Fara í efni

Hvað getur komið í staðinn fyrir hveiti ?

Fólk getur verið með ofnæmi fyrir hveiti eða óþol fyrir glúteni. Glúten er einnig í rúgi og byggi og því þurfa þeir sem ekki þola glúten einnig að forðast þær mjölvörur.
Glúten er einnig í rúgi og byggi
Glúten er einnig í rúgi og byggi

Fólk getur verið með ofnæmi fyrir hveiti eða óþol fyrir glúteni. Glúten er einnig í rúgi og byggi og því þurfa þeir sem ekki þola glúten einnig að forðast þær mjölvörur. Fólk með ofnæmi fyrir hveiti þarf oft einnig að forðast þessar matvörur þar sem að þær innihalda svipaða ofnæmisvaka. Auk þess eru þessar mjölvörur oftast unnar í sömu myllum og pakkað í sömu verksmiðjum og verða því oft smitaðar hvor af annarri. Hafrar geta af sömu ástæðum verið smitaðir af hveiti en hægt er að fá í verslunum svokallaða hreina hafra. Þegar óþol fyrir glúteni er til staðar þarf að velja aðrar mjöltegundir. Þetta eru hrís (rís), maís og maíssterkja, hirsi, bókhveiti og kartöflumjöl. Einnig minna algengar tegundir eins og quinoa, amarant og tapióka. Á markaðnum eru einnig glútensnauðar mjölblöndur til að baka úr brauð og kökur og voru það mikil þáttaskil þegar slíkar vörur fóru að fást. Þessar blöndur innihalda ýmist hveitisterkju eða glútensnautt mjöl. Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem eru með glútenóþol geta notað allar glútensnauðar mjölblöndur en þeir sem eru með ofnæmi fyrir hveiti geta ekki alltaf notað vörur með hveitisterkju. Hægt er að fá gútensnautt brauð, pasta og morgunkorn en margar kolvetnaríkar matvörur eru glútensnauðar frá náttúrunnar hendi og henta því vel inn á glútensnauðan matseðil. Dæmi um það eru hrísgrjón, hýðishrísgrjón, rísnúðlur, sagógrjón, polentagrjón, baunir og linsubaunir svo og kartöflur og sætar kartöflur. Morgunkorn sem gert er úr hreinum maís er án glútens en mikilvægt er að lesa vel á innihaldslýsingar. Einnig er til múslí sem er glútensnautt.

Einstaklingar með glútenóþol þurfa að huga sérlega vel að orku- og trefjainntöku og hvað B-vítamín varðar þá geta þau orðið af skornum skammti. Einnig er ljóst að matargerð og bakstur er flóknara og innkaup nokkuð dýrari og skipulagið allt flóknara en ella. Til þess að tryggja að næringunni sé ekki ábótavant þarf að huga vel að fjölbreytninni og að borða nóg þá úr þeim fæðuflokkum sem nefndir eru hér að ofan.

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarráðgjafi, næringarfræðingur, eldhúsi Landspítala
Kolbrún Einarsdóttir, næringarráðgjafi, næringarstofu Landspítala