég er ein finnst mér gott að verja tímanum í lestur og skrif. Ég hlusta einnig mikið á tónlist þegar ég er ein og finnst gott að fara út í náttúruna, þó ég geri það alltof sjaldan.

Hvað gerir þú til að viðhalda góðri andlegri og líkamegri heilsu?

Þessir þættir hafa verið talsvert vanræktir síðustu árin en núns er ég að setja meiri fókus á að auka andlega og líkamlega vellíðan. Fyrir mér er það mikilvægasta í því að þykja vænt um líkama minn og persónu sem getur reynst krefjandi í útlitsdýrkandi ófötluðu samfélagi. Ég reyni að halda hlutunum einföldum og hugsa fyrst og fremst um að ná nægum svefni, gleyma ekki máltíðum, drekka nóg og gera hluti sem gefa mér andlega og líkamlega næringu. Það getur verið að fara í sund, vera í kringum fólk sem lætur mér líða vel (ekki síst fólk sem upplifir líka hversdagslegt misrétti), fara í göngutúr, lesa bók eftir manneskju sem gefur mér innblástur, vera ein o.fl. Ég hef líka verið að vinna með að óttast ekki erfiðar tilfinningar né skammast mín fyrir þær – þannig næ ég sem best að fá útrás og hlúa sem best að sjálfri mér. Börn hafa líka alltaf haft mjög heilandi áhrif á mig og fæ ég sjaldan jafnmikla hvíld eins og þegar ég ver tíma með börnum.

Hver var kveikjan að stofnun vefsíðunnar Tabú og hvað er Tabú?

Misrétti, félagasamtakavesen og karlremba. Við Embla höfðum verið talsvert lengi í aktivisma. Þar horfum við upp á mikið misrétti í lífi fatlaðs fólks, einkum kvenna, ásamt því að upplifa það sjálfar. Mikill tími fór oft í að þjóna úreltum lögum um félagasamtök sem gerði aktivisman þungan í vöfum og flókinn, ekki síst vegna þess að við erum fá og megum hvorki tíma né orku missa. Þar að auki upplifum við sem ungar fatlaðar konur að við erum ekki teknar alvarlega, erum ávarpaðar sem „stelpurnar“ og er ekki treyst á sama tíma og við eigum að redda öllu af því að karlar, fatlaðir og ófatlaðir, sjá sér ekki fært um að gera það. Á þessu voru að sjálfsögðu mikilvægar undantekningar en þó var þetta ríkjandi stemning sem var, svo ég tali fyrir mig, að eyðileggja mig. Okkur fannst tímabært að koma af stað óformlegum vettvangi þar sem fatlaðar konur fá rými, persónulega og pólitískt, til þess að upplifa sig öruggar, velkomnar og velmetnar. Einnig rými sem gefur okkur kost á að spegla okkur hvor í annarri, deila reynslu okkar, valdeflast saman og í sundur, vera reiðar, leiðar og glaðar, og þannig stuðla að litlum og stórum byltingum. Viðtökurnar frá fyrsta degi voru ótrúlegar sem við teljum sýna þörfina fyrir Tabú.

Nú ert þú bundin við hjólastól en ert svo ofsalega virk í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur, hvar finnur þú orkuna til að klára öll dagleg verkefni ?

Ég hef aldrei verið bundin við hjólastól frekar en nein önnur manneskja en ég nota hjólastól og er háð honum alfarið til þess að komast um. Sú staðreynd gerir mig sjaldan þreytta, þvert á móti, enda er hjólastóllinn tákn og verkfæri frelsis, hreyfanleika, upplifana og tækifæra í mínum huga. Það sem gerir mig þreytta er skortur á aðgengi, niðurlægjandi viðhorf og markaleysi ófatlaðs fólks í garð líkama míns, stimplun sem afgreiðir mig sem hetju fyrir að kaupa mjólk í búðinni, fórnarlamb fyrir að vera með brothætt bein, kynlausa, ófæra um að eiga, elska og annast börn, byrði á samfélaginu og fólkinu í kringum mig og sem afbrigðilega ómennska veru sem þarf annað hvort að laga eða láta hverfa. Þetta gerir mig stundum örmagna. Ég tekst á við það með hjálp frá fjölskyldu og vinum en fyrst og fremst baráttusystkinum mínum sem deila sambærilegum reynsluheimi og ég – Tabúkonur koma þar sterkar inn. Þau gefa mér orku til þess að vera til í veröld sem ekki er búinn til fyrir fatlað fólk og aðra hópa sem eru sendir út á jaðarinn með kerfisbundnum hætti til þess að trufla ekki lífsstíl og heimsmynd forréttindahópa.

Finnst þér helst brotið á fötluðum einstaklingum á Íslandi?

Það er ekki bara mín persónulega skoðun – það er staðreynd. Rannsóknir sýna að fatlað fólk hér á landi býr margt hvert við fátækt og félagslega einangrun, fatlaðir brotaþolar ofbeldis hafa ekki sama aðgang að réttarkerfinu eins og ófatlaðir brotaþolar (og nógu slæmt er það fyrir þann hóp), fatlað fólk fær ekki þá aðstoð sem það þarf, hefur ekki aðgang að upplýsingum og fær ekki tækifæri á atvinnumarkaðnum. Ég gæti haldið endalaust áfram. Íslensk löggjöf er veik þegar kemur að réttarvernd fatlaðs fólks og bann við mismunun, Samningur Sameinuðu þjóðanna hefur hvorki verið fullgildur né lögfestur þrátt fyrir að hafa verið undirritaður fyrir níu árum á Íslandi og fatlað fólk hefur sjaldnast sæti við borðið þar sem persónulegar og pólitískar ákvarðanir eru teknar um líf þess. Dómskerfið hefur svo verið að sýna hugleysi sitt og fordóma í verki undanfarið með því að sýkna Reykjavíkurborg trekk í trekk fyrir mannréttindabrot á fólki með þroskahömlun. Hin meinta jafnréttisparadís sem Ísland vill gefa sig út fyrir að vera er að bregðast okkur, fötluðu fólki, með alvarlegum afleiðingum.

Hvað mætti betur fara og hvert væri fyrsta skrefið?

Fyrsta skrefið er tvímælalaust að lögfesta og í kjölfarið fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við verðum að hafa réttarstöðu sem manneskjur. Setja þarf skýra verkferla um aðkomu og áhrif fatlaðs fólks að ákvörðunum, stefnumótun og lagasetningu í málum sem okkur varða á öllum stigum stjórnsýslunnar. Ófatlað fólk hefur ekki þá þekkingu sem þarf til þess að sjá um þetta eitt. Setja þarf fjármagn í frekari rannsóknir á stöðu fatlaðs fólks með skilyrðum um aðkomu og leiðandi stöðu fatlaðs fólks í þeim rannsóknum, svo þekking okkar og sérhæfing nýtist sem best, ásamt skýrum kröfum um að tilvera okkar sé jafnframt skoðuð út frá fleiri sjónarhornum, t.d. aldri, kyngervi og stétt. Á meðan ekki eru til upplýsingar og tölfræði um stöðu okkar komast stjórnmála- og embættismenn upp með að láta eins og allt sé í stakasta lagi og bera stöðugt fyrir sig vanþekkingu. Dæmi um beinar aðgerðir sem þarf svo að fara í strax að mínu mati er að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð fyrir allt fólk óháð skerðingu, búsetu og aldri. Einnig að auka þekkingu stjórnenda, bæta aðgengi fyrirtækja og stofnanna, draga úr fordómum, stuðla að fjölbreytni á vinnumarkaði og mögulega taka upp kvóta í ráðningum svo fatlað fólk hafi raunverulega jöfn tækifæri í atvinnulífinu og sé ekki mismunað. Örorkulífeyrir þarf að tryggja lífskjör en ekki lífsviðurværi og stöðva þarf hatursfulla orðræðu um bótaþega sem svindlara. Erlendar rannsóknir, m.a. breskar, sýna að slík orðræða stuðlar að auknum hatursglæpum gagnvart fötluðu fólki og ótímabærum dauðsföllum fatlaðs fólks. Þessi upptalning er ekki tæmandi.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Ég er hræðilega léleg og óskipulögð í matarinnkaupum svo aldrei er hægt að ganga að neinu vísu í ísskápnum. En oft má þar finna flatkökur, skyr og mjólk í kaffið mitt.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Allt sem amma Freyja gerir er uppáhaldsmaturinn minn. Hún toppar alla veitingastaði.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Ég er að lesa Litlar byltingar: draumar um betri daga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur samhliða skólabókum af ýmsu tagi. Frábær, fyndin, átakanleg og hressandi bók. Margar bækur eru mér afar kærar og þykir mér erfitt að gera upp á milli þeirra, eiginlega svolítið ósanngjarnt. The Cancer Journals eftir Audre Lorde er bók sem ég hef nýlega lesið. Hún breytti lífi mínu til hins betra.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Ver tíma með börnunum í lífi mínu. Það er besta trítið.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ég hugsa oftast með mér, eftir að vera búin að fá minnimáttarkenndarkast og fara í gegnum dramatíska en oft skiljanlega tilfinningarússíbanareið, að ég sé búin að geta svo margt að ég geti þetta líka.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Mér finnst óþægilegt að horfa mikið fram í tíman. Bæði hefur líf mitt oft tekið óvæntum breytingum sem rústa plönum en það finnst mér líka heillandi. Svo er ég fötluð kona sem bý í samfélagi sem tryggir ekki jöfn tækifæri og brýtur oft mannréttindi mín og það gerir það að verkum að ég verð oft hrædd við að hugsa um framtíðina af ótta við misrétttið. Það þýðir samt ekki að ég sé mikið fyrir að taka einn dag í einu, ég er of stórtæk fyrir það. En núna er aðalverkefnið, eins og alltaf, að njóta þess sem ég er að gera en einnig vinna hörðum höndum að framtíðardraumum, svo þeir verði að veruleika í nánustu framtíð.