Fara í efni

Viðmiðunarmörk um biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu

Biðtími eftir læknisþjónustu og ýmsum skurðaðgerðum á Íslandi er oft langur. Samkvæmt könnunum Embættis landlæknis bíða meira en 80% sjúklinga lengur en tvö ár eftir mjaðmarskiptum eða hnjáskiptum.
Viðmiðunarmörk um biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu

Biðtími eftir læknisþjónustu og ýmsum skurðaðgerðum á Íslandi er oft langur.

Samkvæmt könnunum Embættis landlæknis bíða meira en 80% sjúklinga lengur en tvö ár eftir mjaðmarskiptum eða hnjáskiptum.

Erlendis gilda víða þau viðmið að meira en 80% sjúklinga skuli komast í þessar aðgerðir innan þriggja mánaða.

Samkvæmt landslögum á íslensk heilbrigðisþjónusta að veita þá bestu þjónustu sem völ er á hvað varðar aðgengi, gæði og öryggi. Embætti landlæknis hefur kannað hvaða markmið eru sett í nágrannalöndum okkar varðandi aðgengi þjónustunnar.

Út frá þeirri könnun hefur embættið ákveðið viðmiðunarmörk um það sem getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu.

Eftirfarandi viðmið gilda:

  1. Samband við heilsugæslustöð samdægurs.
  2. Viðtal við heilsugæslulækni innan 5 daga.
  3. Skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga.
  4. Aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu.

Í öllum tilvikum er átt við þann tíma sem líður frá því að sjúklingur hefur samband við heilbrigðisþjónustu út af einkennum eða frá því að þörf fyrir viðkomandi þjónustu er greind.

Þessi tímamörk eiga ekki við þegar um bráðaþjónustu er að ræða eða um greiningu og meðferð illkynja sjúkdóma.

 

Birgir Jakobsson
landlæknir