Fara í efni

Skráargatið á enn fleiri matvæli

Skráargatið er opinbert samnorrænt merki sem finna má á umbúðum matvæla sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi magn nokkurra næringarefna.
Skráargatið á enn fleiri matvæli

Skráargatið er opinbert samnorrænt merki sem finna má á umbúðum matvæla sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi magn nokkurra næringarefna.

Skráargatsmerktar vörur eru því næringarlega séð betur samsettar en aðrar vörur í sama flokki sem uppfylla ekki skilyrðin til að bera merkið. Sumir telja Skráargatið vera „megrunar“ merki, þ.e. að þau matvæli sem bera merkið séu mjög orkuskert en svo er ekki endilega heldur er áherslan á næringarefnin.

Markmiðið með Skráargatinu er að auðvelda neytendum að velja fæði sem er í takt við opinberar ráðleggingar um mataræði og stuðla þannig að heilsusamlegra mataræði. Skráargatsmerkið er einnig hvatning fyrir matvælaframleiðendur til að þróa hollari vörur og stuðlar þannig að auknu úrvali heilsusamlegra matvæla á markaði.

Ný reglugerð um Skráargatið

Ný og endurgerð reglugerð um Skráargatið nr. 428/2015 tók gildi þann 17. apríl sl. og nú geta enn fleiri matvæli borið Skráargatsmerkið en áður. Til að mega bera Skráargatið þurfa matvæli að innihalda minna salt og sykur, hollari fitu og meira af heilkorni og trefjum en sambærileg matvæli sem ekki geta borið Skráargatið. Helstu breytingar á skilyrðum fyrir notkun Skráargatsins í nýju reglugerðinni varða minna salt og hollari fitu. Einnig bætast nýir matvælaflokkar við og verða samtals 33 í stað 25 flokka í fyrri reglugerð. Sem dæmi um ný matvæli sem geta borið Skráargatsmerkið eru sósur og ósaltaðar hnetur auk ýmissa glúten- og laktósalausra matvara í sumum matvælaflokkum reglugerðarinnar.

Skráargatið má nota á umbúðum matvara en einnig á óforpökkuð matvæli og með nýju reglugerðinni geta fleiri óforpökkuð matvæli borið Skráargatið en áður var. Merkið má t.d. nota á óunninn fisk, grænmeti, ávexti, óunnið kjöt, brauð, hrökkbrauð og osta sem eru óforpökkuð. Skráargatið má hins vegar ekki nota á skyndibitastöðum, né öðrum veitingastöðum, á rétti sem útbúnir eru á staðnum (þ.e. óforpakkaðir réttir).

Ekki þarf leyfi fyrir notkun Skráargatsins

Framleiðendum og innflytjendum er frjálst að nota Skráargatið á matvörur svo framarlega sem vörurnar uppfylla skilyrðin fyrir notkun merkisins. Skráargatið er skilgreint sem næringarfullyrðing, þar sem merkið miðlar jákvæðum eiginleikum varðandi ákveðin næringarefni í matvörunum sem það bera. Því þarf merkið að vera í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins (EB) nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar á matvælum (íslensk reglugerð nr. 406/2010) en þar er gerð krafa um að tilkynnt sé um notkun allra næringar- og heilsufullyrðinga. Því þarf að tilkynna um notkun Skráargatsins til Matvælastofnunar og færa rök fyrir notkun þess sem og að senda sýnishorn af merkimiða.

Helga M Pálsdsóttir,

Höfundur er matvælafræðingur og starfar hjá Matvælastofnun