Fara í efni

Barnabólusetningastefna Ástrala virðist vera að virka: Engin bólusetning – Engar barnabætur

Umdeild stefna Ástrala þegar kemur að bólusetningum barna virðist vera að bera árangur. Um er að ræða stefnu þar sem foreldrar fá ekki greiddar barnabætur frá ríkinu nema búið sé að bólusetja börnin.
Barnabólusetningastefna Ástrala virðist vera að virka: Engin bólusetning – Engar barnabætur

Umdeild stefna Ástrala þegar kemur að bólusetningum barna virðist vera að bera árangur.

Um er að ræða stefnu þar sem foreldrar fá ekki greiddar barnabætur frá ríkinu nema búið sé að bólusetja börnin.

Er stefnan kölluð Engin stunga, engar bætur í daglegu tali og var tekin í notkun fyrir rúmlega ári síðan.

Nýjustu tölur um hlutfall bólusettra í Ástralíu fer nú hækkandi en gagnrýnendur eru ekki sannfærðir. Ástralska dagblaðið Sydney Morning Herald greinir frá þessu máli.

Fyrir rúmu ári voru um 90% barna í Ástralíu bólusett en nú er hlutfallið 93%. Christian Porter félagsmálaráðherra Ástralíu sagði við fjölmiðla að hlutfallshækkun bólusettra barna sé staðfesting á því að stefnan sé að virka:

"Til að gefa börnum okkar bestu mögulegu vörn gegn sjúkdómum eins og kíghósta, þá erum við að miða við að minnsta kosti 95% barna í landinu verði bólusett og „Engin stunga, engar bætur“-stefnan skiptir sköpum þegar kemur að því að ná markmiðinu"

sagði Porter. Stefnan var sett í gang fyrir rúmu ári en foreldrar gátu sótt um undanþágu vegna trúarskoðana fram að áramótum. Frá því í janúar síðastliðnum hafa foreldrar sem ekki hafa bólusett barn eða börn sín ekki fengið greiddar barnabætur. Á þessum tíma hafa 5.738 börn sem voru áður á undanþágulista verið bólusett.

Andstæðingar bólusetninga urðu æfir þegar tilkynnt var um stefnuna í fyrra og er enn nokkuð um að foreldrar hafni barnabótum til að þurfa ekki að bólusetja. Gagnrýnendur stefnunnar koma ekki einungis úr röðum andstæðinga bólusetninga heldur einnig meðal mannréttindasamtaka sem segja ekki alla, sérstaklega fátækt fólk sem býr í dreifbýli, ekki eiga kost á því að láta bólusetja börn sín.  

Stefna yfirvalda á Íslandi, sem er birt á vef Landlæknis, miðar að því að 95% barna í viðeigandi árgöngum í grunnskóla skuli vera bólusett og 98% barna séu fullbólusett í lok 10.bekkjar.

Frétt af vef pressan.is