Fara í efni

Mjólkurlaus afmælisveisla en allveg himmnesk hamingja.

Mjólkurlaus afmælisveisla með Dóróteu í Oz köku, Ávaxtaprinsessu og Prinsessumöffins
Dóróteu í Oz köku, Ávaxtaprinsessu og möffins
Dóróteu í Oz köku, Ávaxtaprinsessu og möffins

Mjólkurlaus afmælisveisla með Dóróteu í Oz köku, Ávaxtaprinsessu og Prinsessumöffins

Fyrir afmælið sitt vildi eldri dóttir mín fá köku eins og Dórótea í Oz sem og prinsessu köku. Ég hafði aldrei gert sykurmassaköku áður en ákvað samt að slá til og gera hana mjólkurlausa, enda báðar stelpurnar og ég sjálf á mjólkurlausu fæði á þeim tíma. Útkoman varð alveg ágæt og var dóttirin í skýjunum. Ég gerði sykurmassakökuna kvöldið áður og geymdi inn í kæli. Tók hana svo út 4 tímum fyrir afmælið svo kremið væri ekki mjög hart. Mæli samt með ef mögulegt er að gera kremið samdægurs því kókosolían getur verið lengi að mýkjast.  Skúffukökuuppskriftin sem ég notaði er rosalega góð í svona köku sérstaklega þar sem kakan verður svo létt í sér og passar því vel með þykku kremi og sykurmassa. 

Skúffukaka

​4 egg (eða samsvarandi af eggjalíki)
250 gr mild kókosolía
300 gr hrásykur (má nota aðra sætu)
500 gr hveiti
2 tsk vínsteinslyftiduft
2 tsk maldon salt
1 tsk matarsódi
6 msk kakó
4 dl rísmjólk/vatn
2 tsk vanilludropar 

Egg og sykur þeytt vel saman, kókosolían sett í heitt vatnsbað og látin bráðna, henni svo bætt varlega út í vel þeytta eggja-og sykurblönduna. Vanilludropum og mjólk hellt út í. Þurrefnum blandað saman sér og þeim bætt varlega út í, passa að hræra ekki of mikið en það vel að deigið verði kekkjalaust.

Ofnskúffa klædd að innan með álpappír og deiginu helt ofan í. Bakað við 200 - 210 °C í ca 25 mínútur eða þangað til miðjan er bökuð. Kakan kæld áður en byrjað er að vinna með hana.

Kókosolíukrem - "smjörkrem"

​Til að setja á milli kökulaga sem og til að festa sykurmassann vel við kökuna þarf auðvitað að gera "smjörkrem". Í þau fáu skipti þar sem gerðar eru dísætar og ljúffengar súkkulaðikökur á mínu heimili er nú notað kókosólíukrem í stað smjörkrems. Ég hefði aldrei trúað því hvað kókosolíukremið er gott og auðvelt að vinna með. Verður örlítið „blautara“ þegar ný búið er að vinna það en þá er gott að kæla það í smá tíma áður en sett er á kökuna. Ég nota alveg sömu hlutföll og í hefðbundnu smjörkremi nema nota milda kókosolíu í staðinn. Sjálf er ég ekkert voðalega hrifin af of miklu kókosbragði en auðvitað er líka hægt að nota venjulega kókosolíu. Það þarf að vinna kókosolíuna svolítið lengi í hrærivélinni með flórsykrinum svo það komi rétt áferð, en verið bara dugleg að hræra. Með hitanum sem kemur af hrærivélinni þá gerist þetta að lokum og kremið verður algjör dásemd.

400 gr mild kókosolía
500 gr flórsykur
2 tsk vanilludropar
6 msk kakó (ef vill hafa kremið brúnt) 

Kókosolían höfð við stofuhita og þeytt saman við flórsykurinn, vanilludropum og kakói bætt út í. Allt látið þeytast vel þar til kremið er silkimjúkt og auðvelt að vinna með. Það þarf að þeyta kremið mjög vel og gott að leyfa þessu að vinnast í a.m.k. 5 mínútur í hrærivélinni. Fyrst lítur þetta út fyrir að ætla að verða einn sykurklumpur en bíðið bara við og sjáið hvað gerist þegar kremið hefur fengið að hrærast vel og kemur hiti í kremið.

Kakan skorin og sett saman

​Þegar skúffukakan er full bökuð kæli ég hana vel og sný henni svo við á borð og tek álpappírinn varlega af, leyfi henni svo að kólna aðeins betur. Til þess að gera Dóróteu voru skornir út 5 hringir af mismunandi stærð. Ég notaði plastform úr IKEA sem ég á í 5 mismunandi stærðum til að mæla þetta út, en auðvitað hægt að klippa til hringi úr pappa eða nota bara augað til að mæla þetta út.

Næst setti ég stærsta hringinn á kökudiskinn sem ég ætlaði að nota og smurði kókosolíukremi yfir, setti svo næsta hring og krem og svo koll af kolli. Smurði svo alla kökuna að utan með kreminu

Sykurmassi

​Það er svolítið vesen að gera sykurmassa og því mæli ég alveg með því að kaupa hann tilbúinn í verslunum eins og "Allt í köku". En ef þið eruð til í hörkuna er hér ágætis uppskrift.

Uppskrift

250 - 300 gr sykurpúðar (ca 1 poki)
500 gr flórsykur
olía 
vatn 

Stór skál smurð létt með olíu. Sykurpúðarnir settir í skálina og 2 tsk af vatni yfir og inn í örbylgjuofn í 30 sekúndur. Hrært í á milli. Endurtekið þar til sykurpúðarnir eru orðnir að sléttri leðju. Flórsykrinum dreift á borðplötu og gígur myndarður. Sykurpúðaleðjunni helt í gíginn og byrjað að leggja flórsykurinn yfir. Tekið vel af flórsykrinum undan sykurpúðablöndunni þegar byrjað er að hnoða og passa að koma ekki við blönduna. Hnoðað þangað til nær allur flórsykurinn er kominn sman við eða þar til massinn líkist leir.

Athugið að sykurmassinn er mjög mjúkur þegar hann er fyrst gerður og þarf að standa eða fara í ísskáp í smá stund áður en hægt er að fletja hann út.

Sykurmassi geymist í kæli vikum saman. Þegar hann er tekinn úr kæli þá er hann frekar harður en hægt er að mýkja hann upp með því að hnoða hann eða skella í nokkrar sekúndur í örbylgjuofn.

Ef sykurmassi verður of þurr er hægt að hnoða smá vatni saman við en athugið að vatn er fljótt að gera sykurmassann klístraðan.

Massinn er svo litaður að vild, best að setja litinn strax í með sykurpúðablöndunni.

Tilbúinn massi

Ef lita á tilbúinn massa er gott að að búa til lítinn gíg í massann setja litinn þar í, taka massann og bretta yfir litinn og hnoða litinn þannig inn í massann, þ.e. að passa vel að liturinn nái sem minnst að komast í snertingu við þig eða borðið, enda oft erfitt að ná þessum lit af.  Þegar ég gerði bláan massa varð allt blátt og mæli ég með því að hafa smjörpappír undir massanum þegar er verið að blanda hann við litinn og eins að vera með plasthanska við vinnuna. Annars verða puttarnir bláir í nokkra daga.

Massinn er svo flattur út og lagður yfir kökuna. Til að gera kjólinn var massinn flattur út í einhvers konar hring og svo lagður mitt yfir kökuna, mjög einfalt og kom vel út hvernig kjóllinn formaðist.

Svo var keypt dúkka á pinna sem líka er hægt að fá hjá "Allt í köku". 

Klæddi hana í sykurmassa að ofan og skreytti svo með örlitlum hvítum sykurmassa sem hafði verið eftir. Auðvitað er Dórótea í köflóttum kjól en ég treysti mér bara ekki í þá vinnu svona í fyrsta kasti.

Að lokum var hárið sett í tvær flettur og settar slaufur til að líkjast Dóróteu sem mest.

Ávaxtaprinsessa og prinsessumuffins

Til að hafa með kökunni gerði ég svo muffins úr sama deigi og kakan og skreytti með hvítu „kókosolíu“ kremi (uppskrift hér ofar), blandaði smá hvítu glimmer við kremið sem hægt er að fá hjá „Allt í Köku“ og setti í prinsessuform.

Skar svo út melónur, gulrætur og ananas til þess að hafa einhverja hollustu með sykrinum og gerði úr því Ávaxtaprinsessu sem smakkaðist ekkert síður en kakan sjálf. Þá dúkku klæddi ég í efni að ofan af götóttum sokk.

Prinessuafmælið heppnaðist vel og alveg hægt að baka flottar afmæliskökur þótt mjólkurofnæmi og óþol sé til staðar hjá afmælisbarninu. Sykurinn er svo annað mál en ég hef haldið sykurlaust afmæli og er það efni fyrir í aðra uppskriftafærslu.

Uppskrift: Stefania Sigurdardóttir