Fara í efni

VIÐTALIÐ – Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur heldur erindi á ráðstefnunni Hver hugar að þinni heilsu kona góð?

VIÐTALIÐ – Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur heldur erindi á ráðstefnunni Hver hugar að þinni …

Geir Gunnar Markússon er einn þekktasti næringarfræðingur landsins og skrifar hnitmiðaðar og skarpar greinar um heilsu og næringu.

Geir er í flottu viðtali við Heilsutorg m.a. í tilefni ráðstefnu sem halda á, þar sem heilsa kvenna er aðal umræðuefnið.

Fullt nafn:

Geir Gunnar Markússon

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér og hvaðan ert þú?

Ég er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði árið 1975. Sólvangur er í dag hjúkrunarheimili og get ég því lagst til hinnstu hvílu á nákvæmlega sama stað og í kom í heiminn. Ég er með mjög sterkar taugar til Hafnarfjarðar og lít á mig sem Gaflara þó að ég búi með fjölskyldu minni í Kópavogi í dag.
Ég er giftur, á þrjár dætur og einn hund.

Menntun og við hvað starfar þú í dag?

Ég er með B.Sc. í matvælafræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í næringarfræði frá KVL Háskólanum í Kaupmannahöfn. Auk þess hef ég ýmis próf í íþróttaþjálfun s.s. crossfit þjálfari (level 1) og einkaþjálfun frá ISSA.
Í dag starfa ég sem næringarfræðingur á Heilsustofnun Náttúrulækingafélags Íslands (NLFÍ) i Hveragerði og í Heilsuborg í Reykjavík.  Einnig starfa ég fyrir NLFÍ, sem ristjóri heimasíðu NLFÍ (www.nlfi.is).
Ég held einnig reglulega heilsu- og næringarfyrirlestra á eigin vegum fyrir fyrirtæki og stofnanir hér á landi.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mjög mikinn áhuga á hreyfingu (helst úti í náttúru Íslands) s.s. hlaupum, hjólreiðum og allskyns styrktaræfingum.
Tónlist hefur alltaf fylgt mér og er ein af mínum helstu áhugamálum. Tónlistin er mín skemmtun, hugðleiðsla og andlega þerapía.
Fjölskylda mín og samvistir með henni gefa mér bestu stundir lífs míns og er fjölskyldan eitt aðal áhugamálið.

Bakgrunnur í íþróttum?

Það er ekki mikill bakgrunnur sem ég hef íþróttum þó ég hafi alltaf haft mikla hreyfiþörf. Var sem unglingur í badminton en var áður búinn að reyna allar hópíþróttir s.s. fótbolta, körfubolta og handbolta en entist aldrei lengur en tvær æfingar.  Byrjaði að hlaupa mikið á unglingsárum og þá bara á eingin forsendum, þó að frjálsíþróttaþjálfarar í FH hafi reynt að fá mig á æfingar. Hlaupin eru enn þann dag í dag líklega mín uppáhaldshreyfing, þó ég blandi henni oft við styrktaræfingar.

Þann 20. október n.k er ráðstefnan Hver hugar að þinni heilsu kona góð? – Hvernig kemur þú að þessari ráðstefnu?

Ég var fenginn til að vera með erindi á þessari ráðstefnu um eitt af mínum hugðarefnum í næringunni sem eru matarinnkaup okkar.  Erindið mitt ber heitið Maturinn í innkaupakerrunni – ástarfæði?“
Við þurfum að vera miklu meðvitaðri um hollustu matarins sem við setjum ofan í matvörukörfurnar. Í þessu erindi mínu á ráðstefnunni tala ég m.a. um leiðir til að versla hollara með því að lesa á umbúðir, forðast hættulega staði í búðinni og einfaldar reglur að hollari innkaupum.
Það er mér mikill heiður að fá að tala á þessar ráðstefnu og hvet ég alla til að kynna sér dagskrá ráðstefnunnar HÉR

Segðu okkur aðeins frá því sem þú kallar ástarfæði?

Það er mín von að við förum að huga betur að því fæði sem við setjum í matarkörfurnar, því sú fæða er ástarfæðan fyrir þá sem við elskum hvað mest í lífi okkar (nánustu fjölskyldu). Setjum meiri ást í innkaupum og sýnum þeim sem við deilum heimili með að við elskum þau útaf lífinu og þyki svo vænt um það að við viljum frekar gefa þeim spergilkál en oreokex.  Því er það raunveruleg ást að fylla fjölskyldu okkar af mat sem nærir og byggir upp hraustan líkama og veldur auk þess ekki ýmsum lífsstílssjúkdómum þegar fram líða stundir!

Hvað finnst þér um heilsu- og holdafar Íslendinga í dag?

Mér líst ekki nógu vel á heilsu- og holdafar okkar. Það er alltof mikil ofneyslu á orkudrykkjum, sykurlausum drykkjum og dauðum gervimat á Íslandi í dag. Við höngum of mikið í símunum okkar og hreyfum okkur of lítið. Svefnleysi er stór áhrifaþáttur í heilsuleysi okkar og við þurfum að fara að setja hann í algjöran forgang og gera allt til að ná órofnum 7-8 klst. svefn án svefnlyfja. Stressið er einnig að drepa okkur og það hefur stór áhrif á mataræðið, svefninn og hreyfingu til hins verra.
En ég væri ekki í þessu starfi ef ég hefði ekki trú á því að störf mín hefðu áhrif og ég geti aðstoðað einhverja í átt að hollari lífsháttum. Þó vissulega fallist mér stundum hendur þegar ég sé áhrifamátt markaðsaflanna með óhollu matvörurnar og drykkjarföngin.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Epli, egg og lýsi.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?

Mér finnst allur matur góður en ég verð að segja að hafragrauturinn minn á morgnana sé mitt uppáhald. Hægt er að kynna sér innihald hans hér https://nlfi.is/heilsan/geiragrautur/
Það kemur enginn uppáhaldsmatsölustaður upp í hugann en Ragnheiður kona mín er frábær kokkur og galdrar fram marga góða rétti í eldhúsinu okkar.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið?

Ég var að klára „10 leiðir til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp“ eftir Hallgrím Helgason. Skemmtilega hnyttin bók og mikil rýni á íslenskt samfélag.
Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er ein besta bók sem ég hef lesið.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?

Ég held ég hafi sem betur fer aldrei kunnað að „tríta“ mig eins og margir aðrir „tríta“ sig. Mitt „trít“ væri að hlaupa rösklega tvær ferðir (og jafnvel þrjár í góðu stuði) á Helgafellið, taka amk 40-50 armbeygjur og hnébeygjur þar uppi og upplifa svo endorfínkikkið það sem eftir er dagsins.

Hvað segir þú við sjálfan þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?

Ég er nokkuð duglegur að tala mig upp og ef ég þarf svona egó „boost“ tengt erfiðum verkefnum. Helst nota ég bara mína möntru og segi eins oft og ég þarf ; „Ég er fo...frábær og get allt sem ég vil“. Þetta þrælvirkar og hvet ég alla til að vera duglega að tala sig upp.

Hvar sérð þú sjálfan þig fyrir þér eftir 5 ár?

Sem enn betri og lífsreyndari útgáfu af sjálfum mér. Verð farin að hreyfa mig meira eftir ungbarnauppeldi undanfarinna ára, verð enn að ráðleggja fólki með heilsuna og á vonandi hamingjusamar dætur og eiginkonu.

Geir Gunnar Markússon
ggunnar@gmail.com

Á samfélagsmiðlum
Facebook:
Heilsugeirinn
Hollmatarinnkaup
Thinheilsaehf (Þín heilsa ehf)

Shapchat:
Heilsugeirinn