Fara í efni

Kryddaðar bleikju tacos með stökku hrásalati og límónu sósu frá Eldhúsperlum

Ég hvet ykkur til að prófa að matreiða fisk með þessum hætti og er þess næstum fullviss að ungir sem aldnir kunna að meta þessháttar fiskmáltíð.
Fiski Taco frá Eldhúsperlur.com
Fiski Taco frá Eldhúsperlur.com

Mikið var ég yfir mig ánægð með þessa máltíð. Þetta er sko kvöldmatur að mínu skapi. Einfalt, bragðmikið, tekur enga stund að elda, ferskt, hollustan í fyrirrúmi og allir á heimilinu vilja borða.

Það væri líka gott að bera þetta fram með stökkum taco skeljum en okkur þykir betra að nota þær mjúku en steikja þær dálítið áður á þurri pönnu svo þær taki á sig smá lit.

Ég hvet ykkur til að prófa að matreiða fisk með þessum hætti og er þess næstum fullviss að ungir sem aldnir kunna að meta þessháttar fiskmáltíð.

Það má nota hvaða fisk sem er, svo lengi sem hann er spriklandi nýr. Ég steikti roðið á bleikjunni mjög vel, reif það svo niður og bar fram með vefjunum. Syni mínum þykir það eins og hið besta snakk og svo er voða gott að finna knassandi stökkt og bragðmikið roðið með fiskinum í vefjunum. 

Kryddaðar bleikju tacos með stökku hrásalati (fyrir 3):

 • 700 gr bleikjuflök, beinhreinsuð
 • Paprikuduft (gott að nota reykta eða sterka papriku ef þið eigið)
 • Sítrónupipar
 • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
 • 1 msk smjör
 • Hrásalat:
 • 1/2 lítið iceberg höfuð smátt saxað
 • Góð handfylli saxað kóríander
 • 4 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar
 • 2 msk hvítvínsedik eða borðedik
 • 2 tsk sykur/hrásykur/hunang eða önnur sæta
 • Sjávarsalt eftir smekk
 • Límónusósa:
 • 1 dós sýrðu rjómi
 • 2 tsk majónes
 • Börkur og safi af hálfri límónu
 • Smá salt og smá sykur eða önnu sæta eftir smekk

Aðferð: Byrjið á að gera sósuna. Hrærið öllu saman í skál og látið standa á meðan restin af réttinum er gerð. Blandið öllu í hrásalatið saman, hellið ediki, sykri og salti yfir og blandið vel saman. Smakkið ykkur áfram. Kryddið fiskinn mjög vel báðu megin með paprikudufti, sítrónupipar, sjávarsalti og pipar. Hitið grillpönnu eða venjulega pönnu á meðalhita og bræðið um 1 msk af smjöri. Steikið fiskinn fyrst á roðhliðinni í 4-5 mínútur eða þar til roðið er vel stökkt. Snúið fiskinum þá við, hækkið aðeins hitann og steikið áfram í 1-2 mínútur. Takið fiskinn af, setjið á disk og berið fram með þurrsteiktum tortillavefjum eða taco skeljum, límónusósunni, hrásalatinu, límónubátum.. og e.t.v chillipipar ef þið viljið auka hita.

Birt í samstarfi við

Hér finnur þú Eldhúsperlur á Facebook