Fara í efni

Viðtalið – Ágústa Ýr stundar svifvængjaflug af fullum krafti og hér segir hún okkur frá sportinu

Okkur á Heilsutorgi langaði að forvitnast um svifvængjaflug og höfðum samband við félagið þeirra. Ágústa Ýr var ekki lengi að svara og til í að segja okkur frá hennar sporti. Endilega lesið skemmtilega og fræðandi viðtal við hana.
Viðtalið – Ágústa Ýr stundar svifvængjaflug af fullum krafti og hér segir hún okkur frá sportinu

Okkur á Heilsutorgi langaði að forvitnast um svifvængjaflug og höfðum samband við félagið þeirra. Ágústa Ýr var ekki lengi að svara og til í að segja okkur frá hennar sporti. Endilega lesið skemmtilega og fræðandi viðtal við hana.

Fullt nafn: Ágústa Ýr Sveinsdóttir

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ertu ?

Ég er uppalin á Skálanesi í Reykhólahrepp og búa foreldrar mínir ennþá þar. Einnig fór ég flest grunnskóla árin í Grunnskóla Húnaþings - vestra á Laugarbakka í Miðfirði.

Ég mun alltaf lýsa mér sem rólegri manneskju, þar sem ég á auðvelt með að una mér við einföldustu hluti og þarf ekki að hafa mikið að gerast í kringum mig til að njóta stundarinnar. En einnig hef ég rosalega gaman af því að prófa nýja hluti og gera eitthvað sem ég vissi ekki að ég gæti gert. Takast á við áskoranir og læra af þeim.

Ég er alltaf til í gott ævintýri.

Menntun og við hvað starfar þú í dag ?

Ég er fjölmiðlatæknir, rafvirki og með stúdentspróf. Er núna að læra BA í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Ásamt því að vinna sem rafvirki.

Hver eru þín helstu áhugamál ?

Mitt aðaláhugamál er svifvængjaflug. Með ástundun á svifvængjaflugi er mikil ferðabaktería og mikill áhugi á mismunandi menningu og siðum. Einnig elska ég að prjóna og lesa góðar bækur, helst með heitan tebolla.

Hvað er svifvængjaflug?  

Í svifvængjaflugi ferðu upp á fjall og flýgur þaðan niður á sértökum væng. Það eru nokkrar útgáfur af svifvængjaflugi en algengast er annað hvort Cross Country flug eða Acro flug. Í Cross Country flugi flýgurðu af stað frá einhverju fjalli og þú nýtir vermikviku (heitt loft á leiðinni upp) til að halda þér uppi. Þú reynir að fljúga einhverja vegalengdir og komast hingað og þangað, oft fyrirfram ákveðin leið eða jafnvel tekurðu ákvarðanir bara í loftinu. Þeir sem stunda þetta flug geta verið að fljúga hundruðu kílómetra og í marga klukkutíma.

Í Acro flugi þá ertu að gera alskyns æfingar, þú ferð yfirleitt ekki langar vegalengdir, heldur reynirðu að leika allskyns kúnstir á vænginn.

Í svifvængjaflugi nýtir þú ekkert vélarafl, einungis krafta náttúrunnar. Þess vegna ertu frjáls í loftinu og flýgur með fuglunum. Það er hægt að líkja þessu við að vera í rólu, nema þú ert bara miklu hærra uppi og með magnað útsýni.

Það eru margar hliðar greinar af svifvængjaflugi, eins og t.d. Paramotoring (þar flýgurðu með mótor á bakinu), Speed flying (þar ferðu hratt niður eftir fjalli á litlum væng) og fleira.

Drekaflug (e. Hanggliding) er mjög skylt sport, en þó er búnaðurinn allt annar. Kosturinn við svifvængja flug er að þú kemur öllum búnaðinum í bakpoka og getur labbað með hann hvert sem þú vilt komast.

Hver var kveikjan að því að þú fórst að stunda svifvængjaflug ?

Ég var á bakpokaferðalagi árið 2011 í Nepal. Ég og vinkona mín ákváðum að skella okkur í farþegaflug þar, það er rosalega mikið af allskyns jaðarsportum í Nepal, fórum líka í River Rafting, safarí ferðir og allkonar. En ég man hvað mér fannst ótrúlega gaman af fluginu og hvað mig langaði að gera meira, prófa meira og langaði að upplifa þessa frelsis tilfinningu aftur og aftur. Það var síðan fyrir tilviljun að þegar ég var komin heim vorið 2012 sendi félagi minn mér auglýsingu um byrjendanámskeið í svifvængjaflugi á Íslandi, ég held reyndar að það hafi verið smá djók hjá honum. En ég var mjög spennt fyrir þessu, skráði mig og sendi honum skilaboð um það.

Segðu okkur aðeins frá félaginu ?

Svifvængjafélag Íslands er nýjasta félag fyrir sportið á Íslandi. Við ákváðum nokkur í vor að reyna að stofna sterkt félag fyrir okkur sem myndi einungis einbeita sér að okkar sporti. Ætlunin er sú að styðja við þá sem vilja koma fram með nýjungar, hafa góðar upplýsingar fyrir þá sem vilja stunda og keppa í sportinu. En fyrst og fremst að styrka sportið hér á landi.

Er þetta dýrt sport ?

Hversu dýrt sportið er fer eftir því hvernig þú ætlar að stunda það. Sem er það fallega við sportið, þú getur aðlagað það að þér og þínum þörfum og þeim aðstæðum sem þú ert í að hverju sinni. Námskeið eru misdýr, en ódýrari heldur en byrjendanámskeið í mörgum öðrum jaðarsportum. Þú þarft að kaupa þinn búnað þegar þú ert búinn með byrjendanámskeiðið ef þú vilt halda áfram. Það er hægt að kaupa notaðan búnað bæði á Íslandi og úti en einnig nýjan, en þeir sem selja nýjan búnað halda verðinu í lágmarki og er ódýrara að kaupa búnað á Íslandi heldur en í flestum öðrum löndum.

Það er oft talað um að start kostnaðurinn sé dálítill en síðan eftir það er kostnaðurinn frekar lítill. Það þarf að senda búnaðinn í skoðun á tveggja ára fresti og er það ekki dýrt. Og ef þú skemmir ekkert þá er lítið sem þú þarft að leggja út fyrir sportið.

Það er frítt að stunda það hérna á Íslandi og við erum nokkuð frjáls hvar við viljum fljúga. Flestir sem stunda svifvængjaflug vilja fara í allavega eina utanlandsferð á ári. En margir sem byrja að stunda sportið fá mikla ferðabakteríu, enda ferðast maður oft á ótrúlega staði sem er ekki endilega hinn venjulegi ferðamannastaður.

Hvað þarf maður að eiga til að byrja ?

Til þess að fara á byrjendanámskeið þarf einungis að eiga góða skó sem halda við ökklann, hjálm (hjólhjálmar eru í lagi til að byrja með) og þægileg föt sem henta veðri. En á byrjenda námskeiðum færðu allan búnað til flugs að láni.

Eftir að námskeiði er lokið og þú vilt halda áfram að stunda sportið þá er algjör grunnbúnaður að eiga væng, harness, varafallhlíf og speed bar. Mælt er með því að eiga gps, hæðarmæli (vario) og  talstöð. Síðan er hægt að bæta við ýmsu eftir þörfum og hvernig þú ert að stunda flugið. Hvort þú er að fara að keppa, vilt stunda hike and fly, vilt fljúga bara annað slagið eða þar fram eftir götunum.

 

Hvað er aldurstakmark til að fljúga svifvængjaflug ?

Það er leyfilegt að læra að fljúga 14 ára. En hinsvegar þarftu að vera með foreldri eða forráðamanni þar til þú ert orðinn 18 ára og vera með skriflegt leyfi til að fá að fljúga frá þeim. Það fer samt eftir þeim sem er að kenna hversu unga nemendur þeir vilja taka. Oft er byrjað að kenna undirstöður mjög vel áður en byrjað er að fljúga og geta unglingar byrjað á því og orðið mjög góðir í öllum æfingum á jörðinni áður en þeir fara í sitt fyrsta flug. En þessar æfingar á jörðinni eru mjög mikilvægar til þess að stunda sportið örugglega.

Það eru í sumum löndum eins og Englandi, sem er ekki leyfilegt að fljúga einn fyrr en þu ert orðinn 16 ára.

Hvaða tegund af heilsurækt stundar þú?

Í svifvængjaflugi ertu mikið úti í náttúrunni, þú labbar oft upp á fjöllin með búnaðinn í bakpoka. Ásamt því keppi ég í sportinu og það tekur mjög mikið á. Ég reyni að stunda yoga þegar ég kemst í það á ferðalögum. En heima við held ég áfram að stunda yoga ásamt því að stunda líkamrækt.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?

Egg, sítrónur og kotasælu.

Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður ?

Ég elska indverskan mat, þegar ég er í útlöndum leita ég oft uppi góða indverska veitingastaði. Ásamt því, elska ég götumat í Asíu. Hérna heima finnst mér Saffran alltaf vera með góðan mat.

Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er besta bók sem þú hefur lesið ?

Þessa dagana er ég aðallega að lesa námsbækurnar mínar. En einnig er ég að lesa núna The Meditation Transformation eftir Jennifer Brooks. Mér finnst mjög mikilvægt að vera með hugann á réttum stað og þessvegna finnst mér gott að lesa hugleiðslubækur. Ég er nýbúin að lesa 50 ways to fly better eftir Bruce Goldsmith, en sú bók er samasafn af greinum eftir nokkra sem eru að gera það gott í svifvængjaheiminum. Ég hef lesið nokkrar bækur fyrir sportið en það voru greinar í þessarri bók sem hjálpuðu mér mikið að ákveða hvaða væntingar ég ætti að hafa fyrir sportið og mörg góð ráð um hvernig ég get bætt mig.

Besta bók sem ég hef lesið verður eiginlega að vera Harry Potter bækurnar. Ég er forfallin Harry Potter aðdáandi og ég er að spá í að eyða jólafríinu mínu í að lesa allar bækurnar aftur, eða eins langt og ég kemst.

Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?  

Ég reyni alltaf að vera rosalega góð við sjálfa mig. En það besta sem ég geri er að fara heim í sveitina og slappa þar af, vinna sveitaverkin og hafa lítið sem ekkert samband við umheiminn. Þannig hleð ég batteríin og er tilbúin til þess að takast aftur á við hið daglega líf.

Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?

Ég reyni að undirbúa mig eins vel og ég get. Ég einbeiti mér að verkefninu sem liggur fyrir og er ekki að spá í öðru áreiti á meðan. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa hausinn á réttum stað, hafa rétt viðhorf og ég reyni að einbeita mér mikið að því að vera ekki að flækja hlutina fyrir mér. Ég reyni einnig að peppa mig upp með viðeigandi hvatningarorðum. Ég set mér mörg lítil markmið til þess að komast að stóra lokamarkmiðinu. T.d. þegar ég er að keppa er ég með lítið borð með gps, talstöð og hæðamæli, þar set ég alltaf lítinn miða þar sem stendur eitthvað sem er gott að líta á til að komast í gegnum keppnisdaginn. Núna á seinasta móti var ég með „þolinmæði þrautir vinnur allar“ þar sem ég var að gera vitleysur því ég ákvað að drífa mig í staðinn fyrir að nýta þolinmæðina. Og svo stóð líka „Þú getur þetta! Komast í Goal!“.

Svo er mikilvægt að líða líka vel líkamlega. Ég passa mig að borða góðan mat, sofa vel og slaka á.

Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár ?

Eftir 5 ár verð ég vonandi ennþá á fullu í svifvængjafluginu. Ég vona að ég verði farin að keppa á heimsmeistaramótum og evrópumótum. Einnig væri ég til í að vera með leiðsagðar ferðir fyrir erlenda flugmenn hérna á Íslandi. Ásamt því verð ég pottþétt einhverstaðar að ferðast og kynnast nýjum löndum, nýju fólki og öðrum siðum og tungumálum.

En fyrir 5 árum þá hafði ég ekki hugmynd að ég myndi vera á þeim stað sem ég er í dag, þannig að framtíðin verður bara að koma í ljós.